27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hv. form, menntmn. fyrir þá skilgreiningu, sem hann gaf hér á frv., eins og það nú er, og sem er alveg í samræmi við þann skilning, sem ég hef haft á því. En það var eigi að síður gott að fá þetta skilgreint svo nákvæmlega, sem hv. þm. gerði. Það er vitað mál að undanfarið hefur verið nokkurt tal um Íþróttakennaraskólann og jafnvel það að flytja hann frá Laugarvatni. En eins og frv. er nú, eftir að n. hefur komið sér saman um breytingar á því, má segja, að það sé ákveðið, að Íþróttakennaraskólinn verði að Laugarvatni og nemendurnir ljúki þar að öllu leyti sínu námi. Og það er þetta, sem skólastjóri Íþróttakennaraskólans lagði einnig áherzlu á, að lægi alveg skýrt fyrir og þar væri ekki um nokkurt vafamál að ræða. Ég er mjög ánægður með, að það er ekki lengur. Íþróttakennaraskólinn hefur nú starfað nokkuð lengi að Laugarvatni með miklum ágætum og myndarbrag undir öruggri forustu þess skólastjóra, sem þar er nú. En það er alveg ljóst, að um leið og þetta frv. er lögfest, er náttúrlega enn brýnni nauðsyn en áður á því að auka fjárveitingu til skólans. Það er ýmislegt þar, sem enn er ógert. Það þarf að auka við húsnæði skólans. Það vantar t. d. alveg tilfinnanlega sundlaug, ekki aðeins vegna Íþróttakennaraskólans, heldur einnig vegna þess mikla ferðamannastraums, sem til Laugarvatns er, og það þarf að gera ýmsar lagfæringar.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vildi aðeins taka undir þetta, sem hv. form. menntmn. sagði hér áðan og lýsa ánægju minni yfir því; að frv. er komið í þetta horf, sem engum misskilningi getur lengur valdið.