03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. til l. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins og mælir einróma með samþykkt þess, þó með nokkrum breytingum. Aftur á móti varð ágreiningur um eitt atriði frv., reyndar mjög mikilvægt atriði, þ. e. hvernig stjórn stofnunarinnar skuli skipuð, og einstakir nm. hafa því áskilið sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.

Á síðari árum hafa fjöldamargir einstaklingar og félagasamtök orðið til að benda á, hvílíkir möguleikar eru fólgnir í aukinni fullvinnslu íslenzkra sjávarafurða og framleiðslu ýmiss konar fullbúinna matarrétta úr hráefnum. Jafnframt hefur þá verið fjölyrt um þá óneitanlegu staðreynd, að íslenzkur niðursuðu- og niðurlagningariðnaður hefur ekki þróazt með eðlilegum hætti hér á landi. Menn hafa bent á það með réttu, að niðursuðu- og niðurlagningariðnaðurinn er einkennilega vanþróaður hér á landi miðað við mörg nálæg lönd og framleiðsluaukning í þessum iðnaði hefur ekki orðið slík, sem menn hafa vænzt. Í stuttu máli má segja, að þessi iðnaður hafi verið að hjakka svo til í sama farinu undanfarna áratugi.

Langt er síðan mönnum varð almennt ljóst, hvað helzt hefur staðið þessum iðnaði fyrir þrifum. Það eru að sjálfsögðu markaðs- og sölumálin. Þau hafa alla tíð verið í molum, enda íslenzkir framleiðendur smáir, fjárvana og lítils megandi á erlendum mörkuðum. Oft hefur staðið til að átak yrði gert til að brjóta niðursuðuiðnaðinum leið út úr sjálfheldunni. Margar nefndir hafa verið skipaðar til að gera till. um úrbætur og í þær hafa valizt ágætustu sérfræðingar okkar. Þeir hafa skilað frá sér ítarlegum og merkum till. til stjórnvalda, en till. þeirra hafa því miður ekki komizt í framkvæmd og við það hefur setið. Eina tilraun hafa framleiðendur sjálfir gert til þess að brjóta sér leið inn á erlenda markaði. Árið 1968 var framkvæmd markaðsrannsókn af kanadíska ráðgjafarfyrirtækinu Stevenson & Kellogg, sem var kostuð með styrk frá Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaðan af þessari rannsókn var sú, að líklegt væri, að með markvissu átaki væri mögulegt að afla niðursuðu- og niðurlagningarvörum erlendra markaða á fimm árum, sem næmu að verðmæti 900–1000 millj. ísl. króna á þáverandi gengi. Í framhaldi af þessari bjartsýnu og álitlegu niðurstöðu sérfræðinganna var stofnuð fyrirtækjasamsteypa, sem bar nafnið Sameinuðu niðursuðuverksmiðjurnar og í voru fimm stærstu framleiðendur í niðursuðuiðnaði á þeirri tíð. Jafnframt var útvegað lán hjá stofnun, sem ber heitið International Finance Corporation og er í tengslum við Alþjóðabankann, og átti það að veitast þessum nýju samtökum að fenginni ábyrgð frá íslenzkum banka. Upphæð þessa láns var 1 millj. dollara eða jafngildi 88 millj. ísl. króna. Jafnframt þessu var gert ráð fyrir því, að þessi nýju samtök keyptu upp verulegan hluta af hlutabréfunum í þeim fimm verksmiðjum, sem stóðu að þessu nýja fyrirtæki, þannig að þær hefðu raunverulega orðið eign samtakanna og þarna hefði þá orðið um að ræða eina fyrirtækjasamsteypu með sameiginlega sölustarfsemi, sameiginlegt gæðaeftirlit og sameiginleg hráefnainnkaup og alla aðra starfsemi að sjálfsögðu sameiginlega nema framleiðsluna. Það er skemmst frá að segja, að þessi tilraun fór algjörlega í vaskinn og mistókst. Skýringin á því var sú, að því er komizt verður næst, að enginn íslenzkur banki fékkst til að bera ábyrgð á þessu mikla láni, sem ekki átti að festa í —neinni áþreifanlegri eign, hvorki fasteign né lausafjármunum, heldur átti að renna til sölustarfsemi og til að skapa ný viðskiptasambönd, sem því miður þykja ekki nægilega örugg andlög veðréttinda. Þar af leiddi sem sagt, að af láninu varð ekki. Bankaábyrgðin var ófáanleg og þessi samtök komust aldrei á legg. Ég minni hér á þessi atriði, vegna þess að ég tel, að við verðum að hafa þessa forsögu málsins vel í huga, þegar við ræðum um það, sem nú er í bígerð í niðursuðumálum, og fjöllum um það frv., sem hér er á dagskrá.

Það var eitt mikilvægasta fyrirheitið, sem fólst í málefnasamningi núv. ríkisstj., að gert yrði stórátak til að efla niðursuðuiðnaðinn í landinu. Hæstv. iðnrh. skipaði þriggja manna nefnd í haust til að undirbúa framkvæmd þessa fyrirheits. Ég vil skjóta því að í framhjáhlaupi, að ég minnist þess, að af hálfu stjórnarandstöðunnar var talsverð tilraun gerð til þess að gera hávaða út af því á sínum tíma, að í fyrrnefnda nefnd voru ekki valdir sérfræðingar í niðursuðumálum. Ég held hins vegar, að þeir, sem betur þekktu til, hafi gert sér almennt grein fyrir því, að sú gagnrýni var á algjörum misskilningi byggð. Þess þurfti ekki með í þetta sinn, að samin yrði enn ein sérfræðileg umsögn um vandamál niðursuðuiðnaðarins. Sérfræðilegar skýrslur og álitsgerðir voru nægar fyrir hendi. Það, sem til þurfti, var að koma málinu á framkvæmdastig. Það þurfti að safna saman fyrirliggjandi gögnum og móta stefnu, sem stjórnvöld væru reiðubúin að standa við og hrinda í framkvæmd.

Störf þessarar nefndar hafa í aðalatriðum verið þessi: Í fyrsta lagi að kanna til hlítar, hverjar voru hinar raunverulegu ástæður til þess, að áformin um Sameinuðu niðursuðuverksmiðjurnar og starfsemi þeirra gufuðu upp á sínum tíma og ekkert varð úr þessari markaðssókn, sem var fyrirhuguð. Í öðru lagi að semja frv. um ný sölusamtök fyrir þennan iðnað, sem gætu valdið því stóra og mikla hlutverki, að ryðja íslenzkum niðursuðu- og niðurlagningariðnaði brautina á erlenda markaði. Það er frv., sem við erum nú með hér til umr. Í þriðja lagi að semja nýtt frv. um niðursuðuverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Það frv. hefur verið lagt fyrir Alþ. og afgr. frá hv. Ed. Í fjórða lagi að athuga um skipulag gæðaeftirlits fyrir þennan iðnað. Það mál er nú í framhaldsathugun hjá nokkrum mönnum, sem sérfróðir eru um málefni þessa iðnaðar. Í fimmta lagi tók nefndin sér fyrir hendur að kanna með aðstoð sérfræðinga vandamál nokkurra niðursuðufyrirtækja, sem lent hafa í sérstökum erfiðleikum.

Ég vil nú víkja nánar að þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þeim ábendingum, sem n. hafa borizt í skriflegum umsögnum frá ýmsum aðilum, og jafnframt þá að þeim brtt., sem n. hefur orðið sammála um að flytja. Það er þá fyrst til að taka heiti stofnunarinnar og þar með heiti frv. Ég get upplýst það, að nefndin, sem samdi þetta frv., gerði sér fyllilega grein fyrir því, að þarna var um rangnefni að ræða, og hún ætlaðist einmitt til þess, að fundið yrði nýtt nafn yfir þennan iðnað, áður en frá því yrði gengið hér á Alþ. Það hefði verið rangnefni að nefna þetta „sölustofnun niðursuðuiðnaðarins“, vegna þess að þessari stofnun er einmitt ætlað að selja framleiðslu, sem ekki hefur verið niðursoðin. Það er tvennt ólíkt, niðursoðnar vörur og niðurlagðar vörur, en að vera stöðugt með þennan langa hala, nefna bæði niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir, þegar á þessi mál er minnzt, það er að sjálfsögðu mikið óhagræði. Nefndin lét það nægja að koma með nýyrði inn í annað af þessum frv., sem hún skilaði af sér, þ. e. frv. um lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði. Hún kom með þetta nýyrði, sem er lagmeti, — heildarheiti fyrir alla þessa framleiðslu, hvort sem hún hefur verið soðin niður eða lögð niður, — og vildi láta á það reyna, hvort alþm. gætu sætt sig við þetta nýja orð. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég hef orðið var við allmikla gagnrýni. Sumir telja, að mönnum komi ómeti í hug, er á lagmeti verði minnzt, en ég geri nú ekki mikið úr þeirri gagnrýni og vil að endingu nefna það, að nefndin sendi þetta til umsagnar nýyrðanefndar, sem mælti eindregið með því, að nafni frv. yrði breytt og þetta orð yrði tekið upp sem nýyrði í málinu.

Það eru því allmargar gr. í frv., sem breytast þessu til samræmis. Hvað snertir 2. gr. frv. þá fjallar hún um viðfangsefni stofnunarinnar. Þar er talið upp í sjö liðum, hvert skuli vera hlutverk stofnunarinnar. Það kom fljótlega fram við a-liðinn sú ábending frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, að það yrði að skilgreina betur, hvað þessi stofnun ætti að selja, því að það væri óeðlilegt, ef hún færi inn á verksvið Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og þeim fannst þetta óþarflega víðfeðmt orðalag, að stofnunin ætti að annast sölu á fullunnum sjávarafurðum almennt. Þess vegna var það ráð tekið að vísa hér til orðalags, sem er fyrr í málsgr., þar sem segir, að stofnunin eigi að selja niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir svo og rækju og annan skelfisk. Þetta eru þær vörur, sem stofnunin hefur heimild til að annast sölu á, og aðrar ekki, og þetta er bundið með brtt. n. við a-liðinn. Í b-lið frv. er gert ráð fyrir því, að þegar um það er að ræða, að ríkið geri vöruskiptasamninga við önnur ríki um sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum, þá komi það af sjálfu sér og sé lögbundið, að stofnunin, sem hér um ræðir, skuli annast þá sölu. Þarna er auðvitað fyrst og fremst átt við sölu á niðursoðnum og niðurlögðum vörum eða lagmetisvörum, sem er nú rétt að nefna þetta héðan í frá, til sósíalísku ríkjanna í Austur-Evrópu. N. leggur hins vegar til, að orðalaginu sé eilítið hnikað til og í staðinn fyrir að tengja þetta við vöruskiptasamninga, þá sé þetta tengt við lönd, þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn, eins og segir í brtt. n. í b-lið. N. hafði það í huga, að vöruskiptasamningar eru frekar á undanhaldi og óheppilegt að binda þetta við vöruskiptasamninga sem slíka, þegar það væri sérstaklega haft í huga, að þarna væri um að ræða samninga við ríkisstofnanir eða ríkið sjálft. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að Félag ísl. niðursuðuverksmiðja óskaði eftir því, að við gr. yrði bætt þeirri setningu, að slíkir samningar yrðu framvegis gerðir af stofnuninni fyrir milligöngu ríkisstj. Þeir sem sagt óskuðu eftir því, að það yrði lögbundið, að þegar um er að ræða samninga af þessu tagi, þá kæmi stofnunin til skjalanna og gengi frá slíkum samningum fyrir hönd ríkisstj. Við, sem eigum sæti í iðnn., gátum samt ekki fallizt á þessi tilmæli. Við töldum það liggja nokkuð í hlutarins eðli, að þegar um það yrði að ræða, að slíkir samningar yrðu gerðir, sem sölustofnunin ætti síðan að útfæra, væri ekki fram hjá henni gengið og hún yrði höfð með í ráðum og það yrði leitað til hennar um að eiga menn í viðkomandi samninganefnd, og starfið mundi fyrst og fremst hvíla á henni. Við töldum hins vegar óeðlilegt að fara að lögbinda þetta atriði, en eðlilegt að ríkisstj. hagaði þessu á þann hátt, sem hún telur skynsamlegt hverju sinni.

Hvað c-lið 2. gr. snertir, þá er þar um að ræða, hvernig haga skuli gæðaeftirliti með framleiðslu þeirra aðila, sem eru þátttakendur í samtökunum. Spurningin er og hefur verið sú, hvort rétt sé, að um verði að ræða tvöfalt kerfi eða einfalt kerfi. Hvort um sé að ræða, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafi sérstakt gæðaeftirlitskerfi með framleiðslunni og síðan hafi stofnunin annað kerfi á eigin vegum, líkt og er með hraðfrystar sjávarafurðir, eða hvort þarna yrði um einfalt kerfi að ræða, sem yrði þá á vegum beggja aðila. Það er ekkert í frv. eða orðalagi þessarar gr., sem segir til um, hvora leiðina skuli velja. Það verður því að ráðast í reynd, hvor leiðin verður talin skynsamlegri. Við höfum alltaf gert ráð fyrir því, að þetta muni ráðast í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, en þar sem Félag ísl. niðursuðuverksmiðja hefur sérstaklega óskað eftir því, að það sé tekið inn í frvgr., að þetta skuli gert í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, þá taldi iðnn. sjálfsagt að verða við þeim tilmælum og skjóta því inn í frvgr. Þó að um sé að ræða atriði, sem í raun og veru skipti ekki máli, þá hefði vafalaust engum dottið í hug að þetta yrði unnið á annan hátt.

Ef litið er á e-lið frvgr., þá er þar gert ráð fyrir því, að stofnunin annist sameiginlegan innflutning fyrir aðila stofnunarinnar og í öðru lagi, að stofnuninni sé heimilt að gerast eignaraðili í dósa- og umbúðaverksmiðju. Þarna er aðeins um heimildarákvæði að ræða, en ákvæði, sem getur verið mjög skynsamlegt og eðlilegt, og það er mögulegt að upplýsa það hér, að Dósagerðin h. f. hefur tekið upp mjög jákvæða afstöðu til þess að þetta gæti komið til greina hvað það fyrirtæki snertir. Undirbúningsnefndin, sem undirbjó þetta frv„ átti einmitt viðræður við forráðamenn þess fyrirtækis. Aftur á móti gerðist það við skoðun málsins í iðnn., að fyrrnefnt fyrirtæki, Dósagerðin h. f., óskaði eftir því að eiga aðild að stofnuninni og eiga fulltrúa í fulltrúaráðinu og óskaði þá eftir því, að ákvæði um það yrði skotið inn í 2. gr., e-lið. Iðnn. ræddi þetta atriði talsvert og menn höfðu nú almennt skilning á því, að það gæti vel komið til greina, að ef um það yrði að ræða, að stofnunin yrði eignaraðili í þessari verksmiðju, þá ætti viðkomandi dósagerð áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráðinu. Mönnum fannst hins vegar, að þarna gæti nú tæplega orðið um að ræða atkvæðisrétt, en þar sem þetta er nú allt saman óljóst, hvernig á þessu verður haldið, hvort þarna verður um að ræða eina eða fleiri dósaverksmiðjur og hvaða álit framleiðendur sjálfir hafa á þessu atriði, þá töldum við ekki að svo komnu máli rétt að vera uppi með brtt. í þessa átt, enda hugsanlegt að koma þessu fyrir á einhvern þann hátt, sem menn geti verið ánægðir með, án þess að það sé endilega lögbundið.

Í f-lið 2. gr. er gert ráð fyrir því, að stofnunin fylgist með og greiði fyrir öflun hráefnis til niðursuðu og niðurlagningar, og í því sambandi fékk n. ábendingu frá Félagi ísl. niðursuðuverksmiðja, sem lagði til, að svofellt ákvæði yrði sett inn í frv.: „Einnig er stofnuninni heimilt að afla hráefnis erlendis frá eða frá erlendum skipum, ef hráefni verður ekki fengið innanlands, enda sé slíkur innflutningur talinn hagkvæmur.“ N. féllst ekki á að taka inn þetta ákvæði. Það er rétt hins vegar að upplýsa það, að ákvæði hliðstætt þessu, sem ég var nú að lesa, var í frv., þegar undirbúningsnefndin sendi það frá sér til ríkisstj., og menn töldu, að þetta væri einmitt mjög athugandi, að stofnunin beitti sér fyrir öflun hráefnis erlendis frá, þegar brýn þörf væri á því. Þetta var hins vegar fellt úr frv. við nánari undirbúning málsins, vegna þess að mönnum sýndist óeðlilegt, að stofnunin sem slík fengi endanlegt vald um það, hvort þetta skyldi gert eða ekki. Það er svo, að við höfum stranga löggjöf um þessi efni og í henni er gert ráð fyrir ákveðnum heimildum, sem ríkisstj. og sjútvrh. hafa til þess að veita undanþágur af þessu tagi og til að heimila hráefniskaup af erlendum veiðiskipum, og það var talið óeðlilegt að fara að rýmka þessi ákvæði og veita einstökum aðilum rétt til þess að gangast fyrir hráefniskaupum af erlendum skipum, meðan löggjöfin sem slík væri ekki tekin til algerrar endurskoðunar. Ef þessi stofnun hefði fengið heimild að þessu tagi, þá væri ekki óeðlilegt, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna kæmi og óskaði eftir svipaðri heimild og þannig gæti orðið um fleiri stofnanir. Þó að n. féllist ekki á að taka þetta inn í frv., felur það ekki í sér, að n. telji þetta út af fyrir sig fráleita hugmynd. Þetta getur vel komið til greina, en verður þá að vera háð samþykki ríkisstj. og sjútvrh.

Við 3. gr. frv. hefur engin brtt. verið gerð, hvorki af iðnn. né neinum þeim aðila, sem umsögn hefur gefið um frv. Í þessari gr. er um það fjallað, með hvaða hætti framleiðendur verði aðilar að þessari stofnun. Menn kynnu við fljótan lestur frv. eða við ónóga yfirsýn að ímynda sér, að hér væri um að ræða, að verið væri að þjóðnýta útflutningsverzlun með niðursuðuvörur eða hérna væri að koma upp einhvers konar einokunarfyrirtæki í sambandi við útflutningsverzlun með niðursuðuvörur. Ég vil leggja á það áherzlu hér, að svo er alls ekki. Þetta er ekki einokunarfyrirtæki af neinu tagi og heldur ekki þjóðnýtingarfyrirtæki. Þó að ég hafi út af fyrir sig ekki teljandi á móti því, að slíkir hlutir séu framkvæmdir, þegar það á við, þá tek ég það fram, til þess að undirstrika og vara við þeim misskilningi, sem kynni að koma upp, að hér er ekki um þjóðnýtingu að ræða af neinu tagl. Hérna er um að ræða frjáls samtök, sem framleiðendur geta orðið aðilar að, ef þeir kjósa, en ef þeir vilja halda áfram að vera utan við þessi samtök og selja framleiðsluna á eigin vegum, þá bannar enginn það. Það er hins vegar gert ráð fyrir því, að þeir, sem vilja eiga aðild, verði að sækja um það með skriflegum hætti, og þegar þeir eru komnir inn í samtökin, þá verða þeir að vera þar og geta ekki gengið úr þeim aftur nema með árs fyrirvara, og þegar þeir eru komnir inn í samtökin með frjálsum hætti, þá eru þeir skyldir að fela stofnuninni sölu á allri sinni framleiðslu og ekki heimilt að selja vöruna úr landi með öðrum hætti. Það er sem sagt rétt að undirstrika það, að hér er um að ræða stofnun, sem veitir ákveðið hagræði, veitir framleiðendum ákveðin réttindi og leggur um leið á herðar þeirra ákveðnar skyldur, en þetta er stofnun, sem menn eru frjálsir að ganga í og fara úr aftur.

Af hagkvæmnisástæðum kýs ég nú að hlaupa yfir í 6. gr. næst. Þar er um það að ræða, að á næstu fimm árum verði öll útflutningsgjöld af niðursuðuvörum og niðurlögðum sjávarafurðum, þ. e. lagmetisvörum, svo og af söltuðum grásleppuhrognum og ýmsum öðrum sjávarafurðum, lögð í sérstakan sjóð, sem ætlaður er til eflingar lagmetisiðnaðinum. Það er rétt að undirstrika það hér, að þessi sjóður hefur ekki verið hugsaður sem rekstrarsjóður fyrirtækisins, ef svo mætti segja. Það er ekki meiningin, að þessi gjöld renni beint inn í reksturinn. Um rekstrarféð fjallar 5. gr. Hérna er um að ræða sjóð, sem stofnaður er til eflingar iðnaðinum almennt og til að gera mögulegt að framkvæma þær ráðstafanir, sem til þarf á hverjum tíma til eflingar iðnaðinum. Þessi gr. hefur sætt miklum andmælum, og er óhætt að segja það. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur sent n. tvö bréf til þess að mótmæla þessu ákvæði, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur mótmælt þessu mjög harðlega og sjútvrn. hefur einnig mótmælt þessu ákvæði. Hér er um að ræða að safna í sjóð, sem hefði á einu ári gefið 34 millj. kr. tæpar, ef salt- og kryddsíld er undanskilin, en það er varla hægt að reikna með miklum tekjum af þeim vörum, a. m. k. næsta árið eða tvö árin, vegna þess að síldveiðar hér við land hafa að mestu verið bannaðar. Á það er bent, að ákveðnir sjóðir og þá einkanlega Tryggingasjóður fiskiskipa yrðu fyrir miklum skakkaföllum, ef ákvæði þetta væri samþykkt, sá sjóður sé fjárvana, það sé nýlega búið að samþykkja tekjuauka fyrir hann og því sé ekki viðeigandi að fara nú að skerða hann með því að draga undan þær sjávarafurðir, sem hér eru tilteknar. N. hefur skoðað þetta frá öllum hliðum og um þetta urðu miklar umr., en það samkomulag náðist að lokum í n. að flytja þær brtt., sem hér eru fluttar, þ. e. að þarna yrði sleppt öllum öðrum afurðum en niðursuðuvörum, niðurlögðum vörum og söltuðum grásleppuhrognum. Það verður að vísu að viðurkennast, að með þessu er kúfurinn af þessari sjóðsmyndun tekinn burt. Niðursuðuvörur munu væntanlega ekki gefa nema um það bil 3.8 millj. kr. miðað við það gjald, sem fram að þessu hefur verið greitt, og grásleppuhrogn munu aðeins gefa 6.5 millj. kr., þannig að samanlagt fær þessi sjóður í tekjur 10 millj. kr. á ári eða því sem næst og það er auðvitað allmikill munur á því og hinu, sem lagt var til þegar frv. var lagt fram og eins og frv. er enn.

Það er rétt að geta þess hér, að Félag ísl. niðursuðuverksmiðja var í þessu efni með aðra till., lagði til, að þessu yrði haldið óbreyttu en útflutningsgjöldum af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum yrði algjörlega sleppt og þau felld niður. Á það gat n. ekki fallizt, taldi óeðlilegt að fella þau með öllu niður, væri réttara að láta þau þó renna í þennan sjóð. Breytingin, sem gerð er á 5. gr. frv., er síðan afleiðing af því, hve þessi sjóður hefur verið rýrður stórlega, því að þar er sem sagt gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi 25 millj. kr. á ári hverju til þessarar starfsemi og til þessarar sölustofnunar í stað þess að áður var gert ráð fyrir 20 millj. kr. framlagi frá ríkissjóði.

Og þá vík ég að lokum að umdeildasta ákvæði þessa frv., 4. gr. frv., sem fjallar um það, hvernig stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar skuli vera. Þegar þetta frv. var í mótun, lá ljóst fyrir, að um væri að ræða þrjá möguleika. Í fyrsta lagi, að hér yrði um að ræða hreint ríkisfyrirtæki, einhvers konar fiskimálanefnd, eins og hér var einu sinni stofnuð í sambandi við hraðfrystar sjávarafurðir, stofnun, sem væri algjörlega á vegum ríkisins og þar sem framleiðendur réðu raunverulega engu. Þetta var fyrsti möguleiki nm. Annar möguleikinn var sá, að þarna yrði um að ræða hreint einkafyrirtæki eða samtök einkaaðila eins og t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er eða Samband íslenzkra fiskframleiðenda. Á það var hins vegar að líta, að þetta hefur einu sinni verið reynt, slík samtök voru stofnuð með Sameinuðu niðursuðuverksmiðjunum, en það mistókst, það fór í vaskinn. Það, sem varð hins vegar fyrir valinu, var sambland af þessum tveimur leiðum. Það var komið upp fyrirtæki eða lagt til, að stofnuð yrðu samtök eða stofnun, sem yrði eins konar sambland af samtökum framleiðenda og af ríkisrekstri, og ég vildi leyfa mér að skilgreina þetta fyrirtæki sem eins konar samvinnusamtök framleiðenda, en að vísu undir ríkisforustu. Í þessu efni og þegar um er að ræða, hvernig stjórnin skuli skipuð, þá verður sérstaklega að hafa það í huga, að allt fjármagn, sem til stofnunarinnar á að renna, kemur frá ríkinu eða í gegnum ríkið, með tilstyrk ríkisins. Þannig er með þær 25 millj. kr., sem ríkið á að leggja fram og verða 125 millj. að fimm árum liðnum. Einnig ábyrgist ríkið lán til starfseminnar, sem nemur 100 millj. kr., og ríkið leggur raunverulega fram tekjustofna til þess sjóðs, sem ég nefndi hér áðan, 10 millj. kr. á hverju ári, og tekur það raunverulega úr öðrum sjóðum, sem þetta átti að renna til. Ríkið verður þar af leiðandi að reyna að finna aðra tekjustofna fyrir þá sjóði til að fylla í skarðið, þannig að segja má, að ríkið útvegi það fjármagn einnig. Á þetta verður sérstaklega að líta, þegar skoðað er, hvaða aðili skuli vera í meiri hluta í stjórn fyrirtækisins. Það hlýtur að teljast eðlilegt á meðan stofnunin er í uppbyggingu og nýtur svo stórfelldra fjárframlaga af hálfu ríkisins og ríkisaðila, að þá hafi ríkisvaldið fullkomið eftirlit með þessu fyrirtæki. Uppbyggingin er hins vegar þess eðlis, að það á að vera ákaflega auðvelt fyrir framleiðendur að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, og ég álít, að þeir muni raunverulega ráða því sem þeir vilja í sambandi við þetta fyrirtæki. Þeir hafa þarna tvo af fimm stjórnarmönnum, og ég er sannfærður um það, að stjórnarmenn, sem ríkið skipar þarna til viðbótar, verða velviljaðir þessum iðnaði, og þarna mun áreiðanlega geta skapazt ágætt samstarf. Hitt er svo rétt að benda á, að það er gert ráð fyrir því, að þegar þessi stofnun hætti að njóta ríkisframlaga, þá verði sú breyting á, að framleiðendur fái þrjá af fimm stjórnarmönnum.

Ég held, að ég hafi þá ekki meira að segja um þetta að sinni. Það, sem ég nefndi hér seinast, er mesta ágreiningsmálið í sambandi við þetta frv. Minni hl. n. hefur flutt sérstaka till. varðandi þetta atriði og mun gera grein fyrir henni, en n. hefur aftur á móti flutt fáeinar brtt. við 4. gr., sem allar eru þess eðlis, að þær skipta ekki stóru máli. Þær eru meira formsatriði og skýra sig sjálfar.