04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. vék í upphafi ræðu sinnar að því, að ég hefði haft um það orð, að frv. þetta væri illa samið og væri hrákasmíði. Þetta er nú ekki nákvæmlega farið með það, sem ég sagði. Hann gaf sjálfur tilefni til þess, að ég viki lítið að þessum þætti málsins. Hann var að bera sig upp undan því, að stjórnarandstaðan hefði verið að finna að vali á mönnum í undirbúningsnefnd, sem samdi þetta frv„ á þeirri forsendu, að þeir hefðu ekki haft þekkingu á niðursuðumálum. Hv. þm. sagði, að það hefði aldrei verið meiningin að skipa slíka nefnd. Þá dró ég þá ályktun, að þeir hefðu átt að hafa sérlega góða þekkingu á öðrum sviðum, m. a. til að forma sínar hugsanir og sín frv. Og hann segir, að ég hefði þá miðað við þessa skoðun átt að koma með fleiri brtt. heldur en brtt. þá, sem ég flutti ásamt hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 664.

Ja, það er til mikils ætlazt af mér í þessu efni. Ég er líka meðflm. að brtt., sem fjalla um 10 veigamikil atriði, á þskj. 660. Og sannleikurinn er sá, að þetta frv. er meira og minna allt endursamið, þegar litið er á brtt. á þskj., sem ég stend að, þannig að ég sé nú ekki ástæðu fyrir hv. þm. að fjölyrða mikið um þessa hlið málsins.

Þá vék hann að öðru atriði, sem ég talaði um, og það var þýðing tæknihliðarinnar. Hann sagði, að meinið hefði ekki verið tæknilegs eðlis í niðursuðuiðnaðinum, heldur varðandi söluna. Ég vil ekki draga úr þeim erfiðleikum, sem hafa verið í sambandi við sölu á þessari vöru og markaði fyrir hana, en það gefur auga leið, að þarna er mjög náið samband á milli. Það getur t. d. haft þýðingu fyrir söluna, hvernig varan er, og þarf raunar ekki að taka slíkt fram. Ég held þess vegna, að þrátt fyrir þessi ummæli hv. þm. sé það í fullu gildi, sem ég sagði um þetta efni hér fyrr í þessum umr., að það væri mjög athugandi að setja á stofn slíka tæknistofnun niðursuðuiðnaðarms, sem hinn norski sérfræðingur lagði til árið 1960. Og ég held, að það, sem hv. ræðumaður sagði um þetta hér í ræðu sinni áðan, dragi ekki á neinn hátt úr mikilvægi tæknihliðarinnar. En ég sagði, að ég hefði ekki hugsað mér að bera fram brtt. um þetta efni. Það væri hyggilegt að sjá betur, hvernig framvinda mála yrði og starfsemi stofnunarinnar, enda er gert ráð fyrir því, eins og ég tók fram, í sjálfu frv., að það skuli stefnt að því að koma á fót tækniþjónustu. Og það er nákvæmlega það sama eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, og ég skil raunar ekki, hvað hv. þm. gengur til að vera að draga úr í þessu efni.

Þá kom hv. þm. að því, sem hefur verið aðalágreiningsefni okkar á milli. Það er spurningin um æðstu stjórn stofnunarinnar, valdsvið fulltrúaráðsins og skipun stjórnarinnar, sem kveðið er á um í 4. gr. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Reykv., eins og ég gerði grein fyrir fyrr í umr„ borið fram brtt. um þetta efni á þskj. 664. Hún er um það, að fulltrúaráðið skuli fara með æðsta vald í stofnuninni og að stjórnin skuli valin þannig, að það skuli þrír vera valdir af fulltrúaráðinu, en ekki tveir eins og frv. gerir ráð fyrir, og tveir valdir af Alþ. með hlutfallskosningu. Þetta segir hv. síðasti ræðumaður, að sé óeðlilegt. Og það var vegna þess, eins og hann margoft tók fram, að þessi leið var ekki valin. En ég spyr, og það er kjarni málsins, hvaða ástæða var til þess að velja þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir? Og það var það, sem ég vék að í minni fyrri ræðu, að það væru engar efnisástæður til þess að gera slíkt, það væri algerlega andstætt þeim venjum, sem hefðu tíðkazt, þegar ríkisvaldið hefði boðið eða lagt fram aðstoð sína í einu eða öðru formi til þess að efla og styrkja atvinnuvegina eða einstakar greinar þeirra. Það hefur alltaf verið gert, án þess að af hálfu ríkisvaldsins væri sett skilyrði um það, að viðkomandi atvinnugrein slægi af sjálfstæði sínu eða sjálfstæðri tilveru fyrir það eitt að þiggja aðstoð af hálfu ríkisins. Og það hefur verið bent á það bæði af mér og hv. 2. þm. Vesturl., að þó að það sé þakkarvert, sem gert er ráð fyrir að ríkið leggi fram til sölustofnunarinnar, þá sé það ekkert einsdæmi. Annað eins hefur verið gert. Það hefur margoft — og það vitum við öll — verið varið úr ríkissjóði svo að skiptir hundruðum millj. króna vegna einstakra ráðstafana, sem gerðar hafa verið til þess að efla og styrkja eða koma til aðstoðar einhverri þýðingarmikilli atvinnugrein, sem í vök átti að verjast.

En hv. síðasti ræðumaður sagði, að þó að framleiðendur eða fulltrúar þeirra væru aðeins ráðgefandi, þá væru verksmiðjur þeirra ekki að láta af neinu sjálfstæði, vegna þess, eins og hann tók fram, að þær þyrftu þá ekki að vera í sölusamtökunum. Þær geta farið úr þessum samtökum, sagði hv. þm. Já, það er nú kannske ekki ástæða að þakka sérstaklega fyrir það, þó að verksmiðjunum sé ekki bannað að fara úr þessum samtökum. En það breytir ekki því, að á meðan verksmiðjurnar og atvinnurekendurnir eru í samtökunum, þá eru þeir ekki nema ráðgefandi aðili í þeim málum, sem varða þá svo miklu. Og ef það ætti að fara eftir ráði hv. síðasta ræðumanns, ef atvinnurekendur ættu að fara úr þessum samtökum, vegna þess að þeir ná ekki rétti sínum, þá er nú hætt við, að þessi samtök verði ekki mikils virði.

Þá sagði hv. þm., að þess væru engin dæmi, að ríkið legði eitthvað álíka fram eins og hér er um að ræða til stuðnings atvinnugreinum eða atvinnuvegum öðruvísi en tryggja sér eftirlit um leið. Ég er algerlega sammála hv. ræðumanni um það. Það er sjálfsagt, að ríkið tryggi sér eftirlit. Frá mínu sjónarmiði kemur annað ekki til greina. Og ég get bætt því við, að það kann vel að vera frá mínu sjónarmiði, að þessa atriðis hafi ekki alltaf verið jafnvel gætt. Þegar lagt er fram almannafé, þá er sjálfsagt, að ríkisvaldið hafi eftirlit með því, hvernig þessu fé er varið. Annað kemur ekki til greina. En það er einmitt þetta, sem gert er ráð fyrir, að sé gert eins og frv. eða lögin mundu líta út, ef brtt. mín á þskj. 664 væri samþ., því að í þeirri brtt. er ekkert fellt niður úr frv. sjálfu, sem flokkazt getur undir eðlilegt eftirlit af ríkisins hálfu. Því er öllu haldið. Það segir í brtt. minni, eins og það er í frv. sjálfu, m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Eftir hver áramót skal stjórnin gefa ráðh. ítarlega skýrslu um starfsemina á liðnu ári og skal fylgja henni endurskoðaður ársreikningur.“ Það segir enn fremur: „Ársreikning skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.“ Enn fremur tek ég fram í brtt. minni, okkar félaga, að ráðh. skuli skipa annan hinn þingkjörna fulltrúa í stjórninni formann stjórnar stofnunarinnar. Ég verð að segja það, að það er ekki hægt að segja með miklum rétti, að ekki sé gert ráð fyrir eftirliti af hálfu ríkisins í þessu efni. Ég held, að það sé einmitt mjög tryggilega gengið frá því, og ég tel það líka sjálfsagt. Þar með er fullnægt sjálfsögðum hagsmunum ríkisins. En það er svo bezt fullnægt eðlilegum hagsmunum atvinnurekenda sjálfra, að þeir fari sjálfir með æðstu stjórn og framkvæmd sinna mála, og það eru líka hagsmunir beggja, bæði ríkisins og atvinnurekenda, vegna þess að með þeim hætti má vænta árangurs af starfsemi sölustofnunarinnar.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. (RA) talaði með nokkurri vandlætingu um þær skoðanir, sem ég hef lýst, bæði hér áður og nú í þessari ræðu. Það er þó upplýst, að þessar skoðanir voru uppi í þessari nefnd, sem samdi þetta frv., og það er upplýst af hv. 1. þm. Vestf., að hann hafi verið nákvæmlega á sömu skoðun og 5. þm. Vestf. um þessi efni, nákvæmlega á sömu skoðun. Ég vænti þess, að hv. 1. þm. Vestf. haldi áfram að vera mér sammála um þetta efni. Og það verður að segjast eins og er, að við hv. 1. þm. Vestf., og þá er það raunar fyrst og fremst hann, hann hefur þegar haft veruleg áhrif á 4. þm. Norðurl. v., því að eftir allt er nú þessi skoðun, sem ég hef verið að lýsa hér, ekki fjarstæðari í augum hv. 4. þm. Norðurl. v. en það, að hann vill framkvæma þetta, sem ég er að segja, en aðeins eftir fimm ár. Það er þá ekki eðlismunur á skoðunum okkar. Það er hægt að segja, að það sé stigsmunur. En mér sýnist eða ég ætla, að þeirri skoðun, sem ég hef hér verið að halda fram, ætti að vaxa fylgi, og ég viðurkenni það, að frv. er betra eins og það er úr garði gert, þannig að yfirráð ríkisins skuli aðeins vera miðuð við fimm ár. Það er betra heldur en ef alls ekki hefði verið slíkt ákvæði.

En ég er hræddur um, að hv. síðasti ræðumaður skjóti nokkuð yfir markið, þegar hann segir það við mig og aðra hv. þm., sem gagnrýnum þetta, að fyrst við séum ekki með þessu atriði frv., þá hefðum við ekki átt að fylgja frv. Þá hefði hv. 1. þm. Vestf. væntanlega ekki átt að fylgja því. Kannske frv. hefði þá aldrei orðið til. En það hefði ég talið, að hefði verið mjög slæmt. Ég fagna framkomu þessa frv. Ég tel, að það sé mjög þýðingarmikið, mjög mikið atriði, að það verði afgreitt á þessu þingi. En mér sýnist, að ummæli hv. 4. þm. Norðurl. v. sýni ekki mikla ábyrgðartilfinningu í þessu efni, og það sé ekki vottur þess, að hann beri þetta mál svo mjög fyrir brjósti eins og hann ætti að gera, ef hann ætlar að halda fast við þá skoðun sína, að þeir, sem eitthvað hafa við þetta frv. að athuga, ættu að snúast gegn því.