15.05.1972
Neðri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er ánægjulegt hlutverk að fá það verkefni að færa hæstv. ríkisstj. sérstakar þakkir fyrir vandað og stórmerkilegt frv., sem nú liggur hér fyrir til afgreiðslu. Frv. til l. um stofnun og slit hjúskapar er unnið í samstarfi við norrænar hjúskaparlaganefndir, og hefur sú samvinna á ýmsum sviðum sifjaréttar staðið um árabil. Í íslenzku sifjalaganefndinni hafa setið prófessor Ármann Snævarr, fyrrv. háskólarektor, sem var formaður n., frú Auður Auðuns, fyrrv. dómsmrh., og Baldur Möller ráðuneytisstjóri.

Frv. þetta er mjög vel unnið tæknilega séð, eins og vænta má, og felur í sér ýmis nýmæli. Ég vil aðeins geta þeirra helztu, vegna þess að fyrir frv. var ekki mælt við 1. umr. þess hér í hv. d. Helztu nýmæli frv. eru fólgin í því, að niður er felldur úr núgildandi l. frá því, sem nú gildir um stofnun og slit hjúskapar, kaflinn um festar, hann þykir ekki hafa raunhæft gildi. Þegar um það er að ræða, að fólk vilji fara í mál vegna bóta fyrir skaða, sem hefur orðið af völdum festarslita, þá má venjulega ná þeim rétti eftir almennum reglum og þykir ekki ástæða til að hafa sérstakan kafla í hjúskaparlögum um það efni.

Gerðar eru allvíðtækar breytingar á reglum þeim, sem gilda um hjónavígsluskilyrði. Það er fyrst og fremst um það að ræða, að hjónavígslualdurinn verður, ef þetta frv. verður að l., hinn sami fyrir bæði kyn, þ. e. 18 ár. N. öll varð sammála um þessa breyt. sem og önnur atriði í frv. Þetta horfir til skilnings og viðurkenningar á ýmsum nútímasjónarmiðum, og get ég ekki séð, að ástæða sé til, að annar aldur gildi sem skilyrði til inngöngu í hjúskap fyrir karla en konur. Eftir sem áður verður áskilið samþykki foreldra eða forráðamanna, ef hjónaefni eru innan við 20 ára aldur, og það er óbreytt frá því, sem nú er.

Í þessu frv. er kveðið svo á, að ýmiss konar hjúskapartálmar, sem áður voru í l., verði hér eftir undanþægir. Geri ég ráð fyrir, að menn hafi í huga, að hið raunverulega líf felur í sér ýmis tilbrigði, sem e. t. v. er ekki alltaf hægt að sjá fyrir við lagasetningu, og varasamt getur verið að hafa slík bönn, sem þar er um að ræða, algerlega afdráttarlaus. Það gildir um t. d., að nú er lagt til, að bann við hjónavígslu geðveikra manna eða hálfvita verði undanþægt, en ekki afdráttarlaust, eins og áður var. Ég get ekki séð annað en í þessu felist mikil mannúðarstefna. Það er mjög varasamt að taka ákvörðun samkv. núgildandi hjúskaparlögum um, að bannað sé að vígja geðveikan mann, ef engar batahorfur eru fyrir hendi. Ég get ekki séð, að það sé mannúðlegt að leggja þá skyldu á lækni, að hann lýsi því yfir, að ekki sé hægt að lækna sjúkan mann og hann verði því að taka á sig þessa afdrifaríku ákvörðun. Þegar um sjúkleika er að ræða, þurfum við alltaf leyfi til þess að halda í einhverja von, og ef það getur að einhverju leyti stuðlað að hamingju þess ógæfusama fólks, sem á hér í hlut, að leyfa því að ganga í hjúskap, þá get ég ekki séð, að það sé nokkur ástæða til, að lög meini það.

Bann er einnig fellt niður við hjónavígslu þeirra, sem haldnir eru holdsveiki, sóttnæmum kynsjúkdómum, smitandi berklaveiki og flogaveiki. Bann þetta er fellt niður fyrst og fremst með það í huga, að framfarir á sviði læknisfræði hafa verið svo örar, að nú búa menn yfir betri læknisráðum gegn þessum sjúkdómum. Nú er gert ráð fyrir, að undanþægt sé bann við því, að hjúskaparaðilar tengdir í beinan legg gangi í hjúskap. Þegar um það er að ræða, að hjónaefni séu e. t. v. þannig tengd, að annað hjónaefni er e. t. v. dóttir eða dótturdóttir konu, sem maður hefur misst, þá var ekki heimilt að stofna til slíks hjúskapar áður, en eftir samþykkt þessara l. verður hægt að fá undanþágu í slíkum tilvikum, ef ástæða þykir til. Þá er fellt niður bann gegn hjónavígslu konu, sem gift hefur verið áður, næstu 10 mánuði eftir hjúskaparslit, en þetta hefur einnig verið gert annars staðar á Norðurlöndum, og raunar eru þessar breytingar í samræmi við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á sams konar l. annars staðar á Norðurlöndum. Þetta eru helztu breytingar á þeim reglum, sem gilda um hjónavígsluskilyrði.

Þá felur þetta frv. í sér fleiri breytingar, t. d. að felldur er úr lögunum kafli um lýsingarreglur. Ég verð að segja, að ég sakna þeirra reglna á vissan hátt. Mér þótti svo einstaklega skemmtilegt að sjá — þá sjaldan það skeði, að hjónaefni létu lýsa með sér, — þegar auglýst var eftir fólki á dyrum Dómkirkjunnar, sem kynni að vita meinbugi á fyrirhuguðum ráðahag, en það hefur komið í ljós, að það var aðeins ein stétt manna, sem notfærði sér þessa heimild í l., og það voru laganemar. Það þykir ekki ástæða til að hafa þessa sérstöku reglu gildandi aðeins fyrir þá til að nota að gamni sínu, og því er þessi kafli niður felldur úr núgildandi l. sem ástæðulaus vegna þess, að hans sé ekki þörf.

Þá eru gerðar nokkrar breytingar, að því er varðar hjónavígslumenn. Í frv. var lagt til, að prestar, sem látið höfðu af embætti, hefðu ekki rétt til að vígja hjónaefni, en sú breyting var gerð í hv. Ed., að þjóðkirkjuprestum, sem látið hafa af prestsembætti, yrði heimilt að framkvæma hjónavígslu í umboði viðkomandi sóknarprests þjóðkirkjunnar. í Nd. sáum við ekki ástæðu til að gera till. til breytingar á þessari samþykkt Ed.

Þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á kaflanum um ógildingu hjúskapar. Þessi ákvæði breytast til samræmis við þá mildun hjónavígslutálma, sem þetta frv. felur í sér, en á það má benda í þessu sambandi, að það mun enginn hjúskapur hafa verið ógiltur á Íslandi, síðan l. um stofnun og slit hjúskapar tóku gildi árið 1921, svo að það er vandséð, hvort þessi kafli hefur raunverulegt gildi nema þá e. t. v. til varnaðar, og því þykir rétt að láta hann standa.

Að því er varðar hjónaskilnaði hafa verið gerðar nokkrar veigamiklar breytingar. Í fyrsta lagi er tíminn sem líður frá því, að skilnaður er veittur að borði og sæng og þar til lögskilnaður er fenginn, ávallt eitt ár samkv. frv., en ekki eins og nú et ýmist eitt ár eða tvö. Sú núgildandi regla hefur þótt valda ruglingi hjá fólki, og engin ástæða er til annars en ætla, að eftir eitt ár hafi fólk komizt að endanlegri niðurstöðu um það, hvort það vill æskja lögskilnaðar eða ekki. Hins vegar hefur aftur á móti verið örlítið þrengd leiðin til að ná lögskilnaði strax frá því, sem nú er, með því að niður er felld sú regla, að hjúskaparbrot feli fortakslaust í sér ástæðu til lögskilnaðar. Það þykir einnig rétt í þeim tilvikum að láta fólk hafa þennan eins árs umþóttunartíma, eins og þegar öðruvísi stendur á. Á það má benda, að þessi biðtími er mjög þýðingarmikill, því að það hefur víða komið í ljós, að fjöldi hjónabanda, sem hefur verið slitið með skilnaði að borði og sæng, enda yfirleitt ekki á þann veg, að þeim verði svo slitið með lögskilnaði, því að ef hjón hafa skilið að borði og sæng, þarf ekki annað en taka sambúð upp að nýju, þá heldur hjúskapurinn áfram, eins og ekkert hafi í skorizt. Í Danmörku mun þetta hafa átt við 15% af þeim hjónaböndum, sem lokið hafði í bili með hjónaskilnaði að borði og sæng.

Þá má geta þess, að lögð er meiri áherzla á ákvæði um sáttaumleitanir fyrir skilnað, og loks er nokkuð breytt ákvæðum um það, að sök á skilnaði geti nokkru ráðið um það, hvernig mál skipast varðandi forræði yfir börnum. Menn hafa sem sé viðurkennt það, að sök í þessum málum er vandmetin, og sjaldan veldur einn, þegar tveir deila, og fyrst og fremst er það hagur barnsins, sem er látinn ráða í þeim tilvikum, sem þarna er um að ræða, en ekki það, hvernig hjónunum innbyrðis hefur komið saman. Raunar er það svo, að þess hefur mjög lítið gætt í framkvæmd hjúskaparlaga hér á landi, að tillit væri tekið til sakar varðandi þetta efni.

Loks vil ég geta um eitt atriði, sem ég tel raunverulega vera mikilvægasta atriði þessa frv., og það eru skýrari reglur um umgengnisrétt fráskilins foreldris við barn sitt, ef það foreldri hefur ekki fengið umráðarétt yfir barninu. Í gildandi l. skortir með öllu ákvæði um þetta efni, og það er mjög brýn þörf á ákvæðum um þetta. Það hefur valdið ósegjanlegum erfiðleikum — og ég vil segja böli — fyrir sum börn, að lagaákvæði hefur skort um þetta efni. Oft verður að vísu framkvæmd á þeim erfið, en skýr lagaákvæði um þetta veita foreldrum vissulega aðhald, sem full þörf er á.

Ég hygg, að ekki sé frekari ástæða til að hafa fleiri orð um þetta viðamikla frv. Það eru mjög mörg atriði í þessu, sem er fróðlegt að athuga. Grg. skýrir það mikið, og ég vil eindregið ráðleggja þeim hv. þdm., sem ekki hafa lesið hana gaumgæfilega, að gera það. Og síðan ítreka ég það, að sú n., sem fékk þetta mál til meðferðar í Nd., var raunar heilbr.- og félmn. Það mun vera venja, að allshn. fái mál af þessu tagi til meðferðar, en ég hygg, að það hefði engu breytt. Fyrir liggja miklar athuganir og umsagnir um þetta mál, og allt þetta höfum við athugað og erum öll sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt.