12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

222. mál, læknaskipunarlög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér þrjú ný heimildarákvæði í læknaskipunarlögum, og hafa þessi heimildarákvæði þann tilgang að auðvelda heilbrigðisyfirvöldum að gera bráðabirgðaráðstafanir til að bæta úr læknaskorti í strjálbýlinu. Eins og kunnugt er, liggur nú fyrir þinginu frv. um gerbreytta heildarskipun heilbrigðismála, og ég geri mér vonir um, að sú löggjöf kunni að verða samþ. á næsta þingi, og sú skipan, sem í henni felst, glæðir alla vega vonir manna um það, að hægt verði að finna leiðir til þess að leysa vandamál strjálbýlisins til frambúðar, a. m. k. mun betur en tekizt hefur til þessa, en hitt er ljóst, að það mun taka langan tíma að koma þessari nýju skipan í framkvæmd, og sá vandi, sem á okkur brennur, mun gera það enn þá í allmörg ár, sá vandi að fá lækna til starfa í strjálbýlinu. Þessi vandi lenti á mér á síðasta hausti, og það er það erfiðasta og sárasta viðfangsefni, sem ég hef glímt við. Það tókst að firra miklum vandræðum, vegna þess að læknar í Reykjavík og ekki sízt á sjúkrahúsunum tóku á mjög jákvæðan hátt undir óskir mínar um, að þeir skiptust á um störf í strjálbýlinu. Ég tel, að við stöndum í þakkarskuld við þessa lækna, sem leystu mikinn vanda í vetur. En þessi vandi kemur upp í haust aftur, og þess vegna er maður að reyna að láta sér til hugar koma hvers kyns aðferðir til þess að auðvelda lausn þessa máls.

Fyrsta heimildarákvæðið, sem felst í 1. gr., er það, að heilbrmrh. sé heimilt í samráði við fjmrn. að stofna við ríkisspítalana sérstakar læknisstöður, sem bundnar eru skilyrði um ákveðna þjónustu í héraði. Þetta er hugmynd, sem upphaflega er komin frá læknasamtökunum, og mér sýndist í fyrstu, að hún væri ekki sérlega álitleg, vegna þess að það er alkunn staðreynd, að það hefur reynzt erfitt að fá lækna í þau störf, sem fyrir eru á sjúkrahúsunum, og það er algengt, að stúdentar gegni þar kandídatastöðum. Hins vegar sýnist mér, að þessi heimild geti náð tilgangi sínum í sambandi við íslenzka lækna, sem dveljast erlendis. Ég ræddi þetta mál sérstaklega við íslenzku læknana í Svíþjóð, þegar ég hitti þá á þessum vetri, og bar það sérstaklega undir þá, hvort þeir teldu, að þessi skipan gæti stuðlað að því, að þeir kæmu heim til starfa. Þarna er um að ræða stöður, sem væru eins konar náms- og rannsóknarstöður, sem gætu gert mönnum kleift að ljúka ritgerðum sínum, en jafnframt ættu þeir að gegna störfum úti í héruðunum, eftir því sem þarfir segðu til um. Og þær undirtektir, sem ég fékk frá læknum þar, gefa mér vonir um, að af þessu geti fengizt nokkur árangur.

Í 2. gr. er heimildarákvæði, sem varðar héraðshjúkrunarkonur, en samkv. gildandi lögum er aðeins heimilað, að sex hjúkrunarkonur starfi hverju sinni í héruðum alls. Þessi lög hef ég neyðzt til þess að brjóta. Það eru nú starfandi úti í héruðunum um 14 hjúkrunarkonur og ég tel eðlilegt, að þessari takmörkun laganna verði breytt, þannig að það sé óskilgreindur fjöldi hjúkrunarkvenna, sem starfi í héruðunum hverju sinni, fari eftir aðstæðum og mati heilbrigðisyfirvalda. Það er einnig nýmæli í þessari gr., að sé héraðslæknislaust, þá greiði ríkissjóður laun þessara hjúkrunarkvenna að fullu, og þar er verið að staðfesta þá framkvæmd, sem verið hefur, því að læknishéraðasjóðir hafa greitt laun hjúkrunarkvenna á móti ríkissjóði, þar sem svo hefur staðið á undanfarin ár.

Þriðja heimildarákvæðið er svo það, að heimilt sé að fenginni umsögn landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands að veita læknanemum ríkisstyrki til náms gegn skuldbindingum um læknisþjónustu í strjálbýli að loknu námi. Það hefur tíðkazt undanfarin ár, að læknanemar hafa átt kost á lánum í þessu skyni, lánum, sem voru bundin við starfsskyldu í héruðum. En þessi ákvæði hafa ekki náð tilgangi sínum. Það hefur orðið þannig í raun, að flestir læknanemar hafa greitt upp þessi lán og ekki farið til starfa í héruðunum. Ég hafði samráð við læknanemana í haust um þetta mál og þeir töldu, að það væri líklegt, að árangur mundi nást með þeirri breytingu, sem þarna er gert ráð fyrir, þ. e. að þarna komi allhár styrkur, 200 þús. kr., sem eigi svo að fela í sér þá kvöð, að menn starfi í eitt ár í héraði út á það. Það sögðu mér læknanemar í haust, að um þetta væri að vísu ágreiningur í þeirra hópi og ný stjórn í Læknafélaginu hefði látið uppi neikvæða afstöðu við heilbr.- og félmn. Nd., en það er nú ekki við stjórn þessa félags að eiga, heldur er þarna um að ræða samninga við einstaklinga, og ég tel mig hafa ástæðu til þess að ætla, að ýmsir þeir, sem eru við nám í læknisfræði, muni verða fúsir til þess að gera samning af þessu tagi.

Eins og menn sjá, er þetta einvörðungu heimildarákvæði og frv. er flutt til þess að hafa leyfi Alþ. til þess að beita öllum tiltækum ráðum til þess að leysa þann vanda, sem við öll vitum, að muni blasa við okkur aftur í haust, og ég vænti þess, að hv. Ed. taki á jákvæðan hátt á þessu máli á sama hátt og Nd. gerði og legg ég til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.