10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

251. mál, getraunir

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég vil í upphafi geta þess, að ég er í meginatriðum sammála þessu frv., sem hér er lagt fyrir, og tel að það sé gott og gilt. Þó vil ég gera eina aths. við eina gr. frv., sem ég tel, að betur mætti fara, en það er 10. gr. frv. Þar segir: „Þegar vinningar, sölulaun og kostnaður hefur verið greiddur, skal ágóði skiptast þannig: Til Íþróttasjóðs 10%. Til Ungmennafélags Íslands 20%. Til Íþróttasambands Íslands 70%.“ Ég tel það að öllu leyti óeðlilegt, að ríkisvaldið sé farið að kroppa utan í þær tekjur, sem íþróttahreyfingin sjálf hefur byggt þarna upp með sínu sjálfboðaliðsstarfi víðs vegar um landið, og ég tel, að það sé ekki eðlilegt, að Íþróttasjóði sé aflað tekna á þennan hátt.

Í 5. gr. íþróttal. um Íþróttasjóð segir orðrétt: „Alþingi veitir árlega fé í sjóð til eflingar íþróttum í landinu, eða sér honum fyrir öruggum tekjum á annan hátt. Nefnist hann íþróttasjóður.“

Mér sýnist, að samkv. fjárl. bæði síðasta árs og ársins þar áður hafi þessi sjóður fyrst og fremst fengið tekjur á fjárl. beint frá ríkisvaldinu, á fjárl. 1971 5 millj. kr., en 13 millj. kr. á fjárl. 1972. En nú er tekið upp það nýmæli, að taka á hluta af þeim tekjum, sem íþróttafólk út um allt land hefur aflað með fórnfúsu sjálfboðastarfi, og finnst mér þetta óeðlilegt. Ég tel, að ríkisvaldið verði hér eftir sem hingað til að afla Íþróttasjóði tekna á fjárl., og er ég satt að segja undrandi á því, að þetta skuli koma svona frá n., þar sem eiga sæti núv. og fyrrv. íþróttamenn, sem eru kunnugir málefnum íþróttahreyfingarinnar. Ég geri þessa aths. hér af því, að ég hef orðið var við óánægju. Það hafa komið til mín einstaklingar úr íþróttafélögunum hér í Reykjavík og tjáð sig áhyggjufulla vegna þessa atriðis. Og þótt fram komi í grg., að framkvæmdanefnd ÍSÍ hafi fallizt á þetta, finnst mér það ekki skipta höfuðmáli. Ég tel, eins og ég hef sagt áður, óeðlilegt að skattleggja á þennan hátt þetta sjálfboðaliðsstarf íþróttafólksins. Ég mun ekki flytja neina brtt. um þetta hér við 2. umr. Ég vona, að n. fjalli um þetta, og vona, að hún endurskoði afstöðu sína til málsins, og hef það þá í hendi mér að flytja um það brtt. síðar, ef ég tel ástæðu til.