10.05.1972
Efri deild: 78. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv., sem lagt var fram á þskj. 575 og hingað kemur að breyttum tveimur frvgr. í Nd., eins og sjá má á þskj. 706, er árangur af starfi nefndar, sem skipuð var í fyrrahaust til þess að semja frv. til l. um aðstoð við skólanemendur til að jafna aðstöðu þeirra til skólagöngu. Þessi nefndarskipun var niðurstaða af margra ára tillöguflutningi á Alþ. um ráðstafanir af ríkisvaldsins hálfu til þess að styðja til framhaldsnáms fram yfir skyldunám þá nemendur, sem vegna búsetu eru nauðbeygðir til að sækja allt framhaldsnám út fyrir heimabyggðir sínar og flytja búferlum til að geta gengið í skóla. Alkunna er, að hjá þeim, sem búa lengst frá þéttbýlissvæðunum, fer það gjarnan saman, að þar er efnahagur þrengri og atvinnumöguleikar minni að jafnaði en hjá þeim, sem búa svo nærri skólastöðum, að þeir þurfa ekki að taka sig upp og vista sig utan síns heimilis til að sækja skóla.

Frv., sem er niðurstaða af starfi nefndarinnar, kveður á um námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Í 2. gr. er tekið fram, hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til að verða þessara námsstyrkja aðnjótandi, og sömuleiðis, hverjir eigi skulu hljóta þá, þ. e. þeir, sem eiga rétt til lána eða styrkja samkv. lögum um námslán og námsstyrki, þeir, sem taka samningsbundið kaup eða fast kaup á námstímanum, þó með tilteknum undantekningum, sem gerð er grein fyrir í b-lið 2. gr. eins og hún er á þskj. 706, og loks þeir, sem ekki ljúka námsáfanga á tilskildum tíma.

Í 3. gr. eru ákvæði um, hvernig úthlutun skuli hagað á þessum námsstyrkjum, í 4. gr. er kveðið á um, á hvaða forsendum úthlutun skuli byggð og loks eru í 5. gr. ákvæði um undanþágur, sem hægt sé að veita, þegar sérstaklega stendur á eins og þar er tilgreint, frá öðrum ákvæðum laganna. Ég held, að ekki blandist neinum hv. þm. hugur um, að nauðsynlegasta ráðstöfun, sem nú þarf að gera til þess að ná því marki að jafna aðstöðumun til menntunar, er einmitt sú, sem þetta frv. fjallar um, að bæta mönnum það upp, þegar þeir standa höllum fæti fjárhagslega við að sækja skóla vegna búsetu.

Þetta mál varðar ekki aðeins réttinn til menntunar. Það varðar einnig að mínu áliti búsetuskilyrðin í landinu. Það er einn liður í framkvæmd þeirra stefnumiða, sem í einu.orði hafa verið nefnd byggðastefna, þ. e. að draga eftir því, sem kostur er, úr þeim ókostum, sem því fylgja, að búa fjarri þéttbýlissvæðum landsins. Á því er enginn vafi, að eitt af því, sem stuðlar að fólksfækkun í ýmsum byggðarlögum, er einmitt það, að fólk, sem þar býr, hefur að jafnaði átt erfiðara fjárhagslega með að koma börnum sínum til mennta en fólk á þéttbýlissvæðunum. Þetta mál varðar því bæði jöfnun menntunaraðstöðu og jöfnun búsetuskilyrða í landinu.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.