17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Frv. það til l. um Íþróttakennaraskóla Íslands, sem hér liggur fyrir hinu háa Alþ., var sent til hv. menntmn. Nd., og hún skilaði einróma áliti, sem hljóðar svo á þskj. 520. N. hefur fjallað um frv. að fengnum nokkrum umsögnum og leggur til að það verði samþ. með þeim breytingum, sem n. gerir till. um á þskj. 515. Á þskj. 515 eru svo upp taldar nokkrar brtt. frá n., og þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þær.

Grg. frv. ber með sér, að endurskoðun l. um Íþróttakennaraskóla Íslands frá 1947 hafi staðið yfir — að vísu með nokkrum hvíldum — í 14 ár. Án efa liggja ýmsar orsakir til þessa seinagangs eða tafa, en meginskýringin virðist þó liggja í augum uppi. Það virðist hafa smám saman þróazt nokkur skoðanaágreiningur um framtíðarskipan þessa skóla og stöðu í skólakerfinu. A. m. k. er þessi ágreiningur bersýnilegur af fskj. með frv. og ekki síður af þeim umsögnum, sem nefndinni bárust, en þær voru frá eftirtöldum aðilum: Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, íþróttanefnd ríkisins, fjórum skólastjórum á Laugarvatni, Íþróttakennarafélagi Íslands, skólastjórn Kennaraháskóla Íslands, íþróttakennurum sama skóla og loks frá kennarafélagi sama skóla.

Hér verður þessi skoðanaágreiningur ekki rakinn, svo að nokkru nemi, en hann mun felast einkum í því, að Íþróttakennarafélagið og Kennaraháskóli Íslands og reyndar aðilar tengdir honum vilja leggja skólann niður að Laugarvatni, flytja hann til Reykjavíkur og fella hann inn í Kennaraháskóla Íslands á þá lund að færa hann yfir á háskólastig eins og Kennaraháskóli Íslands er nú í dag, m. ö. o. áskilja stúdentspróf sem inntökuskilyrði eins og tíðkast í þeim skóla. Frv. hins vegar gerir ráð fyrir því, eins og kunnugt er, að skólinn verði áfram sjálfstæður skóli að Laugarvatni og undirbúningsmenntun mun vægilegri en stúdentspróf. Bæði Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands styðja þetta viðhorf frv. Af þessu er ljóst, að um er að ræða nokkuð djúpstæðan skoðanaágreining. Það fer ekki á milli mála, að Íþróttakennarafélag Íslands og aðrir, sem eru sama sinnis, hafa sitt hvað til síns máls, en einkum eru tvær ábendingar frá þessum aðilum, sem gefa verður fullan gaum að.

Eins og kunnugt er, er Kennaraháskóli Íslands þriggja ára skóli að loknu stúdentsprófi, og öðlast nemendur þaðan réttindi til almennrar kennslu á skyldunámsstigi og einnig til sérkennslu svo sem í handavinnu. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir hins vegar ráð fyrir tveggja ára námi fyrir íþróttakennara og að auki mun minni kröfum til undirbúningsmenntunar. Nú má segja, að tveggja ára nám í Íþróttakennaraskóla Íslands sé mikil bót frá því, sem verið hefur, þar sem hann er nú eins árs skóli. Engu að síður blasir við með hinum nýju l. um Kennaraháskóla Íslands, að íþróttakennarar fengju skemmra nám en aðrir kennarar, sem kenndu á sama skólastigi. Það mundi leiða án efa til lægri launa, þeir yrðu settir skör lægra en t. d. handavinnukennarar, þeir yrðu einhvers konar 2. flokks kennarar, og íþróttir og líkamsrækt yrðu þar af leiðandi vanræktar.

Í öðru lagi bendir Íþróttakennarafélagið á og reyndar fleiri, að próf frá Íþróttakennaraskólanum veitir samkv. frv. aðeins réttindi til íþróttakennslu og það hljóti að vera miklu æskilegra, ekki sízt fyrir minni skóla á landsbyggðinni, að íþróttakennarar hefðu einnig réttindi til kennslu í öðrum greinum. Aðrar ábendingar Íþróttakennarafélagsins virðast ekki jafnveigamiklar. Ein helzta þeirra er, að Kennaraháskóli Íslands taki við menntun íþróttakennara og styðja það ýmsum rökum, m. a. vöntun á sérmenntuðum kennurum að Laugarvatni, vöntun á æfingakennslu í öllum aldursflokkum skyldunáms, vöntun á íþróttamannvirkjum og aðbúnaði hvers konar — allt þetta sé fyrir hendi nú eða á næstunni í Reykjavík og þá í tengslum við Kennaraháskóla Íslands. Að lokum benda þeir svo á kostnaðarauka við að hafa skólann að Laugarvatni.

Þrátt fyrir þennan mikla ágreining hefur menntmn., eins og fyrr segir, náð samstöðu um að skila einróma áliti með þeim till., sem gerðar hafa verið á þskj. 515. Var n. sammála um, að skólinn skyldi vera áfram sjálfstæð stofnun að Laugarvatni, en taldi einsýnt að sporna gegn því, að íþróttakennarar yrðu verr settir en aðrir kennarar á skyldunámsstiginu. Ein meginbreytingin við frv. eða tillögubreytingin er að tengja Íþróttakennaraskólann við Kennaraháskóla Íslands á þá lund, að þeir nemendur, sem æskja þess, geti bætt við sig námi í Kennaraháskóla Íslands. Á þann hátt gætu duglegir nemendur bætt við sig námi og fengið kennarapróf með íþróttakennslu að sérgrein. Þannig stæðu þeir jafnfætis öðrum kennurum á skyldunámsstigi og öðluðust réttindi til kennslu í annarri eða öðrum greinum en íþróttafræðslu einnl. Í brtt. n. segir m. a., að tilhögun viðbótarnámsins fari eftir reglugerð, sem setja skal að fengnum till. skólastjórnar Kennaraháskóla Íslands og skólanefndar Íþróttakennaraskólans.

Í þessu sambandi má benda á, að í l. um Kennaraháskóla Íslands, 6. gr., er talað um, að námsefni skiptist í 12 hluti í Kennaraháskólanum og hver hlutur jafngildi um það bil 6 ársvikustundum, sem mun merkja 6 stundir á viku á skólaárinu. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að nám handavinnukennara skuli vera tveir hlutir í bóklegum uppeldisgreinum, einn hlutur í kjarna, tveir í bóklegri valgrein og sjö í handlistum. Af þessu virðist mega ráða, að það sé ekki fjarri lagi, að nemendur Íþróttakennaraskólans taki sem svari sjö hlutum í íþróttafræðilegum greinum og einn hlut í bóklegri grein eða samtals átta hluti á tveimur árum. Ef unnt reyndist að byggja námið þannig upp í Íþróttakennaraskólanum, væru fjórir hlutir eftir, sem ljúka mætti á einum vetri í Kennaraháskóla Íslands. Þetta væri ákjósanleg lausn, hvort sem hún reynist fær eða ekki, en það kemur í hlut Kennaraháskóla Íslands og Íþróttakennaraskólans að ganga frá reglugerð um viðbótarnámið, að sjálfsögðu að fengnu samþykki menntmrn. Af þessu leiðir, að Íþróttakennaraskólanum er lögð sú skylda á herðar að sníða nám sitt nokkuð á þá lund, að viðbótarnám nemenda í Kennaraháskóla Íslands yrði sem árekstra- og erfiðleikaminnst. Það gefur því auga leið, að sumir nemendur Íþróttakennaraskólans munu hafa svo litla undirbúningsmenntun, að þeim reynist næsta örðugt að halda áfram í Kennaraháskóla Íslands. Þótti n. rétt að setja í frv. heimild í reglugerð um lágmarkseinkunn frá Íþróttakennaraskóla Íslands sem skilyrði fyrir inngöngu í Kennaraháskólann. Grundvallaratriði er þó það, að allir, sem spjara sig á þessari tilskildu lágmarkseinkunn, hafa sama rétt til viðbótarnámsins í Kennaraháskóla Íslands, án tillits til undirbúningsmenntunar, þegar þeir setjast í Íþróttakennaraskólann.

Í heild má segja, að með þessari breytingu á frv. sé Íþróttakennaraskólinn kominn í eðlileg tengsl við þá skólastofnun, sem annast kennaramenntun skyldunáms í landinu. Um þetta skulu ekki viðhöfð fleiri orð, en gerð grein fyrir nokkrum helztu brtt. við frv. eftir því, sem ástæða þykir til.

Brtt. við 1. gr. felur ekki í sér efnislegar breytingar, heldur hefur þótt ástæða til að orða hlutverk skólans á ótvíræðari hátt, einkum það er varðar hlutverk hans í þágu íþróttahreyfingarinnar í landinu, sbr. c-lið 2. brtt., en stofn þess liðar er færður úr 3. gr. í 1. gr., þ. e. í 3. gr. segir: „Skólinn efnir til námskeiða fyrir íþróttakennara og leiðbeinendur í íþróttum eftir því sem fé er veitt til.“ N. þótti ástæða til þess að færa þetta upp í 1. gr. til þess að leggja meiri áherzlu á þetta atriði en frv. gerir.

Varðandi 2. gr. er rétt að taka fram, að það þótti eðlilegt að halda því ákvæði frv., að próf frá Íþróttakennaraskóla Íslands veiti full réttindi til íþróttakennslu í öllum skólum landsins. Hins vegar er rétt að taka fram, að eftir eðli málsins leiðir það af sjálfu sér, að þeir nemendur, sem bæta við sig námi í Kennaraháskóla Íslands, hljóta að öllum jafnaði að standa betur að vígi og vera rétthærri til starfa við íþróttakennslu við æðri skóla landsins en þeir, sem eingöngu hafa próf frá íþróttakennaraskóla Íslands.

Um 2. gr. og tengslin við Kennaraháskóla Íslands hef ég þegar fjallað lítillega, en ég vil þó aðeins bæta nokkrum orðum við. Það er um hinn mikla vanda sem við blasir, um tengsl Íþróttakennaraskólans við annars vegar Kennaraháskóla Íslands og hins vegar jafnvel Háskóla Íslands. Nú standa yfir, að því er mér hefur skilizt, athuganir á verkaskiptingu milli annars vegar Kennaraháskólans og hins vegar Háskóla Íslands. Og ef svo fer, að þar verði veruleg verkaskipting milli þessara tveggja skóla, þá leiðir það af sjálfu sér, að það getur haft veruleg áhrif á stöðu Íþróttakennaraskólans og þá þurfi að taka það mál aftur til athugunar.

Við 3. og 4. gr. hefur verið aukið nokkrum ákvæðum eða þeim breytt, og er þar eingöngu um að ræða smávægilegar efnis- og orðalagsbreytingar. Ég tel enga ástæðu til að telja þær upp; þm. geta kynnt sér þetta sjálfir.

Í 5. gr. og víðar hafa verið teknar upp hugmyndir, sem nú eru ofarlega á baugi í lagasetningu skóla, en það er um aukið skólalýðræði. Það kemur fram einnig ósk um þetta atriði í umsögn frá Samtökum ísl. kennaranema, og menntmn. hefur tekið verulegt tillit til þeirra óska, sem þar koma fram. Þess má geta, að á tveimur stöðum í frv. er í stað skólastjóra sett inn skólaráð, og hugmyndin er sú, að nemendur, sem eru flestir um tvítugsaldur, taki að nokkru þátt í ákvörðunum varðandi skólann.

Varðandi inntökuskilyrði 5. gr. er vert að geta þess, að undirbúningsdeild sérnáms við Kennaraháskóla Íslands er að leggjast niður og hið almenna kennarapróf er að hverfa. Loks er allt óráðið um framtíð framhaldsdeilda gagnfræðaskólanna. Gera má því ráð fyrir, að stúdentspróf verði, eins og segir í grg. með frv., innan tíðar meginskilyrði fyrir inngöngu í Íþróttakennaraskólann; það er eðlileg og æskileg þróun. Sum inntökuskilyrði 5. gr. eru því tímabundin og verða sjálfdauð á næstu árum. Segja má, að sá ágreiningur, sem ríkir um inntökuskilyrðin í Íþróttakennaraskóla Íslands muni leysast að verulegu leyti af sjálfu sér.

Varðandi 6. gr. frv., þar sem fjallað er um námsgreinar, þótti rétt að telja námsgreinar eingöngu upp í reglugerð, en í stað 6. gr. kæmi að verulegu leyti ný gr., þar sem gert er ráð fyrir skiptingu námsins í kjarna, kjörsvið og valgreinar, og er það nokkuð í samræmi við þann háttinn, sem á er hafður, m. a. í menntaskólum landsins.

Ég skal ekki rekja þetta öllu meir en gert hefur verið, en ég vil þó aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem varða starfsaðstöðu skólans á Laugarvatni og þeim vanda, sem skólinn á við að etja. Þar sem hið háa Alþ. virðist að öllum líkindum ætla að halda uppi starfsemi skólans að Laugarvatni, verður að ganga svo frá hnútunum, að hann geti sinnt hlutverki sínu. Veran að Laugarvatni má ekki vera innantóm dreifbýlisrómantík, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð úr grg. skólastjóra Íþróttakennaraskólans, og hygg ég, að það sé mjög til skýringar fyrir þm. á þeim atriðum, sem hljóta að fylgja þeirri breytingu, sem gert er ráð fyrir á starfi Íþróttakennaraskólans. Í grg. skólastjórans segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú eru starfandi að Laugarvatni íþróttakennarar, sem hér segir: Við Menntaskólann er starfandi íþróttakennari í hálfri stöðu og við Héraðsskólann starfar einn fastráðinn íþróttakennari. Önnur íþróttakennsla við þessa skóla, svo og við Húsmæðraskólann og barnaskólann, er unnin af stundakennurum. Við Íþróttakennaraskóla Íslands starfa skólastjóri, og að auki er ráðið í 2.5 stöður. Samtals verða þetta 4 íþróttakennarar auk skólastjóra Íþróttakennaraskóla Íslands. Að auki eru svo starfandi stundakennarar, og talsverð stundakennsla fellur undir hlut hinna fastráðnu kennara. Gera má ráð fyrir, að við Menntaskólann verði 36 kennslustundir í íþróttum, við Héraðsskólann 40 stundir, Húsmæðraskólann 12 stundir og við barnaskólann álíka margar. Samanlagt verða þetta um 100 kennslustundir í íþróttum á viku.

Þetta er tekið fram í sambandi við það, að það er gert ráð fyrir því í frv., að Íþróttakennaraskólinn annist íþróttakennslu þá, sem fram á að fara í skólunum að Laugarvatni. Þá er eftir að áætla kennsluna í Íþróttakennaraskóla Íslands og mannaflaþörf þess skóla. Getur þörfin vart orðið minni en þrír kennarar auk skólastjóra Íþróttakennaraskóla Íslands. Áætluð kennaraþörf verður því 6 kennarar og skólastjóri. Að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir heimild í l. fyrir, að ráða megi stundakennara, og er þessi áætlun byggð á því. Er það m. a. vegna kennslu einstakra námsgreina, sem e. t. v. yrði að einhverju leyti í höndum kennara annarra skóla á staðnum, t. d. lífeðlisfræði og uppeldis- og sálarfræði. Annað starfsfólk þyrfti að ráða að skólanum, því að vart er að búast við því, að lengur verði unað við það, að öll önnur störf, sem vinna þarf við skólann, verði eftirleiðis unnin af skólastjóra og kennurum, enda hafa aðrir skólar, þótt ekki séu heimavistarskólar, fengið heimild til að ráða slíkt fólk. Ráðsmann og ráðskonu þyrfti nauðsynlega að ráða. Hlutverk slíkra starfsmanna væru fyrst og fremst umsjónarstörf. Ráðsmaðurinn hefði umsjón með íþróttamannvirkjum og lóð skólans, húsum og húsmunum, ræstingu, ljósi, hita og tækjum skólans. Ráðskona hefði á hendi stjórn mötuneytis og umsjón í heimavistum. Baðvörður annaðist baðvörzlu og ræstingu á bað- og búningsherbergjum íþróttahúsa og sundlaugar.“

Varðandi mannvirkin tekur skólastjórinn fram eftirfarandi: „Íþróttahús þarf að hyggja. Það þarf að vera það stórt, að það rúmi þær innanhúss íþróttir, sem hér eru iðkaðar. Nauðsynlegt er, að í húsi þessu verði rými fyrir áhorfendur. Íþróttir skipa orðið mjög mikið rúm í félagslífi nemenda skólanna að Laugarvatni. Um helgar dveljast þeir löngum í íþróttahúsinu og eru þátttakendur eða áhorfendur að kappleikjum og sýningum, sem þar fara fram. Íþróttahús það, sem nú er að Laugarvatni, er of lítið, auk þess sem það annar ekki lengur þörfum allra skólanna í þessu efni. Nú fara þar fram milli 90–100 kennslustundir í íþróttum á viku. Sundlaug þarf einnig að byggja. Héraðsskólinn að Laugarvatni er eigandi sundlaugarinnar á staðnum. Hún er aðeins 12.5 metrar á lengd og svarar ekki lengur kröfum tímans, hvað það snertir. Sundlaug er einnig mjög aðkallandi vegna sumarstarfseminnar að Laugarvatni, hótelrekstrar og ferðamanna. Ferðamálaráðstefnur hafa gert ályktanir vegna skorts á góðri sundlaug að Laugarvatni. Kennslustofubygging þarf að rísa, e. t. v. samtengd íþróttahúsinu. Íþróttakennaraskóli Íslands hefur nú til umráða eina litla kennslustofu í tengibyggingu íþróttahúss og sundlaugar. Vinnuaðstaða fyrir nemendur og kennara er þar frumstæð, enda húsnæðið ætlað til annarra nota í upphafi. Íbúðarhúsnæði fyrir kennara þarf að byggja. Forsenda þess að fá kennara og annað starfslið til starfa að Laugarvatni virðist vera, að íbúðir séu fyrir hendi.“

Enn fremur segir skólastjórinn í þessari grg.: „Þá leyfi ég mér að setja fram þá skoðun mína, að nauðsynlegt er fyrir Íslendinga að eiga íþróttamiðstöð, stað eins og Laugarvatn, sem íslenzka ríkið leggur metnað sinn í að byggja upp og búa þeim húsakynnum og öðrum íþróttamannvirkjum, sem sómi er að. Laugarvatn er kjörinn staður fyrir slíkt, veðursæld mikil, gróður og iðandi líf. Vatnið gefur möguleika til baða, róðrar og siglinga auk skautaferða yfir vetrarmánuðina. Fjallið með skógarkjarr í hlíðum er kjörið til gönguferða. Ég þekki ekki annan stað á Íslandi, sem er jafnvel fallinn til þess að vera gerður að íþróttamiðstöð og útisamkomustað landsmanna. Þetta veit fólk, enda flykkist það til Laugarvatns á sumrin sér til hressingar og ánægjuauka, þótt enn vanti svo til alla þá aðstöðu, sem hér ætti að skapa. Sumargestir kvarta yfir aðstöðuleysi við vatnið, vatnsströndin er grýtt, böð ófullkomin og útisundlaug vantar. Allt þetta væri hægt að nýta sameiginlega af skólunum og sumargestum. Þessi aðstaða þarf að koma og það strax, og þá hafa Íslendingar eignazt einstakan stað til útilífs og íþróttaiðkana.“

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að taka undir þessi orð skólastjórans, og þó að þetta lúti dálítið að almennum ferðamálum, þá er alveg ljóst mál að þau eru í allmiklum tengslum við Íþróttakennaraskólann og starfsemi hans að Laugarvatni.

Ég mun nú láta þetta nægja við þessa umr. málsins, nema að því leyti að ég vænti þess, að ríkisstj. og Alþ. sjái sér fært að bæta svo um aðbúnað Íþróttakennaraskólans að Laugarvatni, að honum reynist unnt að framfylgja þeim l., sem nú verða væntanlega samþykkt á þessu þingi.