10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. um of, þar sem ég á sæti í iðnn. þessarar d., sem ég býst við, að þetta mál fari til, svo að ég fæ tækifæri til að fjalla um það á öðrum vettvangi. Ég vildi aðeins hér við 1. umr. varpa fram einni spurningu til hæstv. iðnrh. út af þessu máli.

Fyrst vil ég segja, að ég tel, að þetta frv. sé merkileg tilraun til þess að koma á samvinnu milli ríkisvaldsins og framleiðenda í sölumálum á niðurlögðum og niðursoðnum vörum. Ég tel, að það sé einmitt þannig, sem ríkisvaldið á að vinna. Það á að taka höndum saman við framleiðendur á þeim sviðum, sem erfiðleikar eru á, og við vitum, að sölumálin, markaðsmálin hafa einmitt verið Akkillesarhæll þessarar iðngreinar í landinu. Ég er alveg sammála þeirri meginhugsun frv. að efna til samvinnu milli ríkisvaldsins og framleiðenda á þessu sviði. En sú samvinna þarf auðvitað að vera raunhæf og ég vil aðeins spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telur, að í þessu formi sem frv. er nú, þ. e. að ríkisvaldið ráði meiri hl. í stjórn þessarar stofnunar, geti orðið heils hugar samvinna með þessu fyrirkomulagi milli framleiðenda og ríkisvaldsins. Liggur það fyrir, að framleiðendur muni sætta sig við þessa tilhögun? Það er aðeins þetta atriði, sem ég vildi, að hæstv. ráðh. upplýsti við þessa umr.