13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um Íþróttakennaraskóla Íslands. Í meðferð hv. Nd. urðu töluverðar breytingar á þessu frv., æðimargar umsagnir bárust, og um það hafa orðið töluverð blaðaskrif, eins og hv. þm. hafa eflaust fylgzt með. Engu að síður sér hv. menntmn. þessarar d. sér ekki annað fært en að gera að till. sinni eina breytingu enn á frv., eins og fram kemur á þskj. 767. Breytingin er í því fólgin, að inn í 2. gr. á eftir orðunum „með íþróttakennslu að sérgrein“ komi: „enda fullnægi þeir inntökuskilyrðum Kennaraháskólans að öðru leyti.“

Vegna þess, hve málið hefur verið mikið rætt í dagblöðum og á opinberum vettvangi, vil ég leyfa mér að fara um það fáeinum orðum. Eins og ég sagði, bárust allmargar umsagnir um þetta frv. og sumar mjög ítarlegar. Einkum voru ítarlegar umsagnir frá Íþróttakennarafélagi Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Í þessum umsögnum var frv. fundið mjög margt til foráttu, en hv. menntmn. Nd. og hv. Nd. tók ýmislegt þar til greina og gerði á frv. margvíslegar breytingar. M. a. kom fram sú aths., að rétt væri að tengja Íþróttakennaraskólann Kennaraháskóla Íslands á einhvern máta, en það var ekki í upphaflegu frv. Þetta gerði hv. Nd„ en í ljós kemur, að nokkuð vafasamt er, á hvern máta þetta er gert. Augljóst er, að nemendur eiga ekki að eiga þess kost að fara um eins konar bakdyr úr Íþróttakennaraskóla Íslands inn í Kennaraháskólann eins og rektor Kennaraháskólans hefur bent á í umsögn, sem barst, eftir að frv. hafði verið breytt á þennan hátt. Sú breyting, sem hv. menntmn. gerir að till. sinni, er til þess að koma í veg fyrir slíkt og er samkvæmt till. rektors Kennaraháskóla Íslands.

Eins og ég hef sagt, komu fram margar aths. Langsamlega mest hafa verið ræddar tvær aths. og mikið um þær ritað og deilt í blöðum.

Annars vegar er það sú aths., að nemendur Íþróttakennaraskóla Íslands séu settir skör lægra en aðrir kennaranemendur, og er þar vísað til þess, að Kennaraskóli Íslands var gerður að Kennaraháskóla á s. l. ári. Ég fyrir mitt leyti hef nokkra meðaumkun með þessu sjónarmiði. Ég er sannfærður um, að það ber að auka kröfur til nemenda við íþróttakennslu, og get í því sambandi vísað til grg. með frv. til l. um Íþróttakennaraskóla Íslands, en þar kemur fram athyglisverður samanburður á inntökuskilyrðum og námstíma íþróttakennara í nokkrum löndum. M. a. kemur þar í ljós, að á Norðurlöndunum, þ. e. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, er krafizt stúdentsprófs eða almenns kennaraprófs. Í því frv., sem hér liggur fyrir, hefur þetta verið sett nokkru neðar og framhaldsdeild gagnfræðaskóla talin geta fullnægt inntökuskilyrðum í skólann. Hins er þó að gæta, að þessi skóli er verulega aukinn frá því, sem verið hefur. Hann er gerður að tveggja ára skóla, og er það nálægt því tvöföldun á því, sem áður var, og nokkuð meiri skólaganga en t. d. í Danmörku og víðar við íþróttakennaranám. Mér sýnist ljóst, að samræma þarf betur en nú er menntun að stúdentsprófi, menntun í framhaldsskólum, gagnfræðaskóla o. fl., með tilliti til inngöngu í æðri skóla, m. a. í Íþróttakennaraskóla Íslands. Því tel ég fyrir mitt leyti réttlætanlegt, að þessi krafa um inntökuskilyrði sé nokkru neðar sett en annars staðar á Norðurlöndum, á meðan þessi almenna samræming á námi hefur ekki farið fram. Ég fyrir mitt leyti fellst því á inntökuskilyrðin á þeirri forsendu, að námið er verulega aukið og eflt, og sömuleiðis í þeirri von, að fljótlega fari fram nauðsynleg endurskoðun á námsbrautum öllum.

Annað atriði, sem hefur vakið miklar deilur og mikið verið um rætt, er staðsetning skólans að Laugarvatni. Ég vil taka það fram í upphafi, að fjölmargar umsagnir hafa borizt, einkum eftir að staðsetningin hafði verið í hámælum höfð í dagblöðum, og eru þær allar, ef ég man rétt, aðrar en þær, sem ég gat um áðan, mjög hlynntar því, að Íþróttakennaraskólinn verði staðsettur að Laugarvatni. Ég vil fyrir mitt leyti leggja mikla áherzlu á þá skoðun mína, að ég tel, að starfsemi skólans þar sé vel valinn staður og það hljóti að verða skólanum, ef rétt er að honum búið, til framdráttar.

Ég vil taka undir fáein atriði, sem fram hafa komið í umr. Fyrst og fremst vil ég leggja áherzlu á, að hið opinbera verður að gera sér grein fyrir því, að þegar stofnun eins og skóli er staðsett fjarri höfuðborgarsvæðinu, fylgir því nálægt því alltaf töluvert meiri kostnaður vegna mannvirkja en verða þarf á Reykjavíkursvæðinu sjálfu. Það er rétt, að á Reykjavíkursvæðinu er líklegt, að íþróttakennaranemar gætu fengið aðgang að íþróttamannvirkjum. sem hér eru að sjálfsögðu fleiri en t. d. á Laugarvatni og annars staðar á landinu, aðgang að sundlaugum, íþróttasölum, knattspyrnuvöllum o. s. frv. Einnig er það staðreynd, að á Laugarvatni eru þessi mannvirki orðin æðigömul, t. d. er íþróttahús síðan 1946 og aðeins 12x24 m að flatarmáli. Má ljóst vera, að það fullnægir hvergi nærri nútímakröfum til fjölmargra hópíþrótta, og er það vissulega illt, þegar um íþróttakennaraskóla og íþróttamiðstöð eins og á Laugarvatni er að ræða. Sundlaugin er aðeins 12½ m á lengd, og mun líklega óvíða þekkjast á stærri stöðum svo lítil sundlaug. Fleira þarf að gera. Það þarf að koma upp kennslustofum, íbúðarhúsnæði o. fl., sem ég ætla ekki að rekja hér, en verður að koma upp að Laugarvatni, ef Íþróttakennaraskólinn verður staðsettur þar.

Á Laugarvatni hefur þegar myndast og er að eflast myndarlegt menntahverfi, menntamiðstöð, og sýnist mér, að íþróttakennarar geti hlotið þar hina ágætustu þjálfun í íþróttakennslu á öllum stigum menntunar unglinga og barna, ef rétt og vel er að þeim búið.

Um staðsetninguna sjálfa á Laugarvatni vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vísa í það, sem fram hefur komið hjá skólastjóra Íþróttakennaraskólans. Hann lýsir þeirri skoðun sinni, að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að eiga íþróttamiðstöð, og segir, „stað eins og Laugarvatn, sem íslenzka ríkið leggur metnað sinn í að byggja upp og búa þeim húsakynnum og öðrum íþróttamannvirkjum, sem sómi er að. Laugarvatn er kjörinn staður fyrir slíkt, veðursæld mikil, gróður og iðandi líf. Vatnið gefur möguleika til baða, róðrar og siglinga auk skautaferða yfir vetrarmánuðina. Fjallið með skógarkjarr í hlíðum er kjörið til gönguferða.“ Undir þessi orð skólastjórans tek ég af heilum hug og legg áherzlu á þá skoðun mína, að það sé ekki síður mikilvægt fyrir íþróttakennaraefni að hljóta sína menntun í slíku umhverfi. Ég er sannfærður um það, að þeirra verkefni verður með tíð og tíma í vaxandi mæli að leiðbeina ungmennum í gönguferðum og hvers konar heilbrigðum afnotum af okkar ágæta landi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en vil segja það að lokum, um leið og ég mæli með samþykkt þessa frv. með þeirri breytingu, sem hv. menntmn. hefur sett fram, að það er von mín, að hið opinbera taki myndarlega til höndum og komi upp á Laugarvatni nauðsynlegum mannvirkjum fyrir þennan skóla sem og fyrir aðra skóla, enda er það sannfæring mín, að sú var hugsun þeirra sem af stórhug afhentu hinu opinbera þennan myndarlega stað til afnota í menntaskyni.