19.10.1971
Neðri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

2. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti.

Frv. það um staðfestingu á brbl., sem hér með er lagt fyrir hv. Alþ. af hálfu ríkisstj., er sprottið af stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar. Þar var ákveðið í kaflanum um kjaramál að gera leiðréttingu á vísitölu og vísitölugreiðslum, og í meðförum var ákveðið að hafa þann hátt á að bæta launþegum vísitölustigin 1.3, sem þeir höfðu farið á mis við, með því m.a. að fella niður námsbókagjald. Sú ráðstöfun var einnig í samræmi við það yfirlýsta markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að beita sér fyrir því að felldir yrðu niður nefskattar. Námsbókagjaldið varð hér fyrir valinu. Það nam samkv. útreikningi Hagstofunnar 0.31 F-stigi, en greiða þurfti niður 1.3 kaupgjaldsvísitölustig. Síðan áttu aðrar niðurgreiðslur sér stað einnig til vísitöluleiðréttingar, og munu frv. um þær koma til meðferðar Alþ. á sínum tíma. En eins og í lagagr. stendur, voru jafnframt því að fella niður námsbókagjaldið gerðar ráðstafanir til þess, að ríkissjóður tæki á sig þann kostnað, sem ríkisútgáfa námsbóka hefur fengið upp borinn af námsbókagjaldinu. Þessi ráðstöfun er þó að svo stöddu aðeins gerð til eins árs. Það hefur orðið að ráði að taka lögin um ríkisútgáfu námsbóka til athugunar og þá sérstaklega kostnaðarhliðina. Það verður gert á vegum menntmrn. og með þátttöku fjmrn.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa að sinni fleiri orð um þetta frv., en vil leggja til við hæstv. forseta, að því verði vísað til fjhn.