12.05.1972
Neðri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

238. mál, höfundalög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Nú þegar þetta mál er komið til 3. umr. í þessari d., vildi ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv. og láta í ljós stuðning minn við framgang þess.

Ég vil gera það, um leið og ég í upphafi vek athygli á því megininntaki í þessu frv., sem felst í 1. gr. þess, þar sem segir: „Höfundur að bókmenntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum, sem í lögum þessum greinir.“ Í inngangi grg. er síðan sagt um þetta meginákvæði frv.: „Hlutverk og efni höfundalaga er að veita mönnum réttarvernd á tilteknum andlegum verðmætum: bókmenntum og listum. Með lögunum er viðurkenndur réttur þess, sem verkið hefur gert, þ. e. höfundarins, til umráða yfir því, sem ýmist eru fjárhagslegs eða persónulegs eðlis.“ Á þessum meginkjarna þessa frv. vildi ég vekja athygli, þ. e. á þeirri stefnumótun, sem það felur í sér. Með þessu frv. er verið að undirstrika betur en áður höfundarétt, þ. e. rétt hvers höfundar til síns huglæga verks, það er verið að viðurkenna enn betur og herða enn frekar á eignarréttarsjónarmiðinu á þessum vettvangi.

Í grg. með þessu frv. er nokkuð rakin saga þeirrar baráttu, sem háð hefur verið fyrir þessari viðurkenningu, og rifjað upp, hversu lítilsvirt voru um aldaraðir hugverk manna og hversu höfundar voru oft hart leiknir. Í grg. segir m. a., með leyfi forseta:

„Ekki er í fornum lögum, hvorki innlendum né erlendum, neinn vísir að vernd bókmenntaverka eða listaverka. Það var líka fjarri hugsunarhætti hinna fornu menningarþjóða, t. d. Grikkja og Rómverja, að viðurkenna eignarrétt að öðru en líkamlegum munum. Höfundar áttu vitanlega, eins og nú, þau eintök að verkum sínum, sem þeir gerðu sjálfir, handrit, málverk, höggmyndir o. s. frv., og gátu áskilið sér gjald fyrir þau, ef þeir létu þau af hendi. En eftir það var hverjum manni heimilt án samþykkis höfundar að gera ný eintök af verkunum og með þeim breytingum, sem henta þótti.“

Þessu til áréttingar segir enn fremur í grg.: „Þegar bókaútgefanda tókst að ná í handrit að verki, sem hann taldi vænlegt til sölu, gat hann gefið það út undir nafni höfundar án þess að spyrja hann um leyfi. Það var einnig algengt, að verkin væru gefin út eftir breyttum og afbökuðum handritum, og stóðu höfundar varnarlausir gegn því. Enn síður var um það að ræða, að höfundar ættu rétt til þóknunar fyrir prentun og útgáfu verkanna eða til arðs af sölu þeirra. Þó að höfundar teldu sig hart leikna, höfðu þeir öldum saman engin samtök með sér til að hrinda þessari ágengni, enda var það rótgróið í almenningsáliti, að þegar höfundur hefði látið verk af hendi, væri það þar með orðið almenningseign, sem hver mætti gera við það, sem hann vildi.“ Svo segir í grg.

Að því er vikið í þessari sömu grg., að á dögum frönsku stjórnarbyltingarinnar hafi verið samin allfullkomin höfundalög þess tíma, sem markaði ákveðna stefnu og ruddi brautina fyrir seinni tíma lagasetningu á þessu sviði, og skal ég ekki rekja þá sögu. Það fór hins vegar vel á því og var eðlilegt, að orsakasamband væri þar á milli, þ. e. höfundalaga og stjórnarbyltingarinnar í Frakklandi á sínum tíma, þar sem meginkrafa þeirrar byltingar var einmitt friðhelgi eignarréttarins.

Á öllum tímum og nú ekki síður á okkar tímum hefur þeim þjóðfélagskenningum eða skoðunum vaxið nokkuð ásmegin, þar sem fordæmdar eru kenningarnar um séreignarréttinn, og í sumum hverjum af þessum kenningum er jafnvel beinlínis lagt til að afnema þennan séreignarrétt. Þeir einstaklingar, sem keppa að því að fá uppskeru af starfi sínu í tekjum og arði, eru stundum kallaðir arðræningjar þjóðfélagsins og sagðir vera stærstu ljónin á vegi fyrir hinni félagslegu lausn útópíunnar og alræðis öreiganna. Ekki þarf að taka fram, hversu eignarrétturinn er lítils metinn samkvæmt kenningum Marx, og reyndar er hann talinn orsök alls hins illa í hinu spillta, borgaralega þjóðfélagi.

Því er ekki að neita, að sérstaklega allt of margir rithöfundar og reyndar aðrir skapandi höfundar og listamenn hafa látið ánetjast þessum kenningum marxismans, en á sama tíma hefur þetta fólk gert háværar og að mínu viti sjálfsagðar kröfur um aukna vernd verka sinna og krafizt óskerts hlutar af hinni andlegu framleiðslu sinni. Um leið og ég fyrir mitt leyti tek heils hugar undir slíkar kröfur, vil ég í mestu vinsemd benda á, að þær kröfur samrýmast að sjálfsögðu engan veginn kenningum gamla Marx, sem lítið hefði lagt upp úr svo harðsvíraðri séreignarstefnu. Sannleikurinn er auðvitað sá, að réttur höfunda til verka sinna er í eðli sínu sá sami og réttur eigenda til afraksturs af framleiðslutækjum, og í báðum tilfellum býr sú hugsun að baki, að einstaklingarnir eiga að njóta hæfileika sinna, hugvits og handverka.

Sú stefna, sem áréttuð er í þessu frv. og undirstrikar mjög skilmerkilega eignarrétt höfunda að verkum sínum, er vissulega í anda þeirra stjórnmálaskoðana, sem snúast öndverðar gegn kenningum Marx, og þeirra kenninga, sem vilja afnema eignarréttinn, og væri betur, að mönnum væri ljóst samhengi hinnar eðlilegu baráttu höfunda fyrir ótvíræðum eignarrétti að verkum sínum og hinnar almennu þjóðfélagsstefnu um verndun eignarréttarins á líkamlegum munum, fasteignum og framleiðslutækjum. Þessi sjónarmið vildi ég setja hér fram við þessa umr. og lýsa því yfir, að einmitt út frá þessari grundvallarskoðun er ég mjög eindreginn stuðningsmaður þessa frv., og ég álít satt að segja, að það megi og eigi að ganga miklum mun lengra en í þessu frv. er gert, og ég lít svo á, að hér sé eingöngu um áfanga að ræða, sem sé í sífelldri endurskoðun.

Í grg. þessa frv. er reyndar vakin athygli á því, að ýmis atriði séu til athugunar og megi betur fara. M. a. er vakin athygli á atriðum eins og rétti höfunda vegna upptöku tónsmíða á segulbönd til einkanota, og í því sambandi er bent á, að segulbandstæki hafa gert mönnum í vaxandi mæli kleift að taka upp tónlist og talað mál eftir hljómplötum eða útvarpi til afnota í heimahúsum og — eins og þessum málum er háttað —hafi ekki verið teknar í frv. neinar sérreglur um segulbandsupptökur, en gefið í skyn, að það sé fyllilega tímabært að taka það til athugunar; undir það sjónarmið tek ég.

Í öðru lagi er vakin athygli á rétti höfunda vegna útlána á bókum, en það er gamalt og nýtt baráttumál rithöfunda, og þar er sporið ekki stigið til fulls. Um það segir í grg., með leyfi forseta: „Í höfundarétti er viðurkennt, að almennt eigi eigandi eintaks af bókmenntaverki eða tónverki, t. d. bók, nótnahefti eða hljómplötu, að hafa sömu eignarréttarheimildir að því sem hverjum öðrum líkamlegum hlut, enda virði hann sem aðrir einkarétt höfundar til eintakagerðar og opinbers flutnings á verkinu. Spurning hefur einkum risið um afstöðu höfunda til útlána á bókum til almennings frá opinberum bókasöfnum …. Útleiga frá verzlunum á bókum, hljómplötum eða öðrum eintökum bókmenntaverka eða tónverka hefur ekki tíðkazt hér. Þykir því ekki ástæða til að setja reglur, sem þar að lúta“, segir áfram í þessari grg. Þarna er því áfram verkefni til athugunar og lagasetningar.

Ég vek í þriðja lagi athygli á því, sem segir hér í grg., að höfundum í ýmsum löndum sé áskilinn hluti af söluverði listaverka á uppboðum. Það er ekki tekið upp í þetta frv., en hlýtur að vera mjög mikilvægt mál fyrir alla listamenn og höfunda slíkra verka. Enn fremur er vakin athygli á skattlagningu í þágu höfunda á útgáfu rita, en það er ekki háð höfundarétti. Um þetta fer ég ekki fleiri orðum, en vek athygli á því, að þetta frv. er mjög merkilegt spor og afskaplega mikilvægur áfangi í þeirri baráttu höfunda almennt að fá viðurkenningu á eignarrétti á verkum sínum, en um leið er það aðeins einn áfangi að fullri viðurkenningu.

Eins og sjá má af þeirri upptalningu, sem ég hef hér af handahófi, eru mörg vandamál óútkljáð og frekari verndun og viðurkenning á höfundarétti verkefna, sem hlýtur að vera í sviðsljósinu, þegar þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu, að sælzt sé æ lengra inn i einkalíf einstaklinga og skert æ meir friðhelgi eignarréttarins.