10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða langorður um þetta mál, en ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að niðursuðuiðnaðurinn á Íslandi hefur því miður þróazt nokkuð á annan veg heldur en æskilegt hefði verið. Ég ætla ekki að fara að kveða upp neinn dóm um það, af hverju þetta hefur stafað, en þetta er staðreynd, sem við stöndum frammi fyrir, og þannig hafa málin farið. Ég hygg þó, að kannske sé í sumum greinum niðursuðuiðnaðarins nokkuð farið að rofa til og kominn sæmilega öruggur grundvöllur. Ég tel því ekki óeðlilegt, þó að varið sé úr ríkissjóði einhverju fé til þess að reyna að bæta þarna um og skapa meiri festu í þessum málum heldur en verið hefur. En ég er mjög sammála hv. 7. landsk. þm. um það, að þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, geti verið ákaflega tvíeggjað í þessu sambandi. Ég held, að þeir, sem þessa atvinnugrein stunda, eigi að hafa yfirráðin í stjórn þess fyrirtækis, sem hér er um að ræða og frv. þetta gerir ráð fyrir, að stofnað verði. Ég er sammála hv. 7. landsk. þm. um það, að það mundi geta orðið til þess að draga mjög úr þátttöku í stofnun þess fyrirtækis, sem við erum hér að ræða um, ef þannig væri staðið að málum, að þarna ættu að vera skipaðir að meiri hl. í stjórn menn af hinum ýmsu rn. Og ég verð að segja það, að fyrst ekki hefur nú kannske í öllum tilfellum tekizt betur til heldur en orðið er fram að þessu í sambandi við þennan iðnað, þá er ég ákaflega vantrúaður á það, að þó að iðnrn. eða fjmrn. ætti að fara að skipa fulltrúa, sem þá ætti að taka við rekstri þessa fyrirtækis, — auðvitað mundi þá fyrirtækið starfa beinlínis á ábyrgð ríkisins, — mundi það verða til þess að koma þessum málum í fastari skorður og betra horf heldur en verið hefur. Ég er því mjög fylgjandi þeim sjónarmiðum, sem hér hafa komið fram, að stjórnin verði skipuð á þann veg, að það verði hinir raunverulegu eigendur og framleiðendur í niðursuðuiðnaði, sem hafi þarna meiri hl. Mér finnst það mjög eðlilegt. Og ég tel það ekkert óeðlilegt, þó að það ákvæði standi í 5. gr., að ríkið skuli um visst árabil leggja þessari fyrirhuguðu stofnun til fjármagn til þess að reyna að koma þarna á betra skipulagi. Ef það tekst, þá eru þessir fjármunir fljótir að koma inn í þjóðfélagið aftur, ef það tekst að ráða þarna bót á eða ef það yrði til þess að niðursuðuiðnaðurinn skilaði þjóðarbúinu meiri eftirtekjum eftirleiðis heldur en verið hefur hingað til, þannig að ég get samþykkt það alveg og tel það ekki á neinn hátt óeðlilegt, þó að þetta ákvæði sé í frv. En einhvern veginn fannst mér liggja í loftinu hjá hæstv. iðnrh., — og það kann ég ekki við, — að það væri eiginlega skilyrði fyrir því, að þetta framlag yrði innt af hendi úr ríkissjóði, að stjórnin yrði skipuð eins og frv. gerir ráð fyrir, þ. e. að þrír menn væru skipaðir af hinum ýmsu rn. Mér finnst það ekki frambærilegt að vera að veifa framan í þingheim þessari upphæð og það sé raunar skilyrði fyrir því, að 4. gr. verði óbreytt frá því, sem hún nú er.

Ég hef áður lýst skoðun minni á því ákvæði í 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að þetta fyrirtæki fái hluta af útflutningsgjöldum. Ég lýsti því áður í sambandi við þá till., sem kom fram um, að framleiðendur saltsíldar fengju útflutningsgjaldið til ráðstöfunar. Ég tel þetta mjög hæpið, ekki vegna þeirra 10 millj., sem þarna er um að ræða, heldur vegna þess að þarna er verið að brjóta það „prinsíp“, sem verið hefur, að meginhluti útflutningssjóðsins hefur gengið til ákveðins máls í sambandi við sjávarútveginn, en það er til að greiða niður tryggingariðgjöld fiskiskipa. Ef frv. þetta fengist lagað hér í hv. Nd., eins og komið hefur fram, bæði hjá hv. 7. landsk. þm. og hv. 3. þm. Norðurl. v„ ef umræddar lagfæringar fengjust á því, þá mundi ég ekki fara að gera þessa 6. gr. að ágreiningsefni, þó að ég telji, að það sé mjög varhugavert að brjóta niður það „prinsip“, sem útflutningssjóðurinn hefur verið byggður á.