16.03.1972
Efri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal forðast að tefja tímann, en það er aðeins eitt atriði, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., sem ég tel mér nauðsynlegt að leiðrétta. Hann kvað hafa komið fram á ráðstefnunni verulega gagnrýni á það ákvæði frv. að flytja útflutningsgjöld af vissum sjávarafurðum yfir til þessarar stofnunar. Í þeim drögum, sem lögð voru fyrir þessa ráðstefnu, var önnur gr., 5. gr., með ákvæði um það, að leggja viðbótarútflutningsgjöld, 5% af tollverði, á útflutt hráefni, sem nota mætti til innlendrar niðursuðu eða niðurlagningar og sem keppir að öðrum kosti við íslenzka framleiðslu á erlendum mörkuðum, og svo voru þau talin upp. Það var þetta ákvæði, sem var mjög gagnrýnt á ráðstefnunni, en þegar ég fletti í gegnum þessa fundargerð, sem ég hef hér fyrir framan mig, finn ég hvergi gagnrýni á flutning útflutningsgjaldsins sem slíks til stofnunarinnar. Nefndin tók gagnrýnina að fullu til greina og strikaði það ákvæði, sem ég las áðan, út úr drögunum, enda er það ekki að finna í því, sem hér liggur fyrir.

Það mætti vitanlega halda hér langt faglegt erindi um niðursuðuiðnaðinn og getur vel verið til fróðleiks fyrir dm., en ég skal forðast það. Það má vel vera, að niðursuðuiðnaðurinn eigi í miklum erfiðleikum og muni eiga í miklum erfiðleikum, og jafnvel má vera, að hann eigi ekki framtíð hér, þó að ég hafi sannfærzt um hið gagnstæða af mínum kynnum af þessum iðnaði, eftir störfin í nefndinni, en það er alla vega sannfæring mín, að hann eigi sér enga framtíð nema sterk sölusamtök myndist fyrir þennan iðnað, nokkurn veginn eins og gert er ráð fyrir í þessum frv.