05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. d. hefur haft með þetta frv. að gera, rætt það og fengið umsagnir víða að. Eins og kunnugt er, er hér um allmikinn lagabálk að ræða, og í heild er hann orðinn nokkuð gamall að aldri — 50 ára gamall. L., sem nú gilda, eru sem sé frá 1921. Við í n. sendum þetta mál til umsagnar Dómarafélagi Íslands, biskupi Íslands, Lögfræðingafélagi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands. Allar þessar umsagnir voru misjafnlega ítarlegar, en allar voru þær þó á þá lund, að umsagnaraðilar töldu rétt og sjálfsagt að samþykkja þær að meginefni. Nokkrar till. komu frá umsagnaraðilum, en ekki um viðamikil atriði í frv., og n. hafði þann hátt á að ganga fram hjá þeim, þegar hún gekk frá nál., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv., ef fram kæmu.

Íslenzk hjúskaparlöggjöf hefur frá upphafi fylgt mjög hinni almennu norrænu og hefur verið nokkurn veginn óbreytt hjá okkur frá 1921. Hitt er annað, að um langa hríð hefur verið samvinna með okkur Íslendingum við aðrar Norðurlandaþjóðir um þessi mál og sifjaréttarmál almennt, en hjúskaparlöggjöfin er eitt atriði þeirra mála. Ég held, að það hafi verið fyrir röskum áratug, sem íslenzk sifjalaganefnd var skipuð, og hún hefur haft það hlutverk á hendi að vinna með sams konar nefndum annarra Norðurlandaþjóða. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera svo, að það sé hagkvæmt fyrir þessar fimm vina- og frændþjóðir að hafa samvinnu um þessi mál svo mikil sem samskiptin eru á milli þeirra. Enn er í endurskoðun þessi hluti sifjalagaréttar og mun verða sjálfsagt um langa hríð, og breytingar munu eiga sér stað, eftir því sem tímar líða og eðlilegt má telja, þar sem margt kemur til — eðlilegar breytingar vegna þjóðfélagshátta og annars á langri leið. Eins og ég segi, er þetta löggjafarefni sífellt í athugun og mótun, og það er nokkurn veginn víst, að innan fárra ára muni fleiri breytingar koma til athugunar og frv. verða flutt um þær hér á þingi, en nm. álitu, að þær breytingar, sem felast í frv. og okkar menn í sifjalaganefnd af hálfu Íslendinga hafa mælt með, yrðu gerðar.

Ég vil draga aðeins saman í stuttu máli töluvert efni, þar sem breytingarnar eru, en vísa að öðru leyti til grg., sem fylgir frv. Grg. er mjög ítarleg og alveg sérlega fróðleg í þessu efni.

Það er í fyrsta lagi, að ákvæði um svokallaðar festar eru niður felld. Ákvæðin um festar hafa eiginlega aldrei komizt í framkvæmd í raun og veru, og sá kafli hefur verið dauður bókstafur lengst af eða kannske alla tíð. Því þykir sjálfsagt að fella hann niður.

Hjónavígsluskilyrði eru nokkuð rýmkuð. Það má t. d. nefna hjónavígslualdur karla. Hann er færður niður í 18 ár, og afdráttarlaust bann við hjónavígslu vegna vissra sjúkdóma er afnumið. Þarna fylgjum við Norðurlandaþjóðunum í þessu efni, og þessi ákvæði í frv. sýna, að stefnt er í átt til meira frjálslyndis en áður hefur verið, og svo má segja um allar þessar breyt., sem nú eru gerðar á þessu frv.

Þá er lýsing með hjónaefnum felld niður. Hún hefur nú verið, eftir því sem ég bezt veit, svo að segja formið eitt og því ástæðulaust að halda þeirri gr. l. við.

Þá er að geta þess, að frv. kveður svo á, að þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af embætti, sé óheimilt að framkvæma hjónavígslu.

Um skilyrðin til hjónaskilnaðar gildir að sjálfsögðu það, sem ég sagði um frv. í heild, þ. e. þau stefna í frjálsræðisátt, þau eru mjög rýmkuð og færð til samræmis við fengna reynslu við meðferð slíkra mála, en mál af þessu tagi eru mjög áþekk — ekkert síður hér á landi en með þjóðunum kringum okkur.

Þá eru settar upp reglur, sem telja verður til nýmæla um umgengnisrétt þess foreldris, sem ekki fær forræði barns við hjónaskilnað. Í samhengi við það er rýmkaður kostur þess að úrskurða maka framfærslueyri eftir lögskilnað. Þá er í frv. ákvæði um það, að skilnaðarsökin sjálf geti ekki ráðið neinu um forræði barns, þannig að það hjóna, sem á sök að öllu eða einhverju leyti á hjónaskilnaði, getur eftir atvikum fengið forræði barns þrátt fyrir það.

Ég hef nefnt hér aðeins nokkur atriði, sem helzt má telja til nýmæla. Þó eru mörg fleiri, sem kannske væri rétt að geta, en í grg. er þeirra ítarlega getið og þau verulega skýrð, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa upptalningu mína öllu lengri.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls, hefur allshn. samþ. að mæla með því, að frv. fái góðan og greiðan framgang, en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að koma fram með brtt. eða fylgja þeim, ef þeim sýnist svo.

Allshn. hefur flutt eina brtt., og hún er á þá lund að breyta gildistökutímanum. Í frv. segir, að l. taki gildi 1. jan. 1972, en brtt. allshn. er á þá lund, að í stað þess ákvæðis komi 1. jan. 1973, og verður að telja það mjög eðlilega breytingu.

Aðrar brtt. hafa komið fram frá einum nm., hv. 5. þm. Vestf. Önnur þeirra er á þá leið að breyta ákvæði í 16. gr. frv. 1. mgr. þannig:

„Þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af prestsembætti, er heimilt að framkvæma hjónavígslu í umboði viðkomandi sóknarprests þjóðkirkjunnar.“

Þetta er brtt., sem við ræddum um í n., og kannske eðlilegt, að hún komi fram. Þessari reglu, sem sett er upp í brtt., hefur verið haldið mjög lengi uppi með þjóð okkar, og má kannske segja um hana, að það megi deila eitthvað um þetta. Aðallega er þetta nú tilfinningamál að minni hyggju a. m. k., og ég vil láta það líka fylgja með, að ég tel það ekki eðlilegt, að þjóðkirkjuprestur, sem látið hefur af embætti, framkvæmi hjónavígslur, vegna þess að hann er ekki lengur sá embættismaður, sem á að hafa á hendi slíka framkvæmd. Þetta er embættisaðgjörð, og viðkomandi er alls ekki í embættinu lengur, og þess vegna finnst mér og raunar mörgum fleiri, að það sé ekki eðlilegt, að þeir prestar, sem þannig er ástatt um, megi framkvæma þetta embættisverk fremur en önnur, og þess vegna legg ég til — og tala þá ekki út af fyrir sig í umboði n. um þetta — að þessi brtt. nái ekki fram að ganga.

Ég held svo, herra forseti, að ég hafi ekki fleiri orð um þetta mál að sinni.