19.10.1971
Neðri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

3. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en vil aðeins segja út af ræðu hæstv. sjútvrh., að það er alveg rétt hjá honum, að við erum auðvitað um margt algerlega sammála. Við erum einnig sammála um það, að þó að einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar, sé alltaf eðlilegt, að þær séu endurskoðaðar og metnar, þ. e. hvort þær eigi að vera óbreyttar eða falla niður. En það, sem ég lít hvað alvarlegustum augum, er, að þegar útgerðin fékk þessi hlunnindi, sem við getum kallað svo, eftir gengisbreytinguna, og næst var samið við sjómenn — þá auðvitað á þeim grundvelli og með það í huga, að þetta höfðu útgerðarmenn fengið — þá var auðvitað gengið til móts við sjómenn á ýmsan annan hátt, ekki beint með hækkun á kaupi eða aflahlut eins og með lífeyrissjóðunum og öðru fleira, sem var mjög sjálfsögð og eðlileg leið, heldur var það einnig með hluta af fæði og annað þess háttar. Það, sem núna skiptir höfuðmáli, er það, að við erum alveg sammála um það, að við viljum hækka kaup og tekjur sjómannsins eða réttara sagt kaupmátt sjómannsins, og teljum, að það hafi verið tröppugangur á því í landinu. Ég skal fúslega játa það, að ég hef oft verið óánægður með það, sérstaklega eftir að tekið var upp víðast hvar bónuskerfi í frystihúsunum og störfin þar orðin langstærsti þátturinn í vinnslu sjávarafurða, að á vissum tímum var launabilið á milli sjómanna og þeirra, sem nutu þessa bónuskerfis í landi, orðið sjómönnum óhagstætt, sem er mjög óeðlilegt, því að þjóðfélag, sem byggir jafnmikið á sjávarútvegi og við, verður auðvitað að viðurkenna sérstöðu þessarar stéttar og sjá til þess, að hún beri meira úr býtum en þeir, sem í landi eru, undir flestum kringumstæðum til þess að laða menn til að stunda þessa atvinnu og til þess að tryggja eðlilegan rekstur sjávarútvegsins og bátanna.

Sjútvrh. sagði, að með hækkun fiskverðsins hefði ekki náðst til síldveiðiskipanna. En það hefði, að mér skildist á honum, verið komið að verulegu leyti í veg fyrir siglingar innlendra fiskiskipa með ísvarinn fisk á erlendan markað, en þessar siglingar standa nú með miklum blóma þrátt fyrir fiskverðshækkunina. Það er auðvitað óvenjuhátt verð á fiski í Bretlandi um þessar mundir, og þrátt fyrir fiskverðshækkunina siglir nú fjöldi íslenzkra fiskiskipa með afla sinn á brezkan markað.

Ráðh. sagði, að það hefði auðvitað legið á að hækka fiskverðið. Það lá auðvitað fyrir að hækka fiskverðið, þó að hækkunin yrði ekki í þessu formi, og það hefur legið á að gera það vegna þess, að menn voru að fara í land. Hann lýsti líka yfir, hve stór hluti flotans hefði ekki náð kauptryggingu á s. l. vetri. Hvers nutu þeir sjómenn með þessum ráðstöfunum hæstv. ráðh., ef þeir ekki höfðu náð kauptryggingu? Þeir, sem helzt þurftu á því að halda, nutu ekki nema kauptryggingar, þ. e. þeir, sem ekki hafa náð kauptryggingu eða a. m. k. ekki farið upp fyrir hana. Þeir hafa ekki fengið neitt, og það má segja, að þeir, sem voru rétt innan við markið, hafi kannske helzt náð markinu, en það eru enn þá margir, sem hafa ekki náð því. Það var ekki séð fyrir því. En hverjir njóta fyrst og fremst þessarar fiskverðshækkunar? Ráðh. sagði: Ég er sammála því, að þeir sjómenn, sem hæstar tekjur hafa og afla mest, fá auðvitað mest af þessum hækkunum. En hverjir fá svo líka stóran hluta af hækkununum? Ríkið og sveitarfélögin, sem taka yfirleitt af þessum mönnum, sem eru svona ofarlega í þrepum skattstigans, um 53% af þessari hækkun. Það var verið að velta þessu inn í verðlagið, og það var þetta, sem ég var að gagnrýna, en ekki það, að sjómennirnir fengju þessa hækkun. Ég tel, að það hefði verið miklu skynsamlegri leið að láta þetta ganga beint til þeirra manna, sem áttu að fá þessar úrbætur. — Það hefði komið þeim miklu betur, en okkur greinir á um það.

Við vitum það, að það eru margvíslegar hækkanir í þjóðfélaginu og hækkanir eru líka miklar vegna þess, að það er mikil spenna í þjóðfélaginu. Það var hægt að ráða við ýmsa útgjaldaliði atvinnuveganna, t. d. sjávarútvegsins, á meðan ekki var spenna í þjóðfélaginu. Það var hægt að fá tilboð í viðgerðir skipa, smærri viðgerðir og annað. Það er eiginlega að verða útilokað aftur nú, því að það bíða hundruð verkefna á hverjum stað, og nú er komið í sama farið og var fyrir 7–8 árum, að við ráðum ekki við þessa spennu. Hún er það mikil. Þetta hefur í för með sér geigvænlega hækkun rekstrarkostnaðar fyrir jafnmikil framleiðslutæki og bátarnir eru og fiskiðnaðurinn í landinu yfirleitt. Þetta hefur í för með sér, að rekstraraðstaða þessara atvinnutækja fer versnandi, og það stenzt engan veginn, sem hæstv. ráðh. fullyrti í sumar, rétt eftir að hann varð ráðh. og gaf þessi brbl. út, að rekstraraðstaða útgerðarinnar breyttist ekkert við þessa breytingu, sem gerð var með þessum brbl. Það er engan veginn rétt, og það munu þeir, sem honum tókst að sannfæra í sumar, verða jafnsannfærðir um og ég er í dag, að er ekki fyrir hendi. Það, sem er alvarlegast á hverjum tíma, ef atvinnufyrirtækin í landinu eru rekin með halla, er, að launþegarnir, hvorki sjómenn né verkamenn í landi, iðnaðarmenn eða aðrir, njóta ekki þess öryggis, sem þeir þurfa að njóta. Það er sameiginleg krafa, og það er sameiginlegt áhugamál allra landsins barna, að atvinnutækin séu rekin hallalaust og atvinnureksturinn sé öruggur. Það er langöruggasta leiðin fyrir launþega til þess að geta byggt á þessum atvinnutækjum og geta lifað góðu lífi. Þetta veit ég, að hæstv, ráðh. skilur mætavel. En það er bara þetta, sem hefur verið gengið fram hjá. Það hefur verið með þessu gengið hættulega mikið á hlut útgerðarinnar bæði af þessum ástæðum og eins hinum, sem ég nefndi hér áðan. Það hafa orðið óviðráðanlegar hækkanir á ýmsum rekstrarliðum útvegsins. Fram undan eru svo nýir kjarasamningar.

Mér fannst nú ástæðulaus kveðjan, sem hæstv. ráðh. sendi einstökum stjórnarmönnum í L. Í. Ú. Mér fannst hún svona heldur kuldaleg, því að þó að stjórnarmeðlimir í þeim samtökum séu ekki hæstv. ráðh. sammála um allt, þá eru þeir þó sammála honum um flest atriði miklu oftar en ekki, enda hlýtur það að fara saman að vinna að hagsmunamálum sjávarútvegsins, hvort sem menn gera það á vegum hagsmunasamtak,a, stjórnar L. Í. Ú. eða sem sjútvrh. Það er því ekki ástæða til, finnst mér, að senda svona heldur kaldar og skítlegar kveðjur, eins og hæstv. ráðh. varð á hér áðan.