14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

251. mál, getraunir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli vera komið hér fram, og vona það, að okkur takist á þessu þ. að afgreiða þetta frv. En ég hef ekki haft mikinn tíma til að skoða þetta. Þó er eitt atriði í þessu frv., sem ég vil vekja athygli á og er að velta fyrir mér, hvort ekki þurfi að athuga um breytingu á, og það er í sambandi við það, hvernig hagnaðinum skuli skipt á milli sambandanna. Það kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., að þessir aðilar, sem eiga að fá þann hagnað, sem verður af getraunastarfseminni, hafi fjallað um þetta mál, og kannske mætti ætla, að það hafi orðið samkomulag um þetta. Þó hef ég orðið mjög var við það, að Ungmennafélag Íslands og ýmis sambönd þess telja, að þeirra hlutur sé ekki eðlilegur í sambandi við það fjármagn, sem hefur komið með þessum hætti til þessarar starfsemi í landinu. Ég held, að ég fari rétt með það, að Íþróttasamband Íslands hafi dálitlar tekjur af sölu vindlinga, en ég held t. d., að Ungmennafélagið — það verður þá leiðrétt, ef ég fer rangt með — hafi engan hlut af þeim tekjum, og mig minnir, að ég hafi séð það einhvers staðar, að þessar tekjur muni nema töluvert mikið á þriðju milljón kr. Ég vil minna á það, að í Ungmennafélaginu eru liðlega 14 þús. meðlimir. Ég skal ekki segja, hversu margir meðlimir eru í Íþróttasambandi Íslands eða hvernig það er talið, en ég vil ætla, að þetta hlutfall sé fjarri lagi, þ. e. að Ungmennafélag Íslands fái aðeins 20% eða 2/9 hluta af þeim hagnaði, sem getraunirnar kunna að gefa af sér og hafa gefið af sér, og hins vegar ekkert — ef það er rétt — af því fjármagni, sem vindlingasalan gefur af sér, það er fjarri lagi, að þetta sé réttlát skipting.

Ég þekki það mjög vel úr mínum heimabyggðum, hvað starfsemi ungmennafélaganna er mikils virði fyrir byggðarlögin, og ég vil því beina því til hv. menntmn., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún athugi mjög vel. hvort þessi skipting á fjármagninu sé réttlát miðað við þá starfsemi, sem liggur þarna á bak við. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ef til vill ræði ég þetta frekar við 2. umr. og áskil mér rétt til að koma með brtt., ef hv. menntmn. sér sér ekki fært að standa að brtt. um þessa skiptingu, því að ég trúi því ekki, að þetta geti talizt réttlátt. Jafnvel þótt Ungmennafélag Íslands hafi af einhverjum ástæðum, t. d. til þess að ná samkomulagi–ég veit þetta ekki nógu vel — samþykkt þessi hlutföll, er ég á því, að þetta sé ekki réttlátt og þess vegna þurfi að athuga þetta miklu betur. Við vitum, að það er fyrst og fremst fjármagnsskortur, sem háir þessari starfsemi, og ég veit, að það er líka svo í bæjunum, en það er þá enn þá frekar í hinum dreifðu byggðum, og þar eru ungmennasamböndin fyrst og fremst starfandi.