10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

222. mál, læknaskipunarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það má sjálfsagt fjöldamargt um þetta mál segja og ræða um það frá ýmsum hliðum, og margt er rétt í því, sem síðustu ræðumenn hafa sagt. Ég þykist hafa nokkra reynslu af þessum málum. Ég ræddi þetta nokkuð í sambandi við umr. um heilsugæzlufrv., sem hér var kynnt fyrir skömmu. Ég tel, að þessi mál séu öll í heildarendurskoðun og þurfi að athugast og ræðast miklu betur. En hingað til hef ég ekki haft nema eina stefnu í þessum málum og hún er sú, að neyta allra bragða og leita allra ráða til að leysa þann vanda, sem mætir hverju sinni. Ég viðurkenni það, að hæstv. heilbrmrh. og ríkisstj. eru þarna að gera tilraun til að leysa mikinn vanda, sem við blasir í náinni framtíð. Þess vegna vil ég á engan hátt bregða fæti fyrir þetta frv. Og þótt ég gæti ýmislegt sagt um þessi mál eitt og annað, þá vil ég á engan hátt nota þetta tækifæri né lengja þessar umr. til þeirra hluta, heldur aðeins lýsa því yfir, að ég mun fylgja sömu stefnu og hingað til: Veita þessa heimild í jafnbrýnu nauðsynjamáli, styðja hæstv. heilbrmrh. og ríkisstj. í þessu efni og það frv., sem fyrir liggur.