19.10.1971
Neðri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

3. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég er næstum undrandi á því, að hv. 2. þm. Vestf. skuli halda ræðu á þá lund, sem hann gerði hér nú. En svona er það. Menn geta stundum þurft að stíga nokkuð þungt til jarðar til þess að halda taktinum við hina, sem búnir eru að segja of mikið og miklu meira um þetta mál en þeir vita þó, að er rétt. Ég veit það, að hv. 2. þm. Vestf. á að vita miklu betur í þessu máli. Þegar hann ræðir hér um það, að í þessu tilfelli hefði ríkisstj. átt að láta sér nægja að veita sjómönnum nokkur fríðindi í skattamálum, þá veit hann það mætavel, að það gat ekki leyst þann vanda, sem við var að glíma vegna kjara sjómanna í landinu. Hann hlýtur að vita það, að í okkar stærstu verstöðvum hafði meiri hluti sjómannanna komið þannig frá borði á s. l. vertíð, að þeir yrðu að búa við lágmarkskauptryggingu, og það var vitanlega allsendis ófullnægjandi að bjóða þessum mönnum, sem þannig stóð á fyrir með tekjur, upp á það, að þeir skyldu fá nokkur skattfríðindi. Sannleikurinn er sá, að mikill hluti af þessum mönnum borgaði tiltölulega lítið í tekjuskatt, en við erum einmitt sammála um það, að það eru ekki tök á því nema með allmiklum öðrum tilfærslum að veita sérstaka ívilnun á útsvari vegna þess, hvernig það kemur út, m. a. fyrir útgerðarbæina í landinu.

Nei. Hér stóðum við frammi fyrir því, að sjómenn okkar höfðu mjög skertan hlut í kaupgjaldsmálum, og það var mjög farið að bera á því víða í verstöðvum landsins, að sjómenn gengu í land og leituðu annarrar vinnu, af því að þeir höfðu þar meira upp úr sér. Í einni stærstu verstöðinni í landinu sögðu útgerðarmenn beinlínis við mig, að það væri farið að bera á því, að þeir yrðu að yfirborga menn til þess að halda þeim hjá sér á bátunum. Hér var um það að ræða, að það þurfti að bæta launakjör sjómanna með einum eða öðrum hætti. Sú leið að ætla að gera það með auknum skattfrádrætti var allsendis ófullnægjandi. Ég álít fyrir mitt leyti, að það komi vel til mála enn að bæta kjör sjómanna eftir þeirri leið, af því að ég álít, að það hallist enn verulega á um launakjör sjómanna og margra annarra vinnandi stétta í landinu. Það er mín skoðun nú, að einn mesti vandinn, sem við eigum við að glíma, sé einmitt manneklan við sjóinn — sá mikli vandi að fá fólk til þess að starfa að undirstöðuframleiðslu okkar.

Og það er alveg furðulegt, þegar þm., sem er eins nákunnugur sjávarútvegsmálum og hv. 2. þm. Vestf., talar um það hér æ ofan í æ, að þessar ráðstafanir, þ. e. að hækka laun sjómanna um 18–19% sem auðvitað nær þó ekki yfir alla sjómenn, hafi ýtt undir verðbólgu í landinu. Verðbólgan er ill. Menn standa á móti henni, og þess vegna hefði auðvitað þurft að standa á móti hækkun á launum sjómanna til þess að vera ekki með verðbólgunni. Hér er auðvitað um mestu fjarstæðu að ræða. Auðvitað þurfti það ekki að hafa nein sérstök áhrif almennt séð á verðlag hér í landinu, þó að launakjör sjómanna, sem höfðu greinilega dregizt aftur úr, væru bætt, og hefur ekki heldur gert það. Það vissu allir, sem eitthvað vildu vita í launa- og kjaramálum í landinu, að það höfðu orðið stórkostlegar launabreytingar í landinu áður hjá fjölmennum vinnustéttum, og það vissu einnig allir, að það stóð til, að fulltrúar verkamanna krefðust fyrir þeirra hönd verulegra launabóta til samræmis við það, sem orðið var í landinu. Þeir höfðu lausa samninga frá 1. okt., en sjómenn voru hins vegar yfirleitt samningsbundnir til áramóta. Það var því alls ekki þannig, eins og hv. þm. sagði hér, að ríkisstj. hefði hlaupið til að ástæðulausu, þar sem allir samningar hafi verið lausir. Sjómenn voru bundnir af samningum til næstu áramóta, og ef ekkert hefði verið gert, hefði sú óheillaþróun haldið hér áfram, að fleiri og fleiri sjómenn hefðu farið í land og leitað sér annarrar vinnu og framleiðslan í landinu hefði orðið minni. Og það var verið að koma í veg fyrir slíka óheillaþróun.

Ég vil líka segja það, að það bar að mínum dómi mjög vott um það, hve hv. þm. voru mislagðar hendur í þessum málflutningi sínum, þegar hann vék að því, að hann vildi gera tortryggilegar þessar launabætur til sjómanna, þar sem fiskverð er almennt hækkað, með því að segja: Hverjir fá aðallega þessa launahækkun? Það eru þeir, sem fiska mest. Það eru þeir, sem eru yfirmenn á skipunum, þeir fá auðvitað mest, en sjálfur boðar hann ákveðin skattfríðindi til sjómanna. Heldur hann kannske, að þeir yrðu aðnjótandi mestra skattfríðinda, sem hafa hæstu tekjurnar, eða heldur hann, að skattfríðindin mundu aðallega lenda hjá hinum, sem hafa lægstu tekjurnar? Nei, auðvitað er þessu ekki svona farið. Sannleikurinn er sá, að 18–19% hækkun á venjulegum aflahlut er umtalsverð launahækkun til sjómannastéttarinnar almennt séð. Það er auðvitað alveg rétt, að launakjörin eru byggð upp með þeim hætti, að hækki fiskverð, þá fá þeir mestan hlut, sem mest afla og eru ráðnir með þeim kjörum, að þeir eru með einfaldan hlut. En það lá vitanlega ekki fyrir, að ríkisstj. væri að hlutast til um neitt af slíku tagi.

Þegar hv. 2. þm. Vestf. víkur hér aðl., sem hann sér mjög eftir, að gerð er breyting á, þessum margumtöluðu deiluákvæðum l. frá 1968, þá talar hann mikið um það, að þessi l. hafi verið alveg nauðsynleg, það hafi verið nauðsynlegt að hafa áhrif á hlutaskiptakjörin á þennan hátt vegna hinna miklu áfalla, sem við urðum fyrir á árunum 1967 og 1968. Mér dettur ekki til hugar að neita því, að þá stóðum við frammi fyrir miklum vanda. Það hef ég margendurtekið sem mína skoðun hér á Alþ. Við þurftum að sjálfsögðu að grípa þá til mjög róttækra ráðstafana. En ég hef bent á það og bendi á það enn, að þeir menn í landinu, sem þá urðu harðast úti vegna þess, að síldaraflinn brást, hvarf á stuttum tíma svo að segja alveg, voru þeir, sem tóku laun sín sem aflahlut, m. a. úr síldveiðiaflanum, sem hvarf. Þeir misstu svo miklar tekjur, að þær lækkuðu um meira en helming. Engin önnur launastétt í landinu varð fyrir slíku áfalli engin. Það var því full ástæða til þess að gera þær efnahagsráðstafanir, sem þá voru gerðar, með þeim hætti, að það væri ekki verið að veitast að þessum mönnum sérstaklega, en það var gert með þessum ákvæðum alveg tvímælalaust. Og það er svo enn þá furðulegra, að þeir, sem rökstyðja sitt mál með því, að l. frá 1968 hafi verið nauðsynleg vegna áfallanna, skuli þráhalda í þessi ákvæði, þegar áföllin hafa gengið yfir og nýtt ástand hefur skapazt. Nei, í þessum efnum áttum við auðvitað að vera raunsæir. Við áttum tvímælalaust að hækka launahlut sjómanna. Það var þjóðinni allri nauðsynlegt, og þegar við gátum gert það með þeim hætti, að við þurftum ekki að gera hlut útgerðarinnar í landinu almennt séð verri en hann var, þá var sjálfsagt að velja þá leið, því að það er mín skoðun, að það sé alveg grundvallaratriði að tryggja það, að sá atvinnurekstur, útgerðin í landinu, sem flest annað verður að byggja á að meira eða minna leyti, sé rekinn með þeim hætti, að reksturinn sé sæmilega tryggur. Ég held, að undan þeirri ráðstöfun að hækka laun sjómanna hafi ekki verið hægt að víkjast.

Ég neita því algerlega, að þessi hækkun á hlut sjómannanna sé einhver orsök til þess, að annað kaup í landinu kunni að verða hækkað. Hver er sá, sem heldur því fram, að laun verkamanna hefðu ekki hækkað eitthvað nú 1. okt., þó að fiskverðið hefði ekki hækkað neitt í sumar? Er virkilega einhver, sem býst við því, að hér hefði staðið óbreytt kaup hjá öllum þeim launastéttum, sem nú hafa sagt upp kaupgjaldssamningum sínum, eftir allt það, sem gerzt hafði almennt í launamálum í landinu? Ég held, að sá maður sé varla til. Nei, ég veit, að það, sem hér er á ferðinni, er þvermóðska nokkurra aðila, og því miður eru þeir í stjórn L. Í. Ú. og haldnir þeirri þrákelkni, að þeir segja: Þangað til allt keyrir um þverbak í stórátökum eins og þeir hafa þurft að standa frammi fyrir stundum, halda þeir í ákveðin atriði í kjarasamningum og eru jafnvel tilbúnir að fara út í löng verkföll að ástæðulausu til þess að deila um slík atriði. Það, sem ég tel að skipti máli fyrir útgerðina í landinu, er að tryggja henni rekstrargrundvöll. Hún þarf að hafa ákveðna útkomu úr sínum rekstri. Það hefur verið séð um það, að sá rekstrargrundvöllur, sem hún samdi um sjálf og stjórnarmennirnir í L. Í. Ú. héldu fram, að væri nú betri en hann hefði nokkurn tíma áður verið, skyldi haldast óbreyttur, þó að laun sjómannanna væru hækkuð. Ef menn hefðu valið aðra leið og hækkað laun sjómannanna með einhverjum öðrum hætti, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að áfram hefði haldið gamla baráttumálið um það að breyta þessum lagaákvæðum, og ef þingið hefði ekki breytt þeim, hefði þeim ákvæðum verið breytt eftir langvinn og kostnaðarsöm verkföll. Það var ekki hyggilegt.

Ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Vestf. minntist að sjálfsögðu á það, að stjórn L. Í. Ú. hefði haft þessa skoðun og reyndi að halda henni nokkuð fram við útvegsmenn. Það er rétt líka, sem hann minntist síðan á, að ég hefði farið á allmarga fundi og hefði ætlað að fara á fleiri. Það er alveg rétt. Mig langaði t. d. sérstaklega til þess að komast í hans kjördæmi, og ég á kannske eftir að gera það. Ég hef kannske dregið eitthvað af mér í þessum efnum, þegar ég fann það, að útvegsmenn voru, þegar farið var að ræða þessi mál við þá, allir á annarri skoðun en stjórn L. Í. Ú. Þeir voru nálega allir á annarri skoðun, þeir voru á sömu skoðun og ég og töldu, að þessi ráðstöfun væri rétt og hún væri þeim sjálfum gagnleg. Og undarlegt þykir mér það, ef hv. 2. þm. Vestf. hefði verið í mínum sporum og hefði ekki bara af raunhyggju gripið til sömu ráðstafana. En ég held, að hann ætti að láta sér þetta að kenningu verða og fara fremur í þessum efnum eftir sínu eigin hyggjuviti en elta þann áróður, sem flokkur hans og blað hafa uppi svona stundum að lítt athuguðu máli í málaflokkum, sem þeir þekkja miklu minna til en hann. Nei, það er alveg ábyggilegt, að af þeirri hækkun á fiskverðinu, sem ákveðin var í sumar, leiðir enga sérstaka verðbólgu hér á Íslandi. Hún miðar að því að tryggja okkur það vinnuafl, sem við þurftum að tryggja okkur.

Aðeins eitt atriði langar mig til, að komi hér fram að lokum í sambandi við Verðjöfnunarsjóðinn, sem mér sýndist á því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér, að okkur greindi ekki svo mikið á um. Þó virtist hann eitthvað efast um, að þessi ráðstöfun væri að öllu leyti rétt, og því vil ég geta þess, að samkvæmt útreikningum Efnahagsstofnunarinnar var gert ráð fyrir því í júní-mánuði í sumar, að til langsamlega stærstu deildarinnar, sem er í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, þ. e. hraðfrystideildarinnar rynnu samkvæmt þeim reglum, sem þá giltu, 391 millj. kr. á þessu ári til viðbótar því, sem til deildarinnar var komið áður. En vegna verðbreytinga, sem orðið höfðu fram að þeim tíma, sem þessar ráðstafanir voru gerðar, sem ég stóð að, taldi Efnahagsstofnunin, að sennilegra væri, að til hraðfrystideildarinnar rynnu ekki 391 millj. kr., heldur 520 millj. kr., og að loknum þeim ráðstöfunum, sem ég stóð að, að gerðar voru, taldi hún, að áfram mundu renna til þessarar deildar 326 millj. kr., en gamla áætlunin hafði verið upp á 391 millj. kr. Það er því alveg augljóst, að það er svo fjarri lagi, að hér hafi verið gerðar ráðstafanir, sem miðuðu að því að skerða þennan sjóð. Allt, sem komið var í sjóðinn, átti að vera í honum áfram, og miklar greiðslur áttu að halda áfram og halda enn áfram að renna í þennan sjóð. En það er rétt, að það voru gerðar ráðstafanir til þess, að framlagið til hans yrði ekki eins mikið og eldri reglur gerðu ráð fyrir, en þær eldri reglur miðuðu að því að halda niðri fiskverði hér á landi í algeru ósamræmi við það, sem var t. d. bæði í Bretlandi og Færeyjum, en þangað leituðu okkar bátar til þess að fá hærra verð.

Ég skal svo taka undir það með hv. 2. þm. Vestf., að það gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess að ræða þessi mál enn þá betur, þegar n. hefur fjallað um þau, en ég ítreka þá skoðun mína, að sú ráðstöfun, sem gerð var til þess að hækka launahlut sjómanna, var nauðsynleg, og ég álít, að það þurfi að gera viðbótarráðstafanir í ýmsum greinum til þess að bæta launakjör sjómanna. Mér var það ljóst, að þessar ráðstafanir náðu ekki til allra íslenzkra sjómanna. Þeir t. d., sem stunda veiðar á fjarlægum miðum og leggja afla sinn upp í Danmörku eða annars staðar, fengu hér enga kjarabót — enga, heldur aðeins hinir, sem leggja aflann upp hér heima. Í þeim miklu breytingum, sem hafa orðið á launamálum í landinu á undanförnu ári og alveg er fyrirsjáanlegt, að verða nú, þá tel ég, að það þurfi enn að endurskoða ýmislegt varðandi launakjör sjómanna, ef við ætlum að tryggja okkur það að hafa nægilega marga menn til þess að stunda sjávarútveg okkar og ef við ætlum okkur að fá full afköst í sjávarútvegi okkar. Það efast ég ekkert um, að um það atriði erum við a. m. k. fyllilega sammála, ég og hv. 2. þm. Vestf., að reyna að halda þannig á málinu, hvort sem við verðum fyllilega sammála um leiðir til þess að ná því marki eða ekki.