10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

238. mál, höfundalög

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. hv. menntmn., þá var ég ekki viðstaddur lokaafgreiðslu þessa máls úr n. vegna fjarveru minnar úr bænum, en ég hafði þó látið þess getið á fundi í n., þegar fjallað var um þetta mál áður, að vera kynni að ég mundi skrifa undir nál. með fyrirvara og jafnvel áskilja mér rétt til þess að flytja brtt. Hins vegar var ég í öllum höfuðatriðum mjög sammála því, sem fram kemur í nál., að hér væri um mál að ræða, sem ekki væri svo þægilegt að fara að gera stórvægilegar breytingar á nú á síðustu dögum þingsins, enda er það svo, eins og hv. frsm. n. sagði, að þessi mál geta alltaf komið til endurskoðunar og hægt að gera á þeim lagfæringar, eftir því sem reynslan telur rétt vera. Brtt. mín er við 21. gr. frv. og er í því fólgin, að STEF-gjöld verði ekki greidd vegna flutnings sálma eða kirkjulegrar tónlistar í guðsþjónustum og við kirkjulegar athafnir. Ég veit, að ekkert af hv. þingsystkinum mínum hér í hv. d. tekur þessa brtt. mína þannig, að ég sé að gera minna úr þeim skáldum, sem yrkja sálma, né að ég telji þau ekki eiga eins mikinn rétt á því að fá höfundalaun og hver önnur skáld og höfundar. Það, sem kom mér til að flytja þessa brtt., var nú fyrst og fremst það, að mér sýndist, að það mundi verða nokkuð örðugt að framkvæma þetta ákvæði. Ef réttlæti ætti að ríkja, þá þyrfti í rauninni að halda nákvæma skrá yfir hverja guðsþjónustu, sem haldin er og þá sálma, sem notaðir eru, og síðan yrði sú skrá athuguð síðar og úthlutað þessum STEF-gjöldum eftir henni.

Annað, sem kom mér til þess að flytja þessa brtt., var það, að einn aðalhöfundur frv. og raunar aðalhöfundur þess, dr. Þórður Eyjólfsson, fyrrv. hæstaréttardómari, gerði sér ferð hingað niður í Alþ. í gærmorgun beinlínis í þeim tilgangi að benda mér á það — sennilega vegna þess að ég var ekki staddur á fundi n., þegar höfundarnir komu á fund hennar — að það væri ekki rétt, sem stæði í aths. við 21. gr., að samsvarandi ákvæði væru í hinum nýju norrænu höfundalögum. Þessi ákvæði munu ekki vera enn komin inn í norrænu höfundalögin, og í Bernarsáttmálanum eru engar reglur, sem svara til efnis þessarar gr., og dr. Þórður taldi jafnvel ástæðu til þess að fella niður úr gr. þetta ákvæði. Aftur á móti hef ég rætt þetta mál betur við einn höfunda frv. í morgun, Knút Hallsson deildarstjóra í menntmrn., og hann skýrði nokkuð fyrir mér, hvernig menntmrn. hugsaði sér að framkvæma þetta ákvæði, og ég komst á þá skoðun, að ef framkvæmdin yrði slík, þá mundi það verða til þess að efla kirkjusöng og tónlistarlíf í kirkjum okkar, og þess vegna hef ég ákveðið að draga þessa till. til baka. (Gripið fram í.) Já, þeir hafa hugsað sér, að það yrði á eitthvað svipaðan hátt og hv. frsm. skýrði hér frá áðan.