21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Á s. l. áratug a. m. k. hafa verið bornar fram hér á Alþ. ýmsar till. og frv. til að jafna námskostnað nemenda. Markmið þessa tillöguflutnings hefur verið að létta undir með því námsfólki, sem sækja þarf framhaldsnám langt frá heimili sínu. Þingheimi er ljóst, að það fer mjög oft saman, að þeir, sem lengst þurfa að sækja nám frá heimabyggð sinni, búa oft og tíðum við þrengri efnahag en jafnaldrar þeirra annars staðar. Í hinum afskekktari byggðum eru meðaltekjur gjarnan allmiklu lægri en í þéttbýlinu. Ýmsir, sem á þingi hafa setið, hafa staðið að þessum tillöguflutningi, en ég held, að ég geri engum rangt til, þó að ég nefni sérstaklega þá hæstv. núv. félmrh., Sigurvin Einarsson fyrrv. alþm. og hv. 3. þm. Norðurl. e.

Árangur af upptöku þessa máls varð loks, þegar afgreidd voru fjárlög fyrir árið 1970. Þá voru veittar 10 millj. kr. til jöfnunar á námsaðstöðu. Á næstu fjárl. ársins 1971 var sú upphæð hækkuð í 15 millj. kr., og á núgildandi fjárl. ársins 1972 hefur enn orðið hækkun á þessari fjárveitingu í 25 millj. kr. Sem fskj. með því frv., sem hér liggur fyrir, eru prentaðar bæði skýrsla um úthlutun þessara fjárhæða, hinna svonefndu dreifbýlisstyrkja, og sömuleiðis margvíslegar töflur um, hvernig þeir hafa komið niður. Enn var flutt á síðasta þingi frv. um frekara átak til að jafna námsaðstöðu eftir búsetu, og í meðförum þess máls var því heitið, að það skyldi tekið upp á víðari grundvelli. Fyrir tæplega ári síðan ákvað fyrirrennari minn í starfi menntmrh. að biðja þingflokkana að tilnefna menn í nefnd, sem fjallaði um þetta mál „ . . til þess að semja frumvarp til laga um aðstoð við skólanemendur til að jafna aðstöðu þeirra til skólagöngu“, eins og segir, með leyfi hæstv. forseta, í því bréfi, sem sent var til þingflokkanna. Nefndin var fullskipuð s. l. haust, og sátu í henni Runólfur Þórarinsson stjórnarráðsfulltrúi, formaður, Sigurvin Einarsson, fyrrv. alþm., Helgi Seljan alþm., Ingvar Gíslason alþm., Kári Arnórsson skólastjóri, Kristján J. Gunnarsson skólastjóri og Sigurþór Halldórsson skólastjóri. Frv. það, sem nú er lagt fyrir Alþ., er árangur af starfi þessarar nefndar.

Í 1. gr. frv. er því lýst yfir, að ríkið veiti námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum.

Í 2. gr. er tekið fram, hverjir njóta skuli þessara styrkja. Í fyrsta lagi þurfa menn að hafa lokið skyldunámi til þess að koma þar til álita. Þeir þurfa í öðru lagi að vera nauðbeygðir til þess að njóta þeirrar skólagöngu, sem hugur þeirra stendur til, að vista sig utan lögheimilis síns og fjarri fjölskyldu vegna námsins. Í þriðja lagi þurfa þeir að stunda reglulegt nám, sem framhaldsskóli viðurkennir sem áfanga að réttindum eða prófi. Gert er ráð fyrir, að menntmrn. setji reglugerð um lágmarksnámstíma og hlutfallslega upphæð styrkja miðað við skóla þá, sem lengstan námstíma hafa á ári og eigi færri stundir á viku en 30. Síðan er tekið fram, hverjir ekki skuli njóta þeirra styrkja, sem þessi l. gera ráð fyrir. Það eru í fyrsta lagi þeir, sem eiga rétt til lána eða styrkja samkv. lögum nr. 7 frá 31. marz 1967, um námslán og námsstyrki, í öðru lagi þeir, sem taka samningsbundið eða fast kaup á námstímanum, og í þriðja lagi þeir, sem ekki ljúka námsáfanga á tilskildum tíma.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um, hversu úthlutun styrkjanna skuli háttað. Úthlutun skal vera í höndum fimm manna námsstyrkjanefndar, sem menntmrn. skipar og skal leggja fyrir rn. till. um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna. Tveir þessara nefndarmanna skulu skipaðir án tilnefningar og annar vera formaður, einn skal skipa samkv. tilnefningu fjmrn. og einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, og skulu þeir allir skipaðir til fjögurra ára í senn í nefndina. Auk þess skal menntmrn. skipa einn mann til eins árs í senn eftir tilnefningu félags samtaka þeirra skólanemenda, sem l. taka til, og skal rn. setja reglur um val þess fulltrúa.

Í 4. gr. er kveðið á um, á hverjum forsendum úthlutun skuli byggð. Þar er námsstyrkjanefnd falið að afla sér upplýsinga um námskostnað skólanemenda, sem miðuð sé við nægilegt úrtak frá einstökum skólum, svo og upplýsingar frá Hagstofu Íslands eða öðrum hliðstæðum opinberum stofnunum um almennan framfærslukostnað. Þessar upplýsingar skulu m. a. taka til fæðiskostnaðar við skóla með eða án mötuneytis, húsnæðiskostnaðar við skóla með eða án heimavistar og ferðakostnaðar nemenda miðað við mismunandi skólasókn. Síðan skal nefndin gera samanburð á námskostnaði annars vegar þeirra nemenda, er verða að dvelja fjarri lögheimilum sínum við nám, og hins vegar þeirra, er stundað geta nám sitt án þess að hverfa að heiman til námsdvalar. Á grundvelli þessara upplýsinga gerir síðan nefndin till. um, hvað greiða skal í styrk vegna nemenda í heimavistarskólum annars vegar og heimangönguskólum hins vegar. Menntmrn. er falið að setja reglugerð um, hvernig þessara upplýsinga skuli aflað, og grundvallarreglur um mat á upplýsingum.

Loks eru í 5. gr. ákvæði um undanþágur frá þeim takmörkunum, sem styrkjakerfi þetta er háð að öðru leyti samkv. lögum. Þar er í fyrsta lagi ákvæði um, að veita megi skólanemanda námsstyrk, þó að hann fullnægi ekki ákvæðum 2. gr., ef sannanlegt er, að hann getur að öðrum kosti ekki stundað nám vegna efnaleysis. Í öðru lagi, að veita megi nemendum hærri námsstyrki, ef þeir eru frá fjölskyldum, sem þurfa að kosta tvo eða fleiri nemendur samtímis við framhaldsnám. Í þriðja lagi, að veita megi skólanemanda námsstyrk, ef sérstakar ástæður mæla með því, þó að hann fullnægi ekki að öllu leyti ákvæðum 2. gr. Til þessa ákvæðis er sérstaklega vísað í h-lið 2. gr., þar sem rætt er um þá, sem taka samningsbundið eða fast kaup á námstímanum, því að ljóst er, að það kaup eða þau hlunnindi koma mjög misjafnlega niður, og þótt um það sé að ræða, er ekki tryggt, að það nægi til þess að vega upp eðlilegan námskostnað.

Það fer ekki á milli mála, að nauðsyn ber til að jafna þann aðstöðumun, sem sannanlega ríkir um námsaðstöðu eftir því, hvort nemendur geta sótt skóla heiman frá sér eða hvort þeir þurfa að sækja hann langan veg og vistast allan skólatíma sinn í byggðarlögum fjarri heimilum sínum. Markmið þessa lagafrv., sem hér er lagt fram, er að ná sem fyllstum jöfnuði; að jafna þann aðstöðumun til náms, sem búsetan að öðrum kosti skapar. Erfitt er að segja, hver kostnaður verður samfara þeim ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir. Fullnægjandi athugun hefur ekki farið fram á því atriði, en nefndin, sem samdi þetta frv., reyndi þó að áætla kostnaðarhliðina eftir þeirri vitneskju, sem hún hafði yfir að ráða, og getur hún þess til að búast megi við, af heildarupphæðin nemi 100–120 millj. kr. á næsta skólaári.

Það er almennt viðurkennt, að framhaldsmenntun verður mönnum æ nauðsynlegri til þess að njóta sín í nútímaþjóðfélagi hér á Íslandi. Það er allra manna vilji, að hverju mannsefni nýtist sem bezt hæfileikar til náms og til að skapa sér þar með aðstöðu í lífinu. Það hefur ætíð verið hefð á Íslandi og þótt sómi að, að styðja menn til þess náms, sem hugur þeirra stefnir til. Það er eindregið álit mitt, að þegar þetta styrkjakerfi, sem hér eru lögð drög að, kemur til sögunnar, muni það ásamt lánum og styrkjum, sem veitt eru úr Lánasjóði ísl. námsmanna, bæta úr brýnustu þörfinni í þessu efni. Og sérstaklega er mikilsvert, að þetta frv. stefnir að því að jafna metin milli þéttbýlis og strjálbýlis. Það varðar ekki aðeins menntunaraðstöðuna, að þetta sé gert, heldur einnig búsetuskilyrðin. Búseta í strjálbýli er eftirsóknarverðari, ef þeir, sem þar búa, stunda atvinnu sína og ala upp börn sín, vita, að þeir mega ganga að því vísu, að búseta á afskekktum stöðum torveldar þeim ekki úr hófi fram að koma börnum sínum til mennta. Ég er ekki í vafa um það, að frv. þetta, ef að l. verður, er stærsta skref, sem stigið hefur verið lengi í þá átt, að öll uppvaxandi kynslóð á Íslandi njóti jafns réttar til að afla sér menntunar, eins og hugur hvers og eins stefnir til.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og menntmn., og ég vil láta þá eindregnu von í ljós, að n. hraði svo störfum sínum, að þetta frv. geti hlotið afgreiðslu á því Alþ., sem nú situr.