05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. allshn. gerði grein fyrir hér áðan, mælti nefndin með samþykkt þessa frv., og er ég einn af þeim, sem gera það. En í nál. á þskj. 577 áskildum við nm. okkur rétt til að mæla með eða flytja brtt. við frv., og hef ég notfært mér þennan rétt og borið fram brtt. á þskj. 627. Þar er lagt til að nýr málsl. bætist við 1. mgr. 16. gr. og verði svohljóðandi: „Þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af prestsembætti, er heimilt að framkvæma hjónavígslu í umboði viðkomandi sóknarprests þjóðkirkjunnar.“ Og í öðru lagi er lagt til, að lokamálsliður 2. mgr. 16. gr. falli niður, en þar segir í frv.: „Frá 1. janúar 1972 að telja skal þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af prestsembætti, óheimilt að framkvæma hjónavígslur.“

Ég er andvígur því að taka þennan rétt af prestum þjóðkirkjunnar, sem látið hafa af embætti. Það hefur tíðkazt um langan aldur, að þeir hefðu heimild til að framkvæma hjónavígslur og önnur viss prestsstörf, og ég tel, að það séu engin rök fyrir því að afnema rétt þeirra til þessa. Hér er um venju að ræða, sem hefur tíðkazt svo lengi sem elztu menn muna, hygg ég. Það hefur ekki verið lögbundið, en það gekk dómur um þetta efni í Hæstarétti árið 1968, og Hæstiréttur úrskurðaði, að það væri venjuhelguð íslenzk réttarregla, að uppgjafaprestar hefðu heimild til að framkvæma hjónavígslur.

Ég sagði áðan, að þessi venja hefði tíðkazt lengi. Mér þykir rétt að gera nokkru nánari grein fyrir því, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í dóm Hæstaréttar frá 9. apríl 1968, þar sem fjallað er um þetta mál. En þar segir, að lagt hafi verið fram í Hæstarétti bréf frá dóms- og kirkjumálarn. dags. 2. apríl 1968 varðandi þessi mál, og vil ég leyfa mér að fara með nokkurn kafla hér úr þessu bréfi, en í bréfinu segir:

„Ráðuneytið hefur átt viðræður við starfsmenn biskupsembættisins um möguleika á almennri könnun á framkvæmd á hjónavígslum með þessum hætti. Hefur biskupsembættið upplýst, að ekki muni unnt að upplýsa, svo að tæmandi verði talið, um fjölda slíkra embættisverka, þar sem ekki sé óyggjandi, að við skráningu vígslu sé ávallt getið vígslumanns, þótt hann sé annar en sá sóknarprestur, sem vígslu færir til bókar.

Ráðuneytið hefur gert nokkra könnun á færslum á hjónavígslum, þar sem athugasemd er gerð um slíkan vígslumann í ministerialbókum dómkirkjunnar í Reykjavík frá s. l. aldamótum. Kemur í ljós við þá athugun, að vígslur, þar sem slíkir vígslumenn eru skráðir, eru mjög fáar á 2 fyrstu áratugunum eftir aldamótin, þó koma þær fyrir öðru hvoru allt árabilið, bæði fyrir og eftir útgáfu stjórnarráðsbréfs nr. 99 31. júlí 1911. Vígslumenn eru þá einkum biskupar þeir, sem í embættum eru á árabilinu . . ., en einnig prestaskóla- og guðfræðideildarkennarar ... Einnig á þessu árabili koma til einstakar vígslur framkvæmdar af öðrum prestvígðum mönnum utan sóknarprestsembætta ... Þá kemur ennfremur í ljós, að upp úr 1920 fjölgar slíkum vígslum töluvert. Eru þær t. d. 21 árið 1925, 20 árið 1930, 12 árið 1935. Á þessu árabili fjölgar töluvert vígslum framkvæmdum af uppgjafaprestum, og má sjá við þá athugun, að svo sem vænta má, eru slíkar vígslur fleiri þau ár, er sóknarprestar í stórum prestaköllum hafa látið af störfum og eru ernir . . . Allveruleg fjölgun á þess háttar vígslum hefur orðið á tímabilinu eftir 1950, og munu þær ástæður, eins og að ofan greinir, valda miklu rúman áratug. A þessum áratug eftir 1920 er jafnframt framhald á vígslum af hendi guðfræðideildarkennara og biskupa.

Sýnistalning hefur verið gerð af einu ári á síðastnefndu tímabili (1962) af Hagstofunni. Um þá talningu verður að hafa í huga fyrstnefndan fyrirvara um skráningu athugasemdar um vígslumann. Við þessa talningu kemur fram, að á því ári hafi á landinu verið 65 slíkar vígslur, þar af í Reykjavík 51. Hafa verður í huga, þegar bornar eru saman tölur frá þessu tímabili, að láta mun nærri, að tala hjónavígslna hafi þrefaldast frá 1920 til áranna um 1960.“

Hér lýkur tilvitnun í dóm Hæstaréttar.

Ég hef vitnað í þennan dóm vegna þess, að hér koma glögglega fram upplýsingar í málinu. Og þær staðfesta það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að það hefði tíðkazt um langan aldur, að prestar þjóðkirkjunnar, sem látið hafa af embætti, hafa framkvæmt hjónavígslur. Það kann að vera, að sumum þyki, að þetta séu nokkuð lágar tölur, en það er, eins og getið er um í bréfi dómsmrn., sem ég vitnaði í, ekki alltaf fært til bókar, ef uppgjafaprestur hefur framkvæmt þessa athöfn. En það þarf líka að athuga það, að þessi könnun, sem fram hefur farið, er ekki eins víðtæk og vera skyldi, og þetta dregur því ekki úr þeirri fullyrðingu minni, að þetta hafi mjög tíðkazt um langan aldur, að uppgjafaprestar hefðu þennan rétt.

En hver eru rökin fyrir því að afnema þennan rétt? Ég hef ekki heyrt þau rök, og ég heyrði þau ekki af munni hv. frsm. n. hér áðan. En það eru ýmis rök, sem hníga að því, að þessari venju sé haldið við. Það fer vel á því, að við leggjum okkur ekki fram um það að ryðja úr vegi gömlum og góðum siðum, sem hafa tíðkazt í þjóðfélagi okkar. Það þurfa ekki að vera rök fyrir því að afnema slíkt, þó að Svíar geri það, en það er vitnað í Svía í grg. með þessu frv. Ef við höfum góða reynslu í þessum efnum, eigum við að taka mið af henni, en engri erlendri reynslu, sem reyndar liggur ekki fyrir í þessu máli. Hvaða samræmi er í því að leyfa prestum og forstöðumönnum ýmissa trúfélaga, sem fjöldi er af í þessu landi núna, að framkvæma þessa athöfn — mér liggur við að segja að leyfa Pétri og Páli þetta oft og tíðum, og ríkisvaldið hefur enga umsjón með því, hvaða menn þetta eru — en neita mönnum, sem hafa verið sína starfsævi embættismenn ríkisins og eru þaulvanir, að framkvæma þessa athöfn? Ef frv. væri samþ. óbreytt, er um slíkt ósamræmi að ræða, að það á ekki að líðast. Það segja sumir, að þetta sé ekki viðurkvæmilegt vegna þess, að mennirnir séu ekki lengur embættismenn. En svo er líka um forstöðumenn og presta sértrúarsafnaða.

Er ekki aðalatriðið, að þessir menn séu færir um að framkvæma verkið?

Það hefur verið venja um langan aldur, að menn hafa haft heimild til að gera og vinna ýmis hin þýðingarmestu störf í umboði annarra. Þannig hefur það verið fram að þessu, að fulltrúar dómara hafa haft heimild til þess að kveða upp dóm. Þeir hafa haft heimild til þess að annast málsrannsóknir. Mönnum, sem eru nýkomnir út úr skóla frá prófborðinu, er treyst til þess að vinna svo þýðingarmikil störf sem þessi, en mönnum, sem eru búnir að vera alla starfsævina í embætti, er ekki treyst til að annast hjónavígslu. Sjá allir, hvílíkt ósamræmi er í þessu efni. Ég hef heyrt því haldið fram, að það væri ekki vogandi að leyfa uppgjafaprestum að framkvæma þessa athöfn vegna þess, að það gæti verið, að þeim væri farið að förlast — ýmsir hæfileikar, sem þyrftu að vera í góðu lagi, til að þeir gætu framkvæmt þetta, farnir að gefa sig, og þeir kannske orðnir elliærir. Það getur nú alltaf skort á hjá embættismönnum í þessu efni, jafnvel þótt þeir séu fyrir innan embættistakmörk, eins og ákveðið er í l. um aldur embættismanna. Þetta hefur engin úrslitaáhrif í þessu máli. En það verður líka að hafa í huga, að eins og till. mín er orðuð er gert ráð fyrir því, að prestur, sem látið hefur af embætti, framkvæmi hjónavígslu í umboði viðkomandi sóknarprests. Ég fæ nú ekki séð, að það þurfi þá að vantreysta svo starfandi sóknarpresti, að það sé honum eigi heimilt að veita uppgjafapresti heimild til þess að vinna þetta starf í sínu umboði.

Það er sama, hvernig við veltum þessu fyrir okkur. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að falla frá þeirri venju og þeim venjuhelgaða íslenzka rétti, eins og Hæstiréttur orðaði það, sem hér hefur gilt. Ég hef hér talað frá skynsemissjónarmiði. En hér er um einstakan verknað að ræða, þar sem er stofnun hjónabands. Þar koma ýmis önnur sjónarmið til greina, og þar á ég við tilfinningaleg sjónarmið. Hjónaefnin vilja gjarnan geta á þessari stund, þessari mikilvægu stund í lífi þeirra; snúið sér til prests, sem hefur kannske skírt þau og fermt. Þeim er það hjartans mál til að undirstrika helgi athafnarinnar að fá þann mann, sem þau helzt kjósa, til þess að vígja sig. Er það ekki orðin nokkur afskiptasemi af hálfu ríkisvaldsins, ef það ætlar að ástæðulausu og ósekju að hindra íslenzka borgara í jafnsjálfsögðum hlut sem þessum? Ég held, að allir sanngjarnir menn sjái, að það er ekki rétt að samþykkja frv. eins og það er. Hv. frsm. n. sagði, að n. hefðu borizt umsagnir og ein umsögnin var frá Kvenréttindafélagi Íslands. Hvað sagði Kvenréttindafélag Íslands? Það mælti gegn frv. í þessu efni. Konurnar skilja þetta. Og ég segi: Er það ofverk fyrir okkur karlmennina, sem gerum svo margt fyrir konurnar, að taka tillit til þessarar ábendingar frá Kvenréttindafélagi Íslands? Ég treysti því, að hv. þm. geri það og till. mín verði samþ.