01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir, að þetta frv. er hér aftur lagt fram. Shlj. frv. var lagt fram, eins og hæstv. dómsmrh. minnti á, í lok síðasta þings, og var því vísað til n. N. gafst ekki tími til þess að vinna neitt í málinu vegna þess, hve áliðið var orðið þingtímans, enda hefði vart verið ætlazt til þess, að slíkt frv. væri afgreitt á stuttum tíma, og þótti rétt að gefa mönnum tækifæri til þess að kynna sér efni þess. Hins vegar er frv, nú komið fram í þingbyrjun og ætti því með allri sanngirni að mega ætlast til þess, að það hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi.

Þetta frv. er, eins og um hefur verið getið, árangur af margra ára samstarfi Norðurlandanna — samstarfi, sem að því hefur miðað að samræma hjúskaparlöggjöfina breyttum tímum og samræma löggjöf landanna innbyrðis. Það er auðvitað alltaf matsatriði, hve langt er hægt að ganga í því að samræma algerlega löggjöf fleiri landa, og maður gengur ekki út frá því, að það takist í öllum atriðum fremur en — eins og hæstv. dómsmrh. gat um — það tókst á sínum tíma á árunum milli 1920–1930 þrátt fyrir undangengið samstarf að samræma hjúskaparlöggjöfina að öllu leyti þá. En ég held, að það geti ekki verið neinn ágreiningur um það, að það sé mjög æskilegt, að hjúskaparlöggjöf þessara landa sé samræmd, að svo miklu leyti sem mögulegt er talið, að unnt sé, og veldur því t. d. það, hve títt það er, að ríkisborgarar hinna ýmsu Norðurlanda stofni til hjúskapar.

Í þessu frv. eru ýmsar breytingar, en óhætt er að segja, að það hafi engin bylting verið gerð á núgildandi löggjöf um stofnun og slit hjúskapar með þessu frv. Það hefur töluvert margar breytingar að geyma, og það skal ég ekki fara að rekja hér, því að frv. fylgir mjög ítarleg grg., þannig að það er auðvelt fyrir alla að kynna sér þessar breytingar, sem hér er um að ræða. Í því sambandi vil ég koma að því, sem hæstv. dómsmrh. áðan sagði, er hann fylgdi frv. úr hlaði, að það væri e. t. v. ekki ástæða fyrir okkur til þess að gera mikið í þessu eða réttara sagt, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, að við gætum e. t. v. farið okkur hægt, eða ég skildi það svo, að það gæti verið álitamál, hvort það ætti að stefna að því að lögfesta frv. með hugsanlegum breytingum að svo stöddu, vegna þess að nú yrði e. t. v. framhald samstarfs á Norðurlöndum um ítarlegri og róttækari endurskoðun á þessari löggjöf.

Nú vil ég segja það, að það er ekkert nema gott um það að segja, að samstarfið haldi áfram og leitazt verði við að samræma hjúskaparlöggjöfina enn betur breyttum tímum og samræma hana enn betur innbyrðis milli Norðurlandanna. En það er enginn vafi á því, að niðurstöður af slíku framhaldssamstarfi munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir mörg ár, og ég held, að það út af fyrir sig eigi alls ekki að halda aftur af okkur með að lögfesta þau ákvæði þessara l., sem til bóta horfa að dómi Alþ. Það er sjálfsagt rétt, eins og hæstv. ráðh. sagði, að það má lita misjöfnum augum á þær breytingar, sem hér eru lagðar til. Ég held þó, að margar þeirra séu þess eðlis, að hv. alþm. geti verið um það algerlega sammála, og það er líka rétt að vekja athygli á því, að á okkar l. um stofnun og slit hjúskapar hafa sáralitlar breytingar verið gerðar, meðan annars staðar á Norðurlöndum hafa aftur verið gerðar töluverðar breytingar, sem nú hafa verið, eftir því sem rétt hefur þótt að gera hér hjá okkur, teknar upp í þetta frv.

Ég vil því nú þegar við þessa umr. leggja á það áherzlu, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, og vil jafnframt taka það fram, að það verður mjög að hafa það í huga, að hér er gerð tilraun til þess að samræma hjúskaparlöggjöf okkar því, sem er annars staðar á Norðurlöndum, þótt, — eins og ég áður sagði — ekki sé til þess ætlazt, að öll atriði falli mönnum svo, að þeir telji rétt að lögfesta þau, en ég ætla, að það séu samt svo mörg atriði, sem menn geta verið sammála um, að til bóta horfi, að það eigi að vera full ástæða til þess, að frv. fái afgreiðslu á þinginu, því að — eins og ég gat um áðan má gera ráð fyrir, að það þurfi að bíða mörg ár eftir niðurstöðum af þeirri endurskoðun, sem nú er aftur hrundið af stað.