05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og eins og fram kemur í nál., þá leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. með tilteknum breytingum, sem fluttar eru á þskj. 689. Eins og fram hefur komið áður, þá er þetta frv. samið af mþn., sem í áttu sæti fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum, og þannig hefur ríkisstj. lagt málið fyrir þingið. Menntmn. telur, að hér sé um það mikilvægt frv. að ræða, að ástæða sé til þess að hraða sem mest má verða samþykkt þess hér, þannig að það geti komið til framkvæmda á þeim tíma, sem ætlazt er til, en það er á næsta skólaári, ef að lögum verður.

Við athugun þessa máls í n. varð sú niðurstaða, að ekki væri ástæða til þess að fara út í miklar efnisbreytingar á því. Hins vegar var eitt atriði tekið til sérstakrar skoðunar vegna ábendingar, sem fram hafði komið hjá hv. þm. hér við 1. umr. málsins. Það var um réttindi iðnnema, og þær lyktir urðu, að menntmn. tók að nokkru undir þetta álit — þessa skoðun þess hv. þm., sem þessu hreyfði hér á sínum tíma, þannig að n. leggur til, að iðnnemar, sem aðeins hafa lágmarkslaun samkv. iðnnámssamningi, skuli heyra undir þessi l. Annars er það heildarstefna þessara l. eða þessa frv., ef að l. verður, að hafa það að meginreglu, að þeir, sem taka samningsbundið kaup á námstíma sínum, skuli ekki koma undir ákvæði þeirra. Hins vegar þykir það vera réttlætismál og eðlilegt, að ákvæðið nái til þeirra iðnnema, sem hafa mjög lág laun, og þeirra laun margra eru mjög lág, það er sannanlegt. Þau eru allt niður í 30% af sveinakaupi og verða, held ég, aldrei meira en 60%, þannig að það er fjarri því, að þeirra hagur sé góður.

Þess vegna er það till. menntmn., að ákvæði 3. mgr. 2. gr., b-liðar, verði breytt nokkuð eins og segir á þskj. nr. 689, þannig að það opnist leið með því að setja heimildarákvæði inn í l. um það, að iðnnemar, sem verða vegna skólanáms síns að sækja skóla utan heimilissveitar, komist undir ákvæði þessara l.

Aðrar breytingar, sem menntmn. hefur flutt, eru mjög smávægilegar, t. d. við 2. gr. Þar er aðeins um að ræða leiðréttingu á málfari, og. á 5. gr. er gerð tiltölulega lítilvæg breyting, aðeins gerð til þess að skýra efni gr. betur.

Sem sé, menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem finna má á þskj. nr. 689.