12.02.1972
Neðri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

222. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 545 um breytingar á jarðræktarlögum var flutt í hv. Ed. og var samþ. þar shlj. eins og það liggur fyrir. Þetta mál er flutt að tilhlutan Búnaðarfélags Íslands, en mþn. var kosin á Búnaðarþingi árið 1971, og hún hefur samið frv., og það var gengið frá því á síðasta Búnaðarþingi og það flutt að mestu leyti óbreytt eins og Búnaðarþing gekk frá því.

Í hv. Ed. gerði ég grein fyrir málinu allítarlega, svo að ég mun stytta mál mitt hér, en það, sem hér er um að ræða, er í fyrsta lagi það, að samkv. þessu frv., ef að lögum verður, verða allar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings við jarðrækt greiddar samkv. jarðræktarlögum. Með þessu frv. er lagt til að leggja niður Vélasjóð ríkisins, en starfsemi hans hefur dregizt mjög saman á síðustu árum. Helztu nýmæli í frv. eru, að framlög til vatnsveitna á einstökum heimilum eru nú tekin upp í jarðræktarlög. Áður hefur það verið svo, að það hafa verið greiddir styrkir til þeirra samkv. ákvörðun fjárlaga. Upp eru tekin framlög til hagaræktar, sem einnig er nýmæli, til kölkunar túna og aukinn er stuðningur við félagsræktun. Þetta eru þau atriði, er mestu máli skipta í sambandi við þessa lagabreytingu, en ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til 2. umr. og hv. landbn., og jafnframt leyfi ég mér að óska þess, að hv. landbn. hraði athugun sinni á málinu, þar sem skammt er nú til þingloka.