19.10.1971
Neðri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

3. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl., sem útgefin voru af núv. ríkisstj., og fjallar það um breyt. á l. frá 31. des. 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu og um hækkun á aflahlut og breytt fiskverð. Meginefni þessa frv. er það að breyta ákvæðum l. frá því í desember 1968, þar sem ákveðnar voru sérstakar reglur varðandi skiptakjör sjómanna. En í 3. gr. l. frá 31. des. 1968 var ákvæði, sem fól það í sér, að áður en aflahlutur sjómanna væri reiknaður út samkv. gildandi kjarasamningum, þá skyldi m. a. taka sem næmi 11% af brúttósöluverði aflans og afhenda útgerðarfélagi eða útgerðarmanni þá upphæð, áður en skiptahlutur væri ákveðinn. Það er vel kunnugt, að um þetta atriði hafa verið þrálátar deilur á milli fulltrúa sjómanna annars vegar og fulltrúa útvegsmanna hins vegar, síðan þessi lagaákvæði voru sett. Vinnudeilur hafa risið út af þessu ákvæði, og samtök sjómanna hafa hvað eftir annað krafizt þess, að þessum ákvæðum yrði breytt.

Nú var það í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að nauðsyn bæri til þess að hækka kaup sjómanna. Til þess að efna þetta loforð ákvað ríkisstj. strax á sínum fyrstu starfsdögum að gera ráðstafanir til þess, að aflahlutur sjómanna gæti hækkað í flestum tilvikum um 18–19%. Það var gert með þeim hætti fyrst og fremst að breyta þessu lagaákvæði, sem hér hefur verið vitnað til, en samkv. því hækkaði aflahlutur sjómanna yfirleitt um 11%. Í öðru lagi voru svo gerðar ráðstafanir til þess, að greiðslum af söluverði útfluttra fiskafurða í Verðjöfnunarsjóð væri breytt frá því, sem áður hafði verið, þannig að hægt var að hækka fiskverð til viðbótar við þessi 11% gagnvart sjómönnum um um það bil 7.5%, en sú verðlagshækkun náði að sjálfsögðu einnig til útgerðarinnar. Um leið og fyrra atriðið var framkvæmt, þ. e. að breyta l. frá því í desember 1968, þá var að sjálfsögðu raskað skiptahlutföllunum á milli sjómanna og útgerðarmanna, og hefði ekki komið fleira til, hefði hlutur útgerðarinnar versnað frá því, sem áður var. En vegna þess að jafnframt var reglunum um greiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins breytt á þann hátt, sem ég lýsti, þ. e. gerðar voru ráðstafanir til þess að hægt væri að hækka fiskverð um 7.5% eða þar um bil, þá var talið samkv. útreikningum Efnahagsstofnunarinnar, að hlutur útgerðarinnar væri, eftir þessa breytingu nokkurn veginn jafn því, sem hann hafði verið áður. En útkoman úr þessum breytingum báðum varð sem sé sú, að aflahlutur sjómanna hækkaði um 18–19%, en sá hlutur, sem féll til útgerðarinnar sjálfrar, var nokkurn veginn óbreyttur frá því, sem verið hafði, og þessar ráðstafanir voru gerðar, eftir að samráð hafði verið haft við helztu hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna, og ég ætla, að nú séu flestir sammála um, að það hafi verið nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana, sem ákveðnar voru með brbl. og nú er leitað eftir staðfestingu á hér með þessu frv.

Nokkrar umr. urðu á sínum tíma um þessa ráðstöfun að því leyti, sem hún snerti reglurnar um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Því var nokkuð haldið fram af ýmsum aðilum, að hér væri verið að minnka greiðslur til Verðjöfnunarsjóðsins og á þann hátt væri verið að veikja ákveðið tryggingakerfi útgerðarinnar í landinu. Þessi fullyrðing er í rauninni byggð á misskilningi. Hið rétta er það, að hvað eftir annað hefur þurft að taka til endurskoðunar þau ákvæði, sem gilt hafa um greiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þannig voru þær reglur t. d. endurskoðaðar um s. l. áramót, þegar gerð var allveruleg breyting á fiskverðinu. Þessar reglur hafa jafnan verið endurskoðaðar með það í huga, hvað rétt væri að taka af útflutningsverðinu mikla upphæð hverju sinni, leggja til hliðar og geyma í Verðjöfnunarsjóði og hve mikið ætti þá að vera eftir af sjálfu útflutningsverðinu, sem kæmi til eðlilegra skipta á milli sjómanna og útgerðarmanna og fiskiðnaðarins í landinu. Í rauninni var það svo, að þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið um greiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn, áður en núv. ríkisstj. tók við, höfðu ekki reynzt réttar, vegna þess að verð á erlendum markaði hafði hækkað allmiklu meira en gert hafði verið ráð fyrir í útreikningum. Það var því hægt að gera þá ráðstöfun, sem gerð var, án þess að í krónum minnkaði það framlag, sem áætlað hafði verið, að ætti að renna í Verðjöfnunarsjóð, þótt hundraðshlutinn af útflutningsverði afurðanna hefði að sjálfsögðu breytzt frá því, sem áður var. Þrátt fyrir þessa ráðstöfun er það sem sé enn í gildi, að allverulegur hluti af því verði, sem fæst fyrir útfluttar sjávarafurðir og þá einkum frosnar afurðir, rennur enn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og hann kemur til með að eflast á þessu ári mjög verulega þrátt fyrir þessa ráðstöfun, sem gerð var í þessu tilfelli. Það er að sjálfsögðu alltaf nokkurt efamál, hve mikla fjárhæð er rétt að taka af útflutningsverði vöru og leggja það til hliðar, en láta það ekki fara til þeirra aðila, sem raunverulega eiga þetta verð, vegna þess að í slíkum ráðstöfunum geta verið fólgnar verulegar hættur vegna misræmis á verðlagi. Þannig var þetta tvímælalaust orðið hjá okkur í þessu tilfelli. Það er enginn vafi á því, að þær reglur, sem giltu hjá okkur um greiðslur í Verðjöfnunarsjóð, voru þannig, að fiskverð hér innanlands var orðið óeðlilega lágt í samanburði við það, sem fiskverð er víða í löndum í kringum okkur. Af þeim ástæðum var það, að framleiðendur hér innanlands sóttu orðið mjög í það að fá að flytja fiskinn úr landi óunninn til þess að ná þar í hið háa verð, sem ekki þurfti að taka neitt af í þennan svonefnda Verðjöfnunarsjóð. En vitanlega hefur það aldrei verið tilgangurinn að skapa slíkt misræmi í fiskverði innanlands og í nálægum löndum, að það leiddi til þess, að fiskurinn yrði fremur fluttur út óunninn til þess að fá þar fullnaðarverð fyrir fiskinn en hann yrði unninn í landinu og aukinn þar í verði, eins og eðlilega verður með vinnslunni í landinu sjálfu.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar í sjálfu sér ekki um þessa breytingu, sem ég hef gert hér aðallega að umtalsefni, þ. e. breytinguna á reglunum um Verðjöfnunarsjóð, heldur fjallar frv. eingöngu um breytinguna á ákvæðunum, sem í gildi hafa verið varðandi skiptinguna á aflahlutnum á milli sjómanna og útgerðarmanna. En af því að þessi mál voru þannig samhnýtt, þá hefur mér þótt ástæða til þess að gera hér grein fyrir þeim báðum í einu.

Mér er það fyllilega ljóst, að það er enn þörf á því að taka gildandi ákvæði um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins til rækilegrar athugunar og það hlýtur í rauninni að verða gert fyrir næstu áramót, þegar tekin verður ákvörðun að nýju um fiskverð og það, hvort áfram á að halda jafnmiklum fjárgreiðslum í þennan verðjöfnunarsjóð og nú er gert eða hvort á að draga nokkuð úr þeim og hækka þá um leið fiskverðið í landinu og koma þar á eðlilegra samræmi en enn er milli fiskverðsins innanlands og fiskverðs hér í nálægum löndum.

Ég tel rétt, að sjútvn. þessarar d. fjalli um þetta frv., og legg því til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.