03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er eins og fram kemur í aths. við þetta frv., sem hér er til umr„ að um mánaðamótin ágúst og september skipaði hæstv. iðnrh. nefnd til að fjalla um vandamál niðursuðuiðnaðarins. Þessi nefnd tók til starfa nokkru eftir það, eins og hér hefur komið fram, fljótlega eftir að hún var skipuð. Það fyrsta, sem framleiðendur eða niðursuðuverksmiðjueigendur verða varir við í sambandi við starfsemi þessarar nefndar, er, að boðað er til fundar framleiðenda niðursuðuiðnaðarins á s. l. hausti og þar eru lögð fram drög að frv., sem nefndin hafði samið, og það uppkast var rætt á þessari ráðstefnu. Það komu þá þegar fram ýmsar veigamiklar athugasemdir frá niðursuðumönnum og margt af því, sem þar kom fram, tók nefndin til athugunar og breytti, þegar til þess kom, að frv. var endanlega samið.

Segja má, að það sé vonum seinna, sem þetta mál kemur hér inn á Alþ., og enn þá er það líka við það að athuga, hvað það hefur haft langan aðdraganda, hversu lengi iðnn. hefur haft málið til meðferðar. Upphaflega var gert ráð fyrir því, sögðu þeir menn, sem sömdu frv., að mál þetta yrði afgreitt fyrir áramót og þá með tilliti til þess, að hér var um fjárupphæð að ræða, sem af hálfu þess opinbera átti að leggja þessari starfsemi lið. Var gert ráð fyrir því, að það þyrfti að taka þessa fjárupphæð inn í fjárlagafrv., en svo sem kunnugt er, þar sem ekkert lá fyrir í þessum efnum og ekkert var samþ. fyrir áramótin, átti slík fjárveiting sér ekki stað í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Það má segja, að það sé rétt, eins og hér hefur komið fram, að niðursuðuiðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar í landi okkar, en með þá staðreynd í huga, að íslenzkt hráefni, t. d. sjávarafurðir, er viðurkennt eitt það bezta, sem um er að ræða, þá verður því varla trúað, að þessi atvinnuvegur, sem hefur nú þegar langan og árangursríkan starfsferil að baki í nágrannalöndunum, geti ekki einnig átt möguleika á eðlilegri þróun í okkar landi.

Það má telja sérstakt, hvað þessi atvinnuvegur hefur átt erfitt uppdráttar hér á Íslandi. Við höfum náð mjög langt, t. d. í frystiiðnaðinum, og það er enginn vafi á því, að þar stöndum við fyllilega jafnfætis því, sem bezt þekkist hjá öðrum þjóðum. Það sýnir bezt sá árangur, sem Íslendingar hafa náð í samkeppninni á Bandaríkjamarkaðinum, þar sem gerðar eru einna mestar kröfur til vandvirkni í sambandi við framleiðsluna, hvað náðst hefur góður árangur í sölu á íslenzka fiskinum á undanförnum árum. Við getum meira að segja borið okkur saman við Kanadamenn, sem að sjálfsögðu hafa að því leyti betri aðstöðu til að keppa á þessum markaði, að þeir eru nær sjálfu markaðssvæðinu en við Íslendingar.

Það var kannske ofsagt, sem hér var sagt í upphafi af frsm., að oft hefði verið áformað að gera átak til að efla sölu á okkar niðursuðuafurðum. Það hefur þó komið fyrir, eins og hann benti réttilega á, að þetta hafi átt sér stað. Það var árið 1968, þegar þær umræddu fimm niðursuðuverksmiðjur tóku höndum saman um það að mynda með sér félagsskap, sem skyldi vinna að því að kanna möguleika fyrir markaðsöflun og vinna að athugun á skipulegri starfsemi niðursuðuiðnaðarins. Það voru fengnir erlendir sérfræðingar til að kanna þetta mál og niðurstöðurnar, sem þeir fengu, gáfu vissulega vonir um, að hér væri um mikla möguleika að ræða í útflutningsframleiðslunni. Og þegar um það er rætt, hvað það opinbera muni leggja hér fram af fjármunum í sambandi við niðursuðuiðnaðinn, þá er rétt að gera sér grein fyrir því, hversu miklir fjármunir eru nú þegar bundnir í niðursuðuiðnaðinum. Það var gert ráð fyrir því að afla erlendis frá allmikils fjármagns eða í kringum 100 millj. kr., sem gert var ráð fyrir að taka að láni eða fá á einn eða annan hátt til þessarar starfsemi, en áður en nokkur von var til þess, að jákvæðar undirtektir fengjust, kom fram krafa um það af hendi þeirra, sem hér þurfti að sækja til, að fram færi mat á eignum þessara fimm tilteknu niðursuðuverksmiðja, sem stóðu að þessari könnun, og á árinu 1968 lá fyrir mat á verðmæti aðeins þessara fimm verksmiðja, sem nam samtals um 200 millj. kr. En þar voru ekki taldar með t. d. Norðurstjarnan í Hafnarfirði, Siglóverksmiðjan eða niðursuðuverksmiðjan á Norðfirði, svo að ég nefni nokkrar af þeim verksmiðjum öðrum, sem mjög miklir fjármunir liggja í. Alls munu niðursuðuverksmiðjurnar vera um 22–28 talsins og með tilliti til þess er ekki óeðlilegt að áætla, að heildarfjármagn, sem í þessum verksmiðjum liggur, sé ekki langt frá því að nema um 1000 millj. kr. Til viðbótar þessu fjármagni kemur svo afurðaverðmæti verksmiðjanna, sem að sjálfsögðu verður væntanlega fljótlega, ef úr einhverjum verulegum rekstri verður, að miklum mun stærri fjárupphæð árlega en hér er um að ræða.

Ég fagna þeim brtt„ sem fram hafa hér komið við frv. frá iðnn„ sem hún flytur sameiginlega, en ég tel einnig, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að hér sé gengið of skammt og sérstaklega í sambandi við 4. gr. frv. Ég tel að það sé ekki um neinn verulegan ágreining að ræða eftir að þessar breytingar hafa átt sér stað, sem n. ber sameiginlega fram, um annað en það, sem menn greinir á um varðandi 4. gr.

Hv. frsm. n. sagði, að hér væri ekki ætlunin að stofna til neinnar þjóðnýtingarstofnunar, þetta eiga að vera frjáls samtök framleiðenda, sagði hann, og það er einmitt það, sem ég bjóst við að væri ætlunin hjá hæstv. ríkisstj„ að stuðla að því að efla frjáls samtök í sambandi við niðursuðuiðnaðinn og gera þau fær um það fjárhagslega að geta staðið að öflugri markaðsleit fyrir sína framleiðslu og efla framleiðslu verksmiðjanna á einn og annan hátt.

Því er haldið fram, að vegna þess að það opinbera leggi svo mikla fjármuni hér fram annars vegar, þá sé ekki stætt á öðru en að meiri hl. þeirrar væntanlegu stjórnar, sem verður við þessa stofnun, verði skipaður fulltrúum frá ríkinu. Annað mundi skapa einstætt fordæmi. Þetta er svo mikil fjarstæða að nær engu tali, vegna þess að við vitum það, sem þekkjum til í sambandi við sjávarútveginn, að oft hefur komið til þess, að það eru ekki 100 millj., það hefur skipt hundruðum milljóna, sem sjávarútvegurinn hefur fengið í einu eða öðru formi, t. d. í verðuppbótum, án þess að það opinbera skipti sér nokkurn hlut af stjórninni, — t. d. í sambandi við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða rekstur þeirra. Hraðfrysti fiskurinn hefur fengið verulegar verðuppbætur eða útgerðin hefur oft verið studd með alls konar verðuppbótum, en það hefur verið millifært í þjóðfélaginu til að halda rekstrinum gangandi og efla þennan atvinnuveg. Þetta hafa ekki verið 100 millj., þetta hafa oft verið hundruð milljóna, sem þannig hafa verið teknar af almannafé og veitt inn í þennan atvinnuveg, án þess að það opinbera hafi séð nokkra ástæðu til þess að fetta fingur út í sjálfa stjórnun atvinnuvegarins. Þess vegna vil ég ekki trúa því fyrr en á reynir, að meiri hl. þessarar hv. d. afgreiði málið endanlega þannig, að hér verði ekki raunverulega um frjálst framtak að ræða og stuðning við það þannig, að þó að ríkið tilnefni einhverja aðila í væntanlega stjórn, þá verði samt sem áður meiri hl. stjórnarinnar í höndum framleiðenda og þeirra, sem eiga mestra hagsmuna að gæta í sambandi við þessa starfsemi. Og ég verð að segja það, að það kemur mér sérstaklega á óvart, ef hv. 1. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, verður þessu andvígur, en hann lýsti því sérstaklega yfir á þessari ráðstefnu, sem ég gat um hér áðan, og einnig Ólafur Hannibalsson, sem átti sæti í þeirri nefnd, sem samdi frv., að þeir mundu styðja það, að framleiðendur fengju meiri hl., þrjá menn af fimm, sem í stjórninni væru. Og ég verð að segja það, að ef það er virkilega meiningin að gera hér sameiginlegt átak í þessum málum, þá verður að vænta þess, að það opinbera komi til móts við framleiðendur á þann hátt, sem þeir óska eftir í þessum efnum, að þeir fái að skipa þrjá menn í stjórnina af væntanlegri fimm manna stjórn.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en ég vænti þess, að í meðförum d. og við afgreiðslu málsins náist það fram, sem ég hef lagt sérstaklega áherzlu á, að till., sem felur það í sér, að stjórnin verði þannig skipuð, að þrír af fimm verði tilnefndir af framleiðendum og að framleiðendur sjálfir hafi æðsta vald í sambandi við málefni þessa atvinnurekstrar, hljóti samþykki þessarar d.