10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Sunnl., þar sem hann lét í það skína, að í þeim orðum, sem ég sagði áðan, hefði ég verið að vega að sjávarútveginum. Það, sem ég sagði og var að henda á, var, að það eru fleiri atvinnugreinar í landinu, sem njóta styrks, hvort sem menn vilja kalla það styrk eða eitthvað annað, úr ríkissjóði til eflingar, en gert er ráð fyrir í þessu tilfelli. Ég er hvorki að vega á neinn hátt að sjávarútvegi né landbúnaði. Þetta eru bara staðreyndir, sem við stöndum frammi fyrir. Og það er ástæðulaust að vera að hártoga það neitt hér, sem menn eru að segja. Það er staðreynd, að úr ríkissjóði fara peningar bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar, án þess að þar sé um neina „sósíalíseringu“ að ræða á þeim málum.

Mér skildist nú, að það, sem hefði hneykslað þennan hv. þm. hvað mest, væri það, að ég, sem tilheyrði flokki vinstri manna, eins og hann sagði, skyldi leyfa mér að hafa eitthvað svipaða skoðun og sjálfstæðismenn. Ég ætla nú að segja þessum hv. þm. það í eitt skipti fyrir öll, að ég hef ekki hingað til metið mál eftir flokkum og ætla mér ekki að gera það. Ég get fylgt sjálfstæðismönnum, flytji þeir mái. sem ég tel þess virði að fylgja. Ég gæti líka, hugsa ég, fylgt Alþb.-mönnum, ef ég teldi málið þess virði, að það væri hægt að fylgja því, svoleiðis að ég geri engan greinarmun þannig. Ég met málið eftir því, sem um er að ræða hverju sinni, og tek afstöðu mína eftir því.