31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að ég hafði ætlað að gera hér örstutta fsp. til menntmrh. út af þessu máli. Hún er í stuttu máli vegna þess, að ég tel, að það sé mikil ástæða til þess að endurskoða nú alla tilhögun kennaramenntunar í landinu. Þess vegna spyr ég: Er uppi einhver athugun á kennaramenntuninni í landinu með það fyrir augum, að henni verði skipað á annan hátt að einhverju verulegu leyti en nú er? Hefur af hálfu rn. eitthvað verið gert í þessu efni?

Fyrst ég er hér staðinn upp, þá vildi ég lýsa þeirri skoðun minni, sem kom raunar fram hjá báðum ræðumönnum hér á undan, að það sé mjög varhugavert að taka Íþróttakennaraskóla Íslands og rífa hann upp með rótum frá Laugarvatni og flytja hann hingað til Reykjavíkur. En eins og við vitum, þá hefur það verið og hefur raunar komið fram núna í frv., sem liggur fyrir Alþ. um fiskiðnskóla, að svo virðist, sem mörgum þyki, að það sé ekki hægt að hafa neina ríkisstofnun nokkurs staðar annars staðar en í Reykjavík. Þetta held ég, að sé mikill misskilningur og sé mikil ástæða til þess að kanna rækilegar, hvaða stofnanir væri hægt að reka úti á landi til þess, að þær geti þar um leið þjónað því markmiði að treysta byggð í landinu, um leið og þær þjóna hinu almenna markmiði fyrir landið í heild. Mér er það fyllilega ljóst, að það er ekki sama, um hvaða stofnanir er hér að ræða, en margar hverjar og ekki sízt Íþróttakennaraskóli Íslands virðast vera mjög vel settar úti á landi, þar sem skilyrði eru fyrir hendi, en svo virðist sem það sé einhver árátta á mönnum að líta svo á, mörgum hverjum a. m. k., að engar stofnanir geti verið annars staðar en hér í Reykjavík. En ég vona, að hæstv. menntmrh. geti gefið mér einhverjar upplýsingar um það, hvort einhver athugun hafi farið fram á skipan kennaramenntunar í landinu í heild og hvers sé að vænta í þeim efnum.