24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

89. mál, orlof

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég legg nú í það einu sinni enn að lýsa yfir ánægju minni yfir framkomu þessa frv. að öllu meginefni, sem á sjálfsagt rætur að rekja til 2. tölul. í málefnasamningi hæstv. núv. ríkisstj., þar sem segir, að orlof verði lengt í 4 vikur og framkvæmd orlofslaganna auðvelduð.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að geta þess, að um það bil mánuði eftir að ég tók við starfi félmrh. árið 1965, eða nánar tiltekið 27. okt. 1965, skipaði ég n. til þess að undirbúa sams konar frv. Áður en ég lét af störfum sem félmrh. um áramótin 1969–1970, þegar breyting var gerð á skiptingu ráðherrastarfa, þá hafði þessari ágætu n. því miður ekki unnizt tími til að ljúka störfum, og meginástæðan var ekki sú, að menn væru ekki sammála þar eða greindi á, heldur hitt, að þeir gátu afgreitt með tiltölulega stuttum fyrirvara — og buðust til þess — svipað frv. sem hér er á ferðinni, þ.e.a.s. sjálfan rammann utan um lögin. Það var ekki út af fyrir sig vandamálið, hver prósentan skyldi vera og orlofsdagarnir, heldur hitt, sjálf framkvæmdin, og samkv. bráðabirgðaáliti, sem þeir skiluðu á starfsferli sínum, þremenningar, sem að þessu unnu, þá kom í ljós, að í einni af allra stærstu verstöðvum landsins, sem nánast er byggð eingöngu verkafólki, hafði samkv. rannsókn þeirra á 5 árum verið borgaðar 75 kr. í orlofsfé. Allir hljóta að sjá, hvílík herfileg framkvæmd er á lögunum, þegar slíkt á sér stað, enda er því miður sannleikurinn sá, að í allt of ríkum mæli hefur verið brugðið frá meginefni gildandi laga og mönnum borgað orlofsfé í beinum peningum, jafnvel vikulega með sínum launum. Þannig hafa launin týnzt í eðlilegum eyðslueyri fjölskyldnanna og síðan verið gripið í tómt, þegar til sumarleyfis áttí að taka, ef menn töldu sig þá hafa efni á því. Ennfremur var því ákvæði gildandi laga ekki fylgt fram, að menn tækju sér orlof, og nú samkv. framsögu hæstv. ráðh. er þetta ennþá sami vandinn.

Vandinn er tvenns konar, þ.e. að orlofsfé vill verða í framkvæmd venjulegur eyðslueyrir, en er ekki það orlofsfé, sem hugsað var til þess að grípa til þann tíma, sem viðkomandi átti að vera í hvíld og taka sér sitt sumarleyfi. M.ö.o. er enn óleystur sá meginvandi, sem verður að felast í reglugerðinni, sjálf framkvæmd laganna. Voru þó í þeirri n., sem ég skipaði til þessa starfs, valinkunnir menn, sem vildu gera allt sitt bezta til lausnar málinu, en þeir höfðu ekki komizt að niðurstöðu, eins og ég áðan sagði, þegar ég skildi við þann ráðherrastól. Í þeirri n. áttu sæti Eðvarð Sigurðsson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Jón H. Bergs, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, og Jón Sigurðsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sem jafnframt var kjörinn formaður n. Þeir viðuðu að sér miklu af gögnum um þessi mál frá öðrum löndum, sem í þessum efnum eins og oft áður er erfitt að heimfæra beint upp á Ísland eða gera íslenzk nema að hluta til, og höfðu í undirbúningi nákvæmari lagasetningu, sem vel mætti eins koma fyrir í reglugerð, eins og núv. hæstv. félmrh. hyggst gera, en enn er óleystur aðalvandi málsins, þ.e.a.s. sjálf framkvæmd orlofslaganna. En í málefnasamningi ríkisstj. er því lofað, að hann skuli auðveldaður. Til þess að lengja nú ekki um of þetta mál, því að það tvinnaðist töluvert inn í það mál, sem hér var til umr. á undan, þá mundi ég vilja benda á í fyrsta lagi eða gera fsp. um, hvernig á því stendur, að í 4. gr. frv. er byggingarvinna talin með landbúnaði og samgöngum, þar sem má veita allt að heimingi orlofsins utan orlofstímabilsins. Ég hygg, að þetta hljóti að vera einhver vansmíð, af því að á eftir frv. hefur sjálfsagt verið rekið úr prentun, og þar eru fleiri atriði, sem óþarft er að tefja þingfundartíma á. Væntanlega gefst færi á að leiðrétta það í n., þegar þar að kemur.

Eins og ég sagði áðan, skilaði umrædd n., sem skipuð var af rn. 27. okt. 1965, ekki endanlegu áliti, en í bráðabirgðaáliti hennar kom fram, sem reyndar flestir vissu, sem afskipti hafa af verkalýðsmálum, að sjálf framkvæmd laganna hefur verið í algerum molum. Jafnþörf og ágæt og þessi löggjöf var á sínum tíma og mikil kaflaskipti urðu þá í sögu verkalýðshreyfingarinnar, þegar þau voru sett, þá er eins nauðsynlegt, að þetta sé skoðað nú. Eins og hæstv. ráðh. minntist á, hafa ýmsir nýir hlutir komið til sögunnar síðan, sem gætu e.t.v. auðveldað framkvæmdina og gert hana raunhæfari en hún því miður hefur reynzt, eins og t.d. gírósamband bankanna og annað slíkt, sem hugsanlegt væri að nota í þessu sambandi. En ég hygg, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að áður en málið verður afgr. úr hv. heilbr.- og félmn., sem það fer til, verði n. gerð grein fyrir því, með hvaða hætti hv. rn. hyggst tryggja betur sjálfa framkvæmdina. Ég get vart trúað því, að um stórágreining geti verið að ræða um frv. sjálft, en það er eins og ég segi, aðeins rammi utan um raunveruleikann. Raunveruleikinn og það, sem að verkafólkinu snýr og atvinnurekendum, er sjálf framkvæmdin. Það hefur því miður verið liðið af allt of mörgum verkalýðsfélögum, að þessir hlutir væru brotnir, og það eru of margir atvinnurekendur, sem hafa brotið ákvæði gildandi laga um að greiða ekki orlofsfé nema í merkjum, heldur hefur það verið greitt með launum og orðið í raunveruleikanum því miður að eyðslueyri í stað þess að tryggja mönnum ákveðna hvíld á ákveðnum árstíma, þeim árstíma, sem við höfum hingað til talið, að væri okkur hentugastur til þeirra hluta.

Ásamt því að lýsa yfir stuðningi mínum við frv. enn á ný vildi ég láta þessi orð falla nú við 1. umr. málsins.