14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

251. mál, getraunir

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta þessa umr. fara fram öðruvísi en kveðja mér hljóðs og lýsa yfir ánægju minni yfir, að þetta frv. er komið fram. Eins og hæstv. ráðh. getur um, þá er hér lagður traustur lagagrundvöllur að starfi, sem unnið hefur verið nú um nokkurt skeið — starf, sem hefur verið ómetanlegt fyrir íþróttahreyfinguna, og ef þetta frv. verður að l., sem ég vænti fastlega, þá er hér um merk tímamót að ræða fyrir þessa starfsemi, sem rekin er af hinni frjálsu íþróttahreyfingu.

Eins og fram kemur í grg. og tekið var fram af hæstv. ráðh., þá hafa verið gerðar hér tilraunir áður með getraunastarfsemi, en þær tilraunir fóru út um þúfur, vegna þess að þar var allt kerfið of viðamikið, of þungt í vöfum, náði ekki til almennings og höfðaði ekki til sjálfboðaliðsvinnu, sem er undirstaða allrar frjálsrar starfsemi á þessum vettvangi eins og reyndar víða annars staðar. Á árinu 1968 voru hins vegar hafnar að nýju tilraunir með getraunastarfsemi af hálfu einstakra félaga, og var sú starfsemi byggð upp nær eingöngu af sjálfboðaliðsstarfi félagsmanna hjá viðkomandi íþróttafélögum. Á örskömmum tíma eða nokkrum mánuðum var sala getraunaseðla komin upp í 2500, en þá held ég, að engan hafi órað fyrir, að þarna var verið að velta af stað víðtæku starfi, sem nú, eins og segir í grg., gefur af sér millj. kr., og alls er þann 1. jan. 1972 um að ræða heildarsölu að upphæð 70 millj. kr. Af þessum 70 millj. kr. höfðu þá komið 17.4 millj. kr. í hlut félaganna sjálfra. Þegar þarna var orðið um svo mikið fjárhagsmál og hagsmunamál að ræða fyrir íþróttahreyfinguna, þá var eðlilegt, að upp vöknuðu spurningar um, hvort um rétta skiptingu hagnaðarins væri að ræða, og þá sýndist sitt hverjum, þar sem ýmsir aðilar vildu fá stærri hluta af kökunni en upphaflega var gert ráð fyrir. Í þessu frv. er hins vegar haldið þeirri skiptingu, sem á þessu hefur verið í meginatriðum frá upphafi, og fagna ég því mjög, að samkomulag hefur náðst um það og rn. hefur séð sér fært að leggja fram till. óbreyttar.

Þetta starf er, eins og ég segi, byggt upp af sjálfboðaliðum og áhugasömum félagsmönnum og stendur og fellur með því starfi, sem unnið er hjá hinum einstöku íþróttafélögum af hinum óbreyttu liðsmönnum íþróttafélaganna, og því er eðlilegt, að hagnaður af því starfi og ávinningur falli til þessara sömu manna í aðalatriðum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vildi aðeins láta í ljósi ánægju mína með, að það skuli vera komið fram, og vonast til að það náist að samþykkja það á þessu þingi. Ég vildi undirstrika, að nú á seinni tímum, þegar þjóðfélagið hefur vaxandi áhyggjur af ungu fólki og iðju þess í einu og öðru, þá held ég, að íþróttahreyfingin og íþróttastarfið sé sá vettvangur, sem ætti að beina æskufólki inn á í ríkara mæli, því að þar er unnið mjög hollt og heilbrigt starf.

Því er ekki að neita hins vegar, að það starf hinna fórnfúsu og áhugasömu einstaklinga, sem hafa verið í forystu, hefur of mikið verið í þeim tilgangi að afla fjár og oft og einatt hefur starfið reyndar nánast eingöngu verið betl eða sníkjur til að afla fjár til nauðsynlegrar íþróttastarfsemi. Með lögfestingu á getraunastarfseminni og eflingu hennar er fundinn mjög veigamikill þáttur til þess að afla fjár til íþróttastarfseminnar, þannig að starf þeirra fjölmörgu áhugasömu og ágætu manna, sem starfa á þessum vettvangi, ætti að geta beinzt í ríkari mæli að félagsstarfinu sjálfu, að því að hlúa að því unga fólki, sem þar starfar og efla með því félagsþroska og siðferði almennt. Það er spor í rétta átt. Að þessu stuðlar þetta frv., og ég lýsi ánægju minni með þá þróun.