04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, að það væri ekki rétt, sem hann hafði eftir mér, að samstarfsmenn hans hefðu haft þau áhrif á hann, að hann hefði fallizt á fimm ára frestinn varðandi skipun stjórnarinnar, samstarfsmenn hans í nefnd þeirri, sem samdi frv. Hins vegar hefði hann, eins og hann orðaði það, fallizt á það sjónarmið. Ég tek þessa aths. og mótmæli henni ekki, en lýsi ánægju minni yfir því, að hv. þm. skyldi sjá þetta, án þess að það þyrftu að koma til áhrif frá hv. 1. þm. Vestf. í sömu átt og ég hef talað í þessu máli.

Ég vil aðeins víkja að því, sem hæstv. iðnrh. sagði, að það skyldi varast að stofna til úlfúðar í þessu máli. Ég vil taka undir það. Ég hef í báðum fyrri ræðum mínum lýst yfir fylgi mínu við þetta frv. og fagna framkomu þess. En það er ekki að ástæðulausu, sem ég kem með mína brtt.till. er algerlega shlj. óskum, sem Félag ísl. niðursuðuverksmiðja hefur lagt fram um þetta efni. Og með því að ég er sammála þeim, sem vilja, að það geti orðið sem beztur árangur af hinni væntanlegu sölustofnun, þá þykir mér, að það sé sjálfsagt og eðlilegt að koma á framfæri vilja og skoðunum þeirra aðila, sem mest eiga undir stofnuninni og mestu ráða um það, hvort hún nær árangri eða ekki. Ég tel, að það sé eðlilegt að koma með þessa till. hér, vegna þess að það er bezta leiðin til þess að tryggja þessu máli farsæla lausn og góðan árangur af sölustofnuninni að samþykkja þessar sanngjörnu óskir framleiðenda.