15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

222. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til umsagnar frv. til l. um breytingu á læknaskipunarlögum á þskj. 457. Frv. er áður komið frá Nd. og n. mælir einróma með samþykkt frv. Mig langar engu að síður nú til þess, af þessu tilefni, að fara örfáum orðum um mál þetta á breiðari grundvelli einnig, aðeins örfáum orðum um leið og ég minni á helztu atriðin í þessu frv.

Læknamál og heilbrigðisþjónusta í strjálbýlum héruðum landsins hefur lengi verið mikið áhyggjuefni manna, en þó fyrst og fremst þeirra, er við hið mikla öryggisleysi búa, sumir hverjir allt að því neyðarástand og hafa gert árum saman. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar til þessa ástands, og skal ég ekki fara út í langa upptalningu á þeim, en sannarlega hafa menn reynt að leita orsakanna og ráða bót á vandanum. Nú virðist sú ástæða helzt vera nefnd, að félagslegar orsakir liggi hér til grundvallar, einangrun læknanna, erfiðleikar á að fylgjast með nýjungum, jafnvel hefur verið talað um skort á andlegu samfélagi við hæfi, og svo mætti áfram telja. Mér sýnist þó auðsætt, að veigamiklar orsakir liggi í geysilegu vinnuálagi margra héraðslækna og því mikla ófrelsi, sem þeir eiga við að búa. Lengi vel var launahliðin talin aðalvandamálið ásamt skorti á góðu húsnæði, og mun það hvort tveggja hafa átt við sín rök að styðjast, en flestir álíta þá hlið vandans nú úr sögunni að mestu, og má vera að svo sé.

Ekki virðast þó síðustu kröfur sjúkrahúslækna benda til þess, að sú hlið sé með öllu undanskilin, þó að e. t. v. sé ólíku saman að jafna, sjúkrahúslæknum eða héraðslæknum, og því geti verið erfitt að dæma hér um. Hvað sem um þetta má segja er staðreyndin ótvíræð, læknaskorturinn blasir við og öryggisleysið heldur áfram að reka æ fleiri úr byggðum landsins, því að án efa er þar að finna eina meginástæðuna til brottflutnings fólks til þéttbýlli staða, og hér þarf hart við að bregðast. Sú skoðun virðist nú eiga miklu fylgi að fagna, að í náinni framtíð muni vel búnar heilsugæzlustöðvar með tveim eða fleiri starfandi læknum og hjúkrunarliði leysa töluvert stóran hluta vandans. Spurningarnar eru hins vegar um það, hversu fljótt þessi uppbygging megi takast, hversu mikinn vanda stöðvarnar muni leysa og þá hve mikill vandi verður óleystur þrátt fyrir þessar miðstöðvar. Sú stefna virðist vera alls ráðandi, að sjúklingurinn komi til læknisins í stað hins, sem áður var algengast, að læknirinn væri sóttur til sjúklingsins. Til þess liggja auðskildar ástæður, bættar samgöngur, bætt flutningatækni og auk þess sú staðreynd, að dýrmætur vinnutími læknisins nýtist ólíkt betur. Þetta er þó ekki algilt og eftir sem áður þarf að huga að þeim, sem í mestri fjarlægð verða frá heilsugæzlustöðvunum og erfiðast eiga með að sækja til þeirra. Við því skal vara, að þessi regla eigi ævinlega og alltaf við, þótt fjarlægðir séu ekki til trafala. En hvað sem þessari framtíðarsýn líður er þó hitt staðreynd, að heilsugæzlustöðvarnar og ýmsar úrbætur þeim tengdar eiga enn langt í land sem veruleiki víðast hvar, þó að myndarlega yrði að unnið. Áfram hrjáir öryggisleysið og óvissan fjölmargt fólk úti í strjálbýlinu, og illar afleiðingar þess er óþarft að rekja. Ég held, að fátt, sem um þessi mál hefur verið rætt og ritað, hafi verið ofsagt eða of mikið hafi verið úr því gert, hver vá er hér á ferðinni. Það ber að viðurkenna, að ekki skortir á, að ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að bæta úr ríkjandi ástandi. Við erum hér einmitt að fjalla um mál þar sem reynt er að ráða einhverja bót á vandanum, þó að með bráðabirgðaúrræðum sé. Og bráðabirgðaúrræðin eru líka einu úrræðin, sem eiga við á meðan heildarlöggjöf er komið á og síðan reynt að byggja á henni raunhæfar og árangursríkar aðgerðir.

Þau þrjú úrræði, er þetta frv. fjallar um, eru öll líkleg til að geta nokkru um þokað til hins betra, og umr. hér á Alþ. hafa sýnt, að vísu með örfáum undantekningum, að menn eru trúaðir á, að hér sé leitað úrræða, sem gætu bætt einhverra hlut, forðað vá frá dyrum einhverra þeirra, sem í dag bíða þess milli vonar og ótta, hvort einhverja úrlausn megi takast að veita þeim.

Þetta frv. er einn liður í þeirri viðleitni hæstv. heilbrmrh. og hans nánasta starfsfólks, að leita allra bragða til að leysa vandann, ef mögulegt væri. Það hefur glögglega komið í ljós í umr., hve vel hv. þm. kunna að meta þessa baráttu, og er það vel. Ég tel óþarfa að fara mjög náið út í efnisatriði frv., en eins og áður sagði eru meginatriðin þrjú. Í fyrsta lagi gerir það ráð fyrir, að ráðh. sé heimilt að stofna sex sérstakar læknisstöður við ríkisspítalana, sem bundnar yrðu skilyrðum um ákveðna þjónustu í héraði. Í öðru lagi, að ríkissjóði verði heimilað að greiða 2/3 hluta af launum héraðshjúkrunarkvenna og í þriðja lagi, að heimilt verði, að fenginni umsögn landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands, að veita læknanemum ríkisstyrki til náms gegn skuldbindingum um læknisþjónustu í strjálbýli að loknu námi. Reglugerð fylgir með um síðasta atriðið, þar sem heimilað er að veita allt að 10 stúdentum námsstyrki allt að 200 þús. kr. Allt eru þetta atriði, sem hljóta að teljast sjálfsögð sakir þeirrar alvarlegu stöðu, sem þessi mál eru í.

Það er einlæg von mín, að þessi úrræði megi öll skila sem beztum árangri eins og til er ætlazt. Þau eru öll líkleg til þess að leysa einhvern hluta þess mikla vanda, sem hér er við að glíma, og við skulum vona, að jafnframt því muni okkur takast að leysa málin til frambúðar með nýrri heildarlöggjöf sem allra fyrst. Í trausti þess mælir n. einróma með samþykkt frv.