10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

222. mál, læknaskipunarlög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í trausti þess, að hv. sjálfstæðismenn hafi örlitla biðlund til þess að hlusta á umræður um þetta mál þá langar mig til þess að leggja hér örfá orð í belg. Ég verð að segja það, að mér finnst umræður af því tagi, sem nokkrir hv. þm. hafa tekið hér þátt í í sambandi við þá brtt., sem við þrír þm. flytjum við það frv., sem hér er til umr., vera komnar á nokkuð lágt stig, þegar látið er að því liggja, að við flm. þessarar till. séum þannig hugsandi, að við með tillöguflutningi okkar viljum torvelda, að fólkið víðs vegar um landið geti búið við sæmilega læknisþjónustu. Það er jafnvel látið að því liggja, af fullkomnu smekkleysi af sumum, sem hér hafa talað, að okkur sé nánast lítils virði líf og vellíðan þessa fólks. Þessu vil ég mótmæla og vísa til föðurhúsanna sem algjörlega órökstuddum staðhæfingum, sem tillöguflutningur okkar þremenninganna gefur ekki tilefni til.

Síðan ég kom á hv. Alþ. fyrir 13 árum, þá minnist ég þess, held ég, frá hverju því þingi, sem ég hef setið, að þar hafi orðið meiri eða minni umræður um læknaskort í dreifbýlinu, og því hefur verið lýst með mörgum og átakanlegum orðum. hve ástandið væri vont í þessum málum. Til úrbóta á þessu vandamáli hefur sífellt verið horfið að einu og sama ráðinu, það er því, að reyna með fjárgreiðslum til lækna eða læknanema að fá þá til þess að stunda læknisþjónustu úti í héruðunum um einhvern takmarkaðan tíma. Í 13 ár hefur hv. Alþ. fetað þá braut að reyna að ráða bót á miklu þjóðfélagslegu vandamáli með aðferðum, sem hafa sýnt sig í framkvæmd algjörlega gagnslausar. Þessi uppkaup eða þessi fríðindaboð til lækna og læknanema hafa sannarlega ekki komið að haldi og ég get sagt það, þó að ég vilji ekki, að menn taki það of illa upp fyrir mér, er ég segi og nota til þess gefið tilefni, sem hér hefur komið fram, að ég tel, að ábyrgð þeirra manna, þeirra hv. alþm., sem hafa staðið að því að reyna þessar bráðabirgðaúrlausnir, sem engan árangur hafa borið, hún er ekki minni heldur en okkar, þegar látið er að því liggja, að við kunnum að vera að vinna eitthvert óskaplegt ódáðaverk með brtt.-flutningi okkar við þetta frv. Því að í krafti þessara bráðabirgðaaðgerða hefur því verið skotið á frest ár eftir ár á hv. Alþ. að ráðast að rótum þess vanda, sem hér er við að glíma. Það hefur ekki að því ég bezt veit verið athugað eða a. m. k. ekki verið fluttar hér stefnumarkandi róttækar till., sem miða að því og væru til þess fallnar að breyta því ástandi, sem til staðar er í læknamálum dreifbýlisins með því að ráðast að vandanum, þar sem hann er til staðar. Og ég á þá ekki sízt við sjálft læknanámið í háskólanum. Ég á þó nokkuð marga bekkjarbræður og skólafélaga, bæði úr menntaskóla og háskóla, sem eru starfandi læknar, og hef átt þess nokkur tækifæri að ræða við þá um heilbrigðismál almennt og þá m. a. þetta mikla vandamál úti í hinum dreifðu byggðum, og ég bað þá í sambandi við þær umræður, sem hér standa yfir út af þessu frv., að gefa mér á blað nokkra punkta um þeirra skoðanir í þessu máli og ég vildi gjarnan, ef það væri til þess tími, mega lesa fyrir hv. alþm. það, sem þeir hafa fest á blað og ég hef fengið leyfi til þess að flytja. En ég veit, að meiningin er að hraða þessum þingfundi, og vil því láta þetta nægja í þetta skipti, af því að það gefst vafalaust tækifæri til þess síðar að koma inn á þetta mikla mál, heilbrigðisþjónustuna, í sambandi við það frv., sem kynnt hefur verið og á væntanlega að ræða á næsta þingi. Þá gefst tækifæri til þess að koma inn á þetta. En til þess að nota ekki of mikinn tíma þá ætla ég að leyfa mér að lesa aðeins niðurstöður þess, sem þessir læknar segja um heilbrigðisþjónustumálin í okkar ágæta landi.

Þeir segja svo: „Á Íslandi ríkir ófremdarástand í sjúkrahúsmálum. Aðalókosturinn er, að rekin skuli þrjú sjúkrahús í Reykjavík, sem öll taka við ,.akút“sjúklingum. Slíkt er ofviða 200 þús. manna þjóð. Eina lausnin er sú að reka hér eitt sjúkrahús. Það hefur verið talað um, að í sambandi við eitt sjúkrahús misstu læknar af samkeppni. Læknisfræði er alþjóðleg fræðigrein, og við hljótum alltaf að verða að reyna að miða sjúkrahús okkar við það, sem gerist erlendis. Sú viðmiðun er okkur í dag mjög óhagstæð, og ég sé enga aðra leið til úrbóta en að sameinast um eitt þokkalegt sjúkrahús. Væri og tími til kominn, að heilbrigðisyfirvöld gæfu út einhverja áætlun um nauðsynlegan fjölda sjúkrarúma á Íslandi og hvaða sérdeildir skuli vera á sjúkrahúsum.“ Um sjúkrahús í dreifbýlinu segja þeir: „Það er almenn skoðun hérlendis, að öllu sé borgið um leið og búið sé að byggja einhvern smáspítala einhvers staðar úti á landsbyggðinni. Þetta er í algjörri andstöðu við þróun mála í öðrum löndum. Sjúkrahús verða flóknari og þau þarfnast fleiri og fleiri sérfræðinga og sérdeilda, bæði við sjúkdómsgreiningar og við meðferð. Hér er leyfilegt að gera hvaða stóraðgerð sem vera skal á hvaða sjúkrahúsi sem er á landinu. Hér er ekki verið að gera lítið úr hæfni einstakra lækna, en þessi sjúkrahús vantar allan útbúnað til sjúkdómsgreininga og eftirmeðferðar á þessum sjúklingum. Engar reglur eru til um það hérlendis, hvaða aðgerðir megi gera í þessum litlu sjúkraskýlum, og ber slíkt vott um fáheyrðan slóðaskap heilbrigðisyfirvalda.“ Svo segja þeir hér m. a. um læknamál í dreifbýlinu: „Það virðist trú“, og ég bið hv. alþm. að taka eftir, „það virðist trú sumra stjórnmálamanna, að hægt sé að leysa læknaskort í dreifbýlinu með því að fjölga læknum, sem útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands. Þetta er misskilningur. Það fæst enginn læknir nú á dögum til þess að sitja einn yfir héraði með 3–500 mönnum í“, og ég bið hv. alþm. að taka sérstaklega eftir þessu, af því að ég tel að það 13 ára tímabil, sem ég hef setið á þingi, undirstriki, hvað þessir læknar fara með rétt mál. Svo halda þeir áfram: „Hann getur á engan hátt haldið við kunnáttu sinni, og hann hefur ekkert samband við starfsbræður sína. Það er skoðun okkar, að áður en læknar taka að sér slík störf muni þeir heldur leita til útlanda.“ Kannast menn ekki við það líka? „Þá er þetta að nokkru leyti sök læknadeildar Háskóla Íslands, því að þeim læknum, sem útskrifast frá deildinni, virðist hafa verið kennt, að sjúkrahússtörf séu þau einu læknisstörf, sem einhvers virði væru.“ Hér komum við að mjög veigamiklum kjarnapunkti, sem ég minnist ekki, að hafi verið ráðizt til róttækra aðgerða gegn öll þau 13 ár, sem ég hef verið hér á hv. Alþ., þ. e. í sambandi við sjálft læknanámið, hvernig því skuli hagað með tilliti til þess að leysa þann vanda, sem við erum hér að tala um.

„Talað hefur verið um að stofna sérstakt prófessorsembætti í heimilislækningum við læknadeildina og það var fyrir mörgum árum, sem það var umtalað, en ekkert hefur orðið úr þeim framkvæmdum enn þá.“ Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þetta innlegg á ekki bróðir minn, sem er læknir og ýmsir kynnu að halda, að væri höfundur þessa. En eins og ég segi, þá er hér um álitsgerð nokkurra lækna að ræða, sem eru á svipuðum aldri og ég og ég hef haft tækifæri til að taka við. Ég tel, að þeim tíma sé ekki illa varið, sem ég hef notað til þess að kynna þeirra sjónarmið.

Ég vil svo aðeins að endingu segja það, vegna þeirra orða, sem hér hafa verið látin falla í okkar garð, sem flytjum þessa brtt., að ég hef ekki nokkra trú á því, jafnvel þótt brtt. okkar væri samþykkt, sem er nú sennilegt, að ekki verði, að peningavandræði hæstv. heilbrmrh. varni því, að nokkrir af þeim læknastúdentum, sem nú eru við nám í Háskólanum, — ef þeir á annað borð fást til þess að fara út á land, — að peningaskortur verði til þess að koma í veg fyrir, að það geti orðið. Vísa ég því þegar af þeirri ástæðu öllum ásökunum til okkar um, að við séum að vinna eitthvert óhæfuverk með flutningi þessarar brtt., til föðurhúsanna og ég vil bæta því við, að fyrir okkur í hv. heilbr.- og félmn. lágu upplýsingar, sem gáfu okkur rétt til þess, ótvírætt öllum nm. að líta á þetta mál sem svo, að sú heimild, sem felst í 3. gr. frv. og um hefur verið talað, hún leysti á engan hátt þann vanda, sem við er að glíma, og hv. 1. flm. þessarar brtt. kom inn á umsögn Félags læknanema við Háskóla Íslands og gat þess líka í sinni ræðu, að fulltrúar frá læknanemum gerðu ekki svo lítið að mæta á fundi í heilbr.- og félmn., sem boðaður var sérstaklega til að ræða þetta frv.