31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fyrir, hefur átt hér alllangan aðdraganda. Það var 9. jan. 1958, sem menntmrn. skipaði nefnd til að endurskoða gildandi lagafyrirmæli um Íþróttakennaraskóla Íslands. Frv. barst frá nefndinni með bréfi 7. nóv. 1964. Enn leið og beið, og frv. var ekki lagt fyrir Alþ. fyrr en á síðasta ári. Þá varð það ekki útrætt. Síðan hafa þeir tveir menn, sem mestan þátt áttu í samningu frv., skólastjóri Íþróttakennaraskólans og íþróttafulltrúi ríkisins, farið yfir frv. enn einu sinni og gert á því nokkrar minni háttar breytingar, og síðan er það hér lagt fyrir í annað skipti í þeirri von, að það hljóti nú afgreiðslu háttv. Alþ. Meginmarkmið þessa lagafrv. er að gera þær breytingar á starfsháttum Íþróttakennaraskólans, að hann verði færari um það en nú er að útskrifa íþróttakennara, sem fullnægja þeim kröfum, sem til slíkra kennslukrafta þarf að gera í nútímaskólakerfi. Það verður æ ljósara, hversu brýn þörf er á því, að íþróttakennslunni sé vel hagað og vel fyrir komið. Enginn mun mæla á móti því lengur, að flestum mönnum í nútímaþjóðfélagi er þörf á að stunda líkamsrækt, eftir því sem hugur beinist til, og grundvöllinn að þeirri líkamsrækt þarf að leggja á skólaárunum. Það er því töluvert heilsufarsatriði, töluvert atriði fyrir þjóðarheilsuna, hvernig til tekst um íþróttakennsluna í skólakerfinu.

Meginatriðið, sem frv. gerir ráð fyrir við eflingu íþróttakennaranámsins, er það, að skólinn skal gerður að tveggja ára skóla, honum skal breytt úr eins árs skóla með 9 mánaða námstíma í tveggja ára skóla með 81/2 mánaðar námstíma hvort ár. Þar að auki er ætlazt til, að nemendur starfi við íþróttakennslu sumarið á milli námsvetranna í 70 klst. hið minnsta.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að verulega sé fjölgað kennslugreinum í Íþróttakennaraskólanum, hann útskrifi fjölhæfari kennara en hingað til — ekki aðeins í íþróttagreinunum sjálfum, heldur einnig kennara, sem færir séu um að taka að sér kennslu í líkams- og heilsufræði á barna- og gagnfræðaskólastigi, kennslu í skyndihjálp, eftir því sem nauðsyn kann að krefjast, og aðstoð og kennslu í félagsstörfum hjá ungmennafélögum, íþróttafélögum og einnig auðvitað innan skólanna .sjálfra, eftir því sem ástæða þykir til að gera félagsstörf að þætti í náminu.

Að sjálfsögðu býr sú hugsun hér að baki, að með þessari skipan verði unnt að tryggja einnig hinum smærri skólum íþróttakennara með fullt nám og þá hæfni, sem bezt fæst í Íþróttakennaraskólanum, því að eins og skólakerfi okkar er úr garði gert, er ekki við því að búast, að í öllum hinum smærri skólum sé fullt verkefni við íþróttakennsluna eina fyrir íþróttakennara. Með því að víkka námssvið íþróttakennaranna er reynt að búa svo um hnútana, að fullur starfsvettvangur sé fenginn manni með íþróttakennaramenntun einnig við hina smærri skóla. Þá er ætlazt til samkv. frv. þessu, að inntökuskilyrði í Íþróttakennaraskólann séu þyngd nokkuð. Þar er gert ráð fyrir prófi frá framhaldsdeildum gagnfræðaskóla með ákveðinni lágmarkseinkunn, prófi frá undirbúningsdeild sérnáms við Kennaraháskóla Íslands, stúdentsprófi eða almennu kennaraprófi. Þetta eru hin almennu inntökuskilyrði, sem frv. gerir ráð fyrir, en hingað til hefur nægt miðskólapróf. En til þess að útiloka ekki þá, sem þegar hafa lokið einhverri þjálfun í íþróttakennslu, frá því að ganga í Íþróttakennaraskóla Íslands með hinum fullkomnari kennsluháttum er tekið inn ákvæði um, að skólinn hafi heimild til þess að veita öðrum skólavist, sem ekki uppfylla hin almennu skilyrði, ef skólastjórn telur, að ástæða sé til.

Einnig eru nýmæli í frv. um stjórn skólans. Gert er ráð fyrir skólaráði, sem í eiga sæti skólastjóri, fastir kennarar við skólann og fulltrúar úr hópi nemenda. Að auki er gert ráð fyrir skólanefnd, sem skipuð sé fulltrúum Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, íþróttafulltrúa ríkisins, fulltrúa Íþróttakennarafélagsins og form. tilnefndum af rn. Ljóst er, að þessi efling Íþróttakennaraskólans krefst þess, að við hann sé bætt starfskröftum í kennaraliði. Vegna þess, hvernig til hagar á Laugarvatni, þar sem aðrir skólar starfa, sem hafa að sjálfsögðu fulla þörf fyrir íþróttakennara, er gert ráð fyrir, að Íþróttakennaraskólinn skuli leggja þeim til íþróttakennara af sinni hálfu. Með því móti á að vera unnt að tryggja, að við Íþróttakennaraskólann starfi menn með fjölþættari undirbúningsmenntun en ella væri, þannig að þeir vinni hluta af starfi sínu við Íþróttakennaraskólann, en hinn hlutann við almenna íþróttakennslu við aðra skóla á skólasetrinu.

Að lokum vil ég taka það fram, að eins og fskj. bera með sér, eru ekki allir á einu máli um, að rétt sé, að Íþróttakennaraskóli Íslands sé á Laugarvatni. Uppi eru raddir um, að flytja beri hann þaðan og þá helzt hingað til Reykjavíkur. Ég vil taka fram fyrir mitt leyti, að ég teldi það mjög misráðið að gera breytingu hér á, rífa skólann upp frá Laugarvatni, að svo komnu máli.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.