24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

89. mál, orlof

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Aðdragandinn að samningu þess frv., sem hér liggur fyrir, er í aðalatriðum sá hinn sami og ég gerði grein fyrir áðan, þegar ég ræddi um frv. um styttingu vinnuvikunnar. Frv. um orlof er samið af n. manna, skipaðri fulltrúum vinnumarkaðarins að jöfnu og að auki ráðuneytisstjóranum í félmrn., formanni n.

Aðalefni frv. og breyt. frá gildandi löggjöf um orlof eru þær, að orlofstíminn lengist í 4 vikur, þ.e. úr 21 degi virkum í 24 virka, og orlofsfé hækkar úr 7% af vinnulaunum í 81/3%.

Önnur breyt. frá gildandi lögum er sú samkv. frv., að í því eru engin ákvæði um orlofsmerki, orlofsbækur og vottorðsgjafir í sambandi við töku orlofs. Þetta allt er talið heppilegra að ákveða með reglugerð, enda eru nú til skoðunar hugsanleg úrræði til að gera framkvæmd orlofslaganna einfaldari og helzt á þann hátt, að minni skriffinnska fylgi. Þá verður lögð áherzla á það, að reglugerðin tryggi ekki síður en gildandi löggjöf, að orlofsþegi fái orlofsfé sitt í hendur, alltaf þegar hann fer í orlof. N. hefur ekki ennþá samið frumdrög að reglugerð, en stefnir að sjálfsögðu að því, að reglugerðin verði sett þegar eftir gildistöku laganna.

Þriðja breyt. frá gildandi orlofslöggjöf er sú, að orlofstóminn á ári hverju er lengdur og heimild er til skiptingar á orlofi.

Í fjórða lagi er nýmæli í frv. varðandi töku orlofs, þegar orlof er veitt öllu starfsfólki fyrirtækis samtímis, en það færist nú mjög í vöxt og oftast nær með samþykki beggja aðila.

Að lokum er í frv. nýmæli um flutning orlofsfjár milli orlofsára, þannig að ef orlofsþegi hefur ekki tekið út orlofsfé sitt innan árs frá lokum orlofsársins á undan, þá rennur það sem aukaiðgjald til lífeyrissjóðs hans.

Frv. er flutt eins og samkomulag varð um það í n. að öðru leyti en því, sem snertir 4. gr. og upphæð orlofsfjár, sbr. 7. gr. Í stað 18 daga í 4. gr. leggja fulltrúar Alþýðusambands Íslands til, að komi 21 dagur, og beini ég því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að gr. breytist þannig. Ennfremur leggja fulltrúar Alþýðusambands Íslands til, að orlofstíminn verði frá 2. maí til 15. sept. Um það atriði er till. atvinnurekenda, að orlofstíminn verði frá 2. maí, í stað 1. júní, og til 30. sept., og legg ég til, að á það verði fallizt. Varðandi orlofsfjárhæðir leggja fulltrúar atvinnurekenda til, að það verði 8%, en fulltrúar Alþýðusambands Íslands, að orlofsfjárhæðin verði 81/3%. Ég legg til við n., sem um málið kemur til með að fjalla, að orlofsfé verði 81/3%. Í aths. með frv. er gerður vandlegur samanburður á ákvæðum frv. og gildandi orlofslaga, og held ég, að allar breyt. þess séu þar fullskýrðar. Ég sé ekki ástæðu til að bæta þar neinu við.

Með samþykkt þessa frv. mundi Ísland standa nokkurn veginn jafnfætis nágrannalöndum okkar um orlofsréttindi verkafólks, en á seinni árum höfum við dregizt nokkuð aftur úr á því sviði. Þó er orlofsfé sums staðar mun hærra en hér er lagt til. Þannig er það t.d. hjá Dönum, 9% orlofsfé.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta, en legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.