27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Þetta mál er nú komið til 3. umr. og fékk shlj. stuðning þessarar hv. d. við 2. umr., þannig að full samstaða virðist vera í d. um afgreiðslu þessa máls, svo að ég mun nú ekki vera langorður. Ég vil aðeins fyrst benda á, að það er komin fram brtt. á þskj. 628 frá menntmn., þar sem gerð er sú litla breyting við 5. gr. frv., að í stað orðsins „Kennaraháskólans“ komi „Kennaraskólans“. Þetta er í c-lið gr. Þetta er í raun og veru ekkert annað en leiðrétting, því að við komumst að því síðar í n., að þó að Kennaraskólinn sé í raun og veru lagður niður og Kennaraháskólinn hafi leyst hann af hólmi, þá heitir þessi deild enn undirbúningsdeild sérnáms Kennaraskólans, og er rétt að hafa það, sem sannara er, svo að þetta er eðlileg breyting.

Að öðru leyti vil ég aðeins drepa á það, að einn mesti vandinn varðandi þetta frv. hefur verið að tengja Íþróttakennaraskólann við annað kennaranám í landinu. Full samstaða varð um það í n., að Íþróttakennaraskólanum yrði valinn staður að Laugarvatni, en hins vegar var því aukið við frv. af n., að að loknu prófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands væri nemendum hans heimilt að sækja nám í Kennaraháskóla Íslands, öðlast viðbótarnám, þannig að nemendur frá Íþróttakennaraskóla Íslands gætu, ef þeir æsktu þess, bætt við sig því námi, að þeir hefðu fyllilega launalega samstöðu og önnur jafnhliða réttindi við aðra kennara á skyldunámsstiginu. Hugmyndin er sú, að Íþróttakennaraskólinn verði tveggja ára skóli, öll kennsla fari fram að Laugarvatni, og bætt verði við bóklegum greinum í reglugerð. Þá er hugmyndin sú, að notast megi við t. d. kennara Menntaskólans að Laugarvatni. Að loknu prófi í Íþróttakennaraskóla Íslands geta hins vegar þessir nemendur að sjálfsögðu leitað inngöngu í Kennaraháskóla Íslands, en þá hverfa þeir að sjálfsögðu frá Laugarvatni. Þá tekur önnur stofnun við þeim, en á meðan þeir eru við íþróttakennaranám, heyra þeir að sjálfsögðu undir þær námskröfur og þá stjórnsýslu, sem ríkir við Íþróttakennaraskólann að Laugarvatni.

Ég vildi aðeins gera þetta ljóst, að hér fer ekki á milli mála, að skólinn hefur sitt aðsetur að Laugarvatni, annast uppfræðslu sinna nemenda um tveggja ára skeið, en síðan geta þeir, sem hyggja á framhaldsnám, horfið þaðan á brott og hlíta þá reglum þeirra skóla, sem þeir hverfa til.