05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 652 er frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1972.

Áður en ég vík að þessu frv. vil ég aðeins gera grein fyrir skýrslu þeirri, sem lögð hefur verið fram hér á hv. Alþ. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1972. Ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa upp úr þeirri skýrslu, enda skýrir hún sig sjálf og er aðgengileg mjög. Samt vil ég aðeins vekja athygli á þeim meginatriðum, sem í skýrslunni eru. En í sambandi við þá framkvæmdaáætlun, sem hér liggur fyrir og er seint á ferðinni sem kunnugt er, vil ég minna á það, að þegar ég gerði grein fyrir fjárlagafrv. á s. l. hausti gerði ég einnig grein fyrir því, að drög að framkvæmdaáætlun fylgdu ekki fjárlagafrv. þá, sem stafaði af þeirri breytingu, að Efnahagsstofnunin var að hætta störfum og við störfum hennar o. fl. tók Framkvæmdastofnunin. Það var því talið eðlilegt að geyma framkvæmdaáætlunina, þar til þessi stofnun væri farin að starfa og fleiri atriði væru ljósari, sem þá voru óljós. Hins vegar vil ég taka það fram, að ég tel, að brýna nauðsyn beri til að breyta um vinnubrögð í þessu og að framkvæmdaáætlun verði afgr. með fjárlagafrv. Það er afar óeðlilegt og afar óæskilegt að hafa þann hátt á að afgreiða fjárlög í raun og veru tvisvar, eins og gert er með framkvæmdaáætluninni, sem er framhald af fjárlögum. Ýmis atriði eru einnig inni í framkvæmdaáætluninni og hafa verið þar, sem eiga beinlínis að afgreiðast á fjárlögum. Það hefur verið reynt að fækka þessum atriðum, en þó er langt frá því, að þetta sé komið í æskilegt horf. Þetta er ekki nýtt. Ég minnist þess, að fyrirrennari minn í fjmrh.-embættinu vék að því, að þessi vinnubrögð væru æskileg og þróunin hefur orðið sú, að skýrari mynd af framkvæmdaáætlun hefur fylgt fjárlagafrv., þar til á s. l. hausti, vegna þess sem ég hef nú tekið fram. Hins vegar mun vera að því stefnt, eins og kemur fram í þessari skýrslu, að breyta þessu á þann hátt að hefja nú þegar undirbúning að næstu framkvæmdaáætlun jafnhliða því sem fjárlagafrv. verður undirbúið.

Skýrsla sú, sem hér liggur fyrir, er samin í áætlunardeild Framkvæmdastofnunarinnar, og hefur Bjarni Bragi Jónsson unnið það verk að mestu leyti. Um skýrsluna er það að segja, að fyrsti hluti hennar er almennt yfirlit um framkvæmdaáætlun, fjáröflun til opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða. II. kaflinn fjallar almennt um viðhorf í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar er vikið að því, að framleiðsla hefur farið ört vaxandi og þjóðartekjur. Stórfelld aukning hefur orðið á ráðstöfunarfé almennings í landinu og framkvæmdir hafa einnig farið ört vaxandi. Almenn eftirspurn eftir vörum og þjónustu, vinnuafli og fjármagni hefur einnig farið vaxandi og hefur magnazt örar en þróun framleiðslunnar. Þá er gerð grein fyrir fjármunamyndun á árinu 1971 með samanburði við fyrri ár. Einnig er gerð spá um þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og fjármunamyndun á þessu ári. Sömuleiðis er í þessari skýrslu vikið að þróun sparnaðar og nauðsyn sparnaðar, gjaldeyrisstöðunni og horfum á vinnumarkaði. Í skýrslunni er bæði gerð grein fyrir þessum atriðum með almennu orðalagi og frásögn, en einnig er gerð grein fyrir því með skýrum töflum, sem fylgja með grg. þessari og eru mjög ljósar og aðgengilegar. Þá er í framhaldi af þessu grg. um framkvæmdir og fjáröflun vegna þeirra á árinu 1972, og er sú grg. miklu ítarlegri heldur en er að finna í frv. á þskj. 652. Eins og öllum hv. þm. er ljóst, er meginefni í fjáröflun og því, sem fram kemur í sambandi við framkvæmdaáætlun, öflun fjár til lánasjóða, fjárfestingarlánasjóða, og opinberra framkvæmda, skýrslur um samanburð á fjáröflun til framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða og útlán fjárfestingarlána. Um framkvæmdaáætlunina 1972 vil ég segja það, að þar er í fyrsta lagi um að ræða, að heildarfjáröflun áætlunarinnar er rúmar 2000 millj. kr. á móti 778 millj. á árinu 1971, eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Hins vegar varð nokkur breyting á þessu síðar á árinu 1971, vegna þess að framkvæmdir urðu öllu meiri heldur en gert var ráð fyrir þar.

Um hinar einstöku framkvæmdir, opinberar framkvæmdir á árinu 1972 vil ég segja þetta. Það er í fyrsta lagi um að ræða landshafnir, sem gert er ráð fyrir að útvega fé upp á 28 millj. kr. Þær hafnir, sem eiga að njóta þeirrar fjáröflunar, sem gert er ráð fyrir, eru Rifshöfn 15 millj. kr., Njarðvíkurhöfn 8 millj. kr. og Þorlákshöfn 5 millj. kr. Það, sem gert er ráð fyrir að gera í Rifshöfn, er annaðhvort að dýpka höfnina eða ljúka þar frágangi á hafnarmannvirkjum eins og grjótgörðum og fleiru, sem eftir var, þegar síðast var unnið að framkvæmdum í þeirri höfn. Það er gert ráð fyrir því, að Njarðvíkurhöfn verði dýpkuð, og varðandi Þorlákshöfn er fyrst og fremst um skuldagreiðslur að ræða, auk þess sem á að gera rannsóknir á stækkun hafnarinnar.

Til flugöryggismála eru ætlaðar 16 millj. kr. og er hér um að ræða endurgreiðslu á láni vegna framkvæmda eða kaupa á flugöryggistækjum, sem farið hafa fram áður.

Í fjáröflun til rafmagnsveitna er stærsti liðurinn til Rafmagnsveitna ríkisins vegna framkvæmda 172 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því, að af þessari fjárhæð fari 59 millj. til framkvæmda við Lagarfossvirkjun, 14 millj. til framkvæmda við Mjólkárvirkjun, Langavatnsmiðlun, og til virkjanarannsókna og hannana fari 3 millj. kr. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að stofnlína verði lögð frá Búrfelli að Hvolsvelli, sem kostar um 20 millj. kr., frá Laxárvirkjun til Þórshafnar, sem kostar 13 millj., frá Hornafirði í Öræfin, sem kostar 6 millj„ og gert er ráð fyrir aðveitustöðvum á Dalvík og Egilsstöðum, 4.5 millj., og spennistöð á Borgarfjarðarkerfi, 2 millj. Þessi liður er áætlaður um 46.5 millj. kr. Þá eru aðrar framkvæmdir, sem eru um 50 millj. kr. eða 57 millj. kr. og meðal þeirra framkvæmda er virkjun ár einnar á Snæfjallaströnd. Þá er gert ráð fyrir því, að 57 millj. kr. fari til framkvæmda í sveitarafveitunum, en það er það fjármagn, sem vantar umfram það, sem áður er útvegað. en 115.3 millj. kr. mundi verða kostnaður við þær á yfirstandandi ári. Af þeim eru 50 millj. á fjárl. og 8.3 millj. heimtaugagjöld. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir, að Rafmagnsveitur ríkisins fái 20 millj. kr. til þess að lengja lán, sem áður hafa verið tekin og er talið ofvaxið rafveitunum að borga nú. Þá er ætlazt til, að 15 millj. fari til vatnsorkurannsókna, til jarðhitarannsókna fari 17 millj. kr. og til jarðvarmaveitna ríkisins er gert ráð fyrir 7 millj. kr. Gert er ráð fyrir því, að það fari til jarðvarmaveitu í Hveragerði, á Eyrarbakka og Stokkseyri og í jarðhitaleitarlán. Til rannsóknastofnananna á Keldnaholti eru ætlaðar 6 millj. kr. og 3 millj. vegna endurbóta á Landssmiðjunni í Reykjavík. Þá er gert ráð fyrir 14 millj. kr. vegna lögreglustöðvarbyggingarinnar hér og svo til að borga af lánum vegna Reykjanesbrautar 45 millj. kr., en á undanförnum árum hefur verið í framkvæmdaáætlun tekið sérstakt lán til þess að greiða af þessum lánum Reykjanesbrautar. Ljóst er, að hér verður að verða breyting á og ekki verður komizt hjá því að útvega fé með öðrum hætti til þess að greiða af þessum lánum.

Þá er og sama að segja um Hafnarfjarðarveg í Kópavogi. Þar er gert ráð fyrir 30 millj. kr. Af því eru 24 millj. vegna afborgana og vaxta af lánum, en aðeins 6 millj. kr. til framkvæmda. Það þarf ekki orðum að því að eyða, að hér er um mun minni fjárhæð að ræða heldur en þeir í Kópavogi fóru fram á, og gerðu þeir ráð fyrir því, að til þess að ná þeim áfanga, sem skilaði verulegu marki, þyrfti 50 millj. í framkvæmdafé á yfirstandandi ári. Við gerð þessarar áætlunar þótti ekki fært að útvega það fjármagn að sinni. Hins vegar er það mál til betri athugunar áfram og einnig verið að athuga, hvaða möguleikar kunna að vera á því að nýta fjármagn til framkvæmda, þótt minna sé.

Þá eru þrír næstu liðir, til Austurlandsvegáætlunar, Norðurlandsvegáætlunar og Skeiðarársandsvegar, en það eru um 270 millj. kr. og kemur þetta fé einnig inn í vegáætlun. Halli varð á framkvæmdaáætlun á árunum 1970 og 1971, og er gert ráð fyrir því að greiða um helming hallans á yfirstandandi ári, en draga aftur þar til síðar það, sem eftir er.

Annar meginþáttur í þessari fjáröflun eða fjárnotkun er það að fjármagna þá fjárfestingarlánasjóði, sem hafa verið fjármagnaðir samkv. fjáröflun á framkvæmdaáætlun. Hér er um allverulega upphæð að ræða, sem á að ná í þessu skyni, og skipting á því fjármagni, sem Framkvæmdasjóður mundi hafa yfir að ráða í sambandi við stofnlánadeildirnar, er sem hér segir: Það er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeild landbúnaðarins fái um 200 millj. kr., en á s. l ári fékk hún fyrst 60 millj. kr. og svo s. l. haust 70 millj. kr. eða samtals 130 millj. á vegum Framkvæmdasjóðs. Heildarútlán deildarinnar urðu 254 millj. á s. l. ári og með þessari fjárútvegun mundi hún geta lánað um 310–320 millj. kr. á næsta ári. Hins vegar er í áætlun deildarinnar gert ráð fyrir því, að útlán verði meiri eða um 350–360 millj. kr., og verður þá síðar á árinu að mæta þeirri fjárþörf, þegar ljóst er, hver hún verður. Hins vegar var ekki talið framkvæmanlegt að útvega deildinni meira að þessu sinni gegnum fjáröflun Framkvæmdasjóðs. Til veðdeildar Búnaðarbankans er gert ráð fyrir að útvega 35 millj. kr., en í framkvæmdaáætlun á s. l. ári var hér um 10 millj. kr. að ræða. Hins vegar er það svo, að deildin hefur ekki alla þessa fjármuni til útlána, vegna þess að hún hefur verið fjármögnuð með bráðabirgðalánum, sem verður að greiða á næsta ári. Ljóst er, að ekki mun þetta nægja veðdeildinni til þess að sinna þeim verkefnum, sem hún þarf að sinna á þessu ári.

Gert er ráð fyrir því, að útlán Fiskveiðasjóðs verði 1051 millj. kr. á árinu 1972, en urðu 853 millj. á s. l ári. Aukningin er um 200 millj. eða 23%. Hlutdeild Fiskveiðasjóðs í lánum Framkvæmdasjóðs nemur um 50% af heildarlánum hans. Enn sem fyrr fer meginhluti af lánveitingum til fiskiskipa, en veigamikil verður þó útlánaaukning Fiskveiðasjóðs á árinu 1972 til vinnslustöðva fiskiðnaðarins, en til þeirra eru ætlaðar 237 millj. kr. Af því eru 127 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við endurbætur vegna aukinna krafna um hreinlæti og hollustuhætti.

Þá er gert ráð fyrir því, að 25 millj. kr. gangi til dráttarbrauta, og í því sambandi eru nefndar dráttarbrautirnar í Njarðvík, Hafnarfirði, Akranesi og Fáskrúðsfirði. Í sambandi við þetta mál vil ég geta sérstaklega um dráttarbrautina á Akranesi, en eins og kunnugt er varð hún fyrir óhappi á þessum vetri, þar sem hún bilaði með mjög alvarlegum afleiðingum. Þetta mál hefur verið til athugunar hjá ríkisstj., því að þann 23. febr. s. l. kom til mín Jósef Þorgeirsson framkvæmdastjóri dráttarbrautarinnar og ræddi fjárhagsvandræði þeirra út af þessu óhappi. Mun hann í sama sinn hafa hitt iðnrh. og rætt þetta einnig við hann. Í framhaldi af því fóru fram viðræður á milli fjmrn. og Seðlabanka Íslands út af þessu máli. Fjmrn. fól hagsýslustofnuninni að gera athugun á þessu og þá enn fremur ástæðunum fyrir því, að þetta óhapp átti sér stað. Hörður Sigurgestsson, starfsmaður í hagsýslustofnuninni, sá um framkvæmd á þessari athugun af hálfu hagsýslustofnunarinnar og hafði sér til ráðuneytis verkfræðing, Stefán Örn Stefánsson. Þeir fóru allmargar ferðir upp á Akranes út af þessu máli, og enn fremur kom hingað til lands einn af fulltrúum fyrirtækis þess, sem seldi skipasmíðastöðinni á Akranesi skipalyftuna. Það er talið ljóst af þeim athugunum, sem fram fóru á þessu máli, að ástæðan til þess að óhappið varð var sú, að vír mun hafa slitnað, þegar verið var að draga bátinn Gissur hvíta upp. Frekari orsök fyrir því, að svo fór, mun ég ekki ræða að þessu sinni, en hins vegar held ég, að það séu ekki neinar ýkjur þó að ég segi, að af hálfu fjmrn. hefur verið lögð allmikil vinna í þetta mál, og var á sínum tíma, það mun hafa verið í marz, haldinn fundur með framkvæmdastjórum fyrirtækisins, bæjarstjóranum á Akranesi, seðlabankastjórunum, verkfræðingnum, sem vann þetta verk hjá hagsýslustofnuninni, og þm. Vesturl. Inn í þetta mál hafa komið að sjálfsögðu margir þættir og m. a. það, að það virðist hafa vakað fyrir þeim á Akranesi að gera sína stöðu betri en áður hefur verið í sambandi við uppbyggingu á þessu fyrirtæki. Hins vegar var það svo, að þann 24. apríl s. l. afhentu trúnaðarmenn hagsýslustofnunarinnar, Hörður Sigurgestsson og Stefán Örn Stefánsson verkfræðingur, mér skýrslu, endanlega skýrslu um málið og tillögur um uppbyggingu. Á næsta fundi ríkisstj.s. l. þriðjudag lagði ég málið fyrir ríkisstj. og var þá samþykkt að fara að tillögum þeirra og bjóða fram útvegun á láni, sem væri um 80% af þeim kostnaði, sem talið var, að fyrirtækið yrði fyrir af þessum ástæðum, og þannig, að sú breyting, sem gerð yrði, mundi nægja til þess að gera notagildi fyrirtækisins eins mikið og það áður var með því að bæta þar við tveimur spilum, en jafnhliða átti svo að stytta bilið á milli spilanna, svo að öryggið átti að verða mun meira. Áður hafði ríkisstj. samþ. að leggja fram fé til þess að aðstoða við að ná skipum þeim, sem voru innilokuð í dráttarbrautinni, niður, og hefur skipasmiðastöðin fengið 2 millj. kr. til þess að koma því í framkvæmd. Og sem betur fór tókst það, og a. m. k. annað skipið, Skinney frá Hornafirði, hefur fiskað verulega síðan hún komst á flot aftur. Ég átti svo viðræður við framkvæmdastjóra fyrirtækisins s. l. miðvikudag eða daginn eftir ráðherrafundinn og skýrði frá þessum athugunum og því tilboði eða því liðsinni, sem ríkisstj. vildi veita vegna þessa óhapps, og það var ákveðið, að mér yrði gefið svar í gær um það, hvort dráttarbrautin eða forustumenn hennar teldu þetta vera á þann veg, að þeir mundu þiggja það. Að sjálfsögðu var enginn að neyða þá til þess að taka þessu, enda hefur til þessa ekki verið talið, að þyrfti að neyða menn til að taka við 25 millj. kr. aðstoð. Svona á milli kl. 3 og 4 í gær hringdi svo forstjórinn til mín og sagði mér það, að hann óskaði eftir því, að þetta mál yrði lagt fyrir þingið eins og gert var ráð fyrir. Ég sá svo hins vegar ekki fyrr en í gærkvöld, vegna þess að ég fór úr bænum snemma í gærmorgun, frásögn í Morgunblaðinu um þetta mál, sem mér þótti með nokkuð kynlegum hætti. Og ég verð að segja það, að ég hef nú litið svo á, að það væri ekki mitt hlutverk eða okkar í ríkisstj. að standa í fjárútvegunum fyrir þetta fyrirtæki, þó að við hins vegar vildum vegna byggðarlagsins — hér er um stórt fyrirtæki að ræða, sem veitir atvinnu 100–150 manns — veita þá aðstoð, sem eðlileg var og mætti verða til þess að tryggja það, að fyrirtækið gæti starfað áfram, og teljum okkur hafa gert það með þessu tilboði, þar sem um er að ræða hagstæðari lán en veitt hafa verið til slíkrar starfsemi og líka án fyrirhafnar af þeirra hendi. Það er svo þeirra mál, hvernig þeir telja eðlilegt að koma fram við menn. Það er ekki mitt að meta það, þó að ég hefði talið það skemmtilegra að fá svar við þessu og geta skýrt frá því í þinginu, áður en það kom fram í blöðum, því að það var mín hugsun, að svo yrði gert.

Ég skal ekki á þessu stigi ræða þennan þátt meira eða fara um hann fleiri orðum. Hins vegar var gert ráð fyrir því að leggja fram till. við framkvæmdaáætlunina eða meðferð hennar hér á þinginu, þar sem fjáröflun þessi væri tekin til athugunar og innlent lán yrði veitt til hennar.

Þá vil ég einnig geta þess, að ég geri ráð fyrir því, að í sambandi við meðferð málsins hér á hv. Alþ. komi fram till. vegna kaupa Landhelgisgæzlunnar á flugvél sem þegar eru ákveðin og vantar heimild fyrir í sambandi við lánið.

Í sambandi við lagafrv. um framkvæmdaáætlun vil ég svo sérstaklega geta tekjuöflunarinnar, sem er annar meginþáttur þessa máls. En ég átti eftir að geta um nokkra útgjaldaliði, sem ég skal lauslega víkja að, og er þar næstur Iðnlánasjóður. Gert er ráð fyrir því, að útlán hans á árinu verði um 150 millj. kr. Hann hafði 12 millj. frá Framkvæmdasjóði á s. l ári, en gert er ráð fyrir 40 millj. til hans núna. Þá er gert ráð fyrir því að hækka verulega lánsútvegun til Lánasjóðs sveitarfélaga og reiknað með, að lánveitingar sjóðsins tvöfaldist frá því á árinu 1971. Hér er gert ráð fyrir 100 millj. kr. lánsútvegun og þar er gert ráð fyrir því, að helztu verkefni sjóðsins verði vegna hitaveituframkvæmda í Hveragerði, Kópavogi og á Seltjarnarnesi og til vatnsveituframkvæmda. Þetta er einn þáttur í því stranga eftirliti, sem nú er hafið með hollustuháttum í matvælaiðnaði, og undirstaða þeirra er að allra dómi gott og öruggt vatn, en víða skortir á, að það sé fyrir hendi, í mörgum byggðarlögum. Þess vegna hefur nú fjárútvegun til Lánasjóðs sveitarfélaga aukizt svona gífurlega mikið, auk þess sem hækkað var framlag til hans á fjárlögum.

Þá er gert ráð fyrir því, að Ferðamálasjóður muni lána um 43 millj. á þessu ári, sem er 5 millj. kr. minna en var á síðastliðnu ári, og að Framkvæmdasjóður láni vegna þess arna 25 millj. Helztu lán sjóðsins er gert ráð fyrir að verði til Húsavíkur, Stykkishólms og til Reykjavíkur vegna Hótel Holts og svo til Flókalundar í Barðastrandarsýslu. Gert er ráð fyrir, að stofnlánasjóður verzlunarfyrirtækja láni 36 millj. á árinu, en þær voru 40 á árinu áður. Hins vegar er gert ráð fyrir, að stofnlánasjóður samvinnuverzlunar fái 10 millj. til útlána á þessu ári.

Þá er fjárútvegun til Byggðasjóðs í þessari áætlun.

Gert er ráð fyrir 75 millj. kr. en það er reiknað með, að útlán hans geti orðið á árinu 372 millj. kr., þar af eru 50 millj. vegna innlendra skipasmíða, og er það veruleg aukning frá því sem áður hefur verið. Sum þessara lána eru framkvæmd á fyrirheitum, sem búið var að gefa þegar Byggðasjóður varð til, og það er gert ráð fyrir því, að svo geti farið, að það þurfi að taka mál hans til sérstakrar athugunar síðar á árinu.

Þá er reiknað með því, að Framkvæmdasjóður taki erlent lán og verði það endurlánað Laxárvirkjun og Áburðarverksmiðju ríkisins, 56 millj. til Áburðarverksmiðju ríkisins og 81 til Laxárvirkjunar. Þessi fjárhæð, 56 millj. mundi nægja til Áburðarverksmiðju ríkisins, hitt orkar miklu meira tvímælis, fjárþörf Laxárvirkjunar, og samkv. þeim áætlunum, sem þeir hafa gert þar, mundi þetta ekki nægja til þess að mæta fjárþörfinni.

Varðandi tekjuhlið þessa þáttar, sem ég hef vikið að, er gert ráð fyrir því, að fjármögnun verði með þeim hætti, að áfram verði haldið með það, að bankarnir láti 10% af auknum innlánum sínum og að svo verði haldið áfram að selja verðtryggð spariskírteini, og á þessu ári verði selt fyrir um 500 millj. 200 millj. eru svo til vegna sölunnar á fyrra ári. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að erlend lántaka vegna framkvæmdaáætlunarinnar verði veruleg, þannig að Fiskveiðasjóður fái til sinna þarfa 330 millj., og vegna framkvæmda sveitarfélaganna verði teknar 70 millj. að láni, og er það hugsað fyrst og fremst í sambandi við hitaveituframkvæmdirnar. Enn fremur, eins og ég gat um áðan, verði erlent lánsfé tekið vegna Laxárvirkjunar og Áburðarverksmiðju ríkisins. Ég geri ráð fyrir því, að fjárþörfin verði meiri en gert er ráð fyrir í frv. um framkvæmdaáætlunina, sem hér liggur fyrir, m. a. vegna aukinna lánveitinga til sveitarfélaga.

Eins og ljóst er af þessari framkvæmdaáætlun, eru tengslin á milli framkvæmdaáætlunarinnar nú og þess, sem áður hefur verið, allveruleg. Mörg af þeim verkefnum, sem hér er unnið að, eru framhaldsverkefni, sem áður voru hafin og þarf að halda áfram við, op er mikill meiri hluti verkefnanna þannig til orðinn. Enn fremur er það svo með lánasjóði atvinnuveganna, eins og Stofnlánadeildina og Fiskveiðasjóð, að þörf þeirra fyrir aukið lánsfé og aukin lán hefur vaxið verulega, vegna þess að framkvæmdir hafa yfirleitt aukizt og eru að aukast og ný verkefni eru að koma til, eins og ég gat um áðan í sambandi við hollustuhættina, uppbyggingu sláturhúsa og fleiri slík stórverkefni, sem ég sé ekki ástæðu til að víkja frekar að.

Hins vegar er það svo, að enda þótt hér sé um verulega aukningu að ræða á framkvæmdum og hækkandi fjárútvegun, bæði til opinberra framkvæmda og einnig til opinberra sjóða, þá er mér það ljóst, að það er mjög langt frá því, að hægt sé að sinna þeim verkefnum, sem nauðsyn ber til og hefði þurft að sinna. Hins vegar eru möguleikar til athafna alltaf takmarkaðir bæði af getu til framkvæmda og þeim afla, sem er til á hverjum tíma, og þess verður náttúrlega alltaf að gæta, að ekki sé gengið lengra í framkvæmdum en svo, að framleiðslan fái til sín það vinnuafl, sem nauðsyn ber til og hægt er að koma þar að. Hitt er svo einnig, að það takmarkast að sjálfsögðu af framleiðslugetu þjóðarinnar fjárhagslega og þeim áhrifum í efnahagsþróuninni, sem slík starfsemi hefur. Mér er það ljóst og hæstv. ríkisstj., að í þessari framkvæmdaáætlun er gengið langt í framkvæmdum og í fjárútvegun. Það er reynt að ná til fjárins hér innanlands, eins og tök eru á og skynsamlegt er talið, og það er reynt líka að hafa hemil á þessum þáttum, þó að erfitt reynist. Það ber brýna nauðsyn til þess að reyna að finna það sparnaðarform á landi hér, sem gerir það að verkum, að um sparnað geti orðið að ræða hjá þjóðinni, og sú fjáröflun eða fjárútvegun, sem hefur verið reynd með sölu spariskírteina, hefur gefizt vel til þeirra hluta, þó að ljóst sé, að hér er um nokkuð dýra leið að ræða. Fleiri form til sparnaðar er nauðsynlegt að reyna, og verður reynt að vinna að því í sambandi við framhaldsvinnu í skattaendurskoðun.

Þá verður reynt að hafa hemil á framkvæmdum ríkisins á þessu ári með þeim hætti, að að sjálfsögðu verður framkvæmdum ríkisins haldið áfram og að þeim unnið, þar sem fullt fjármagn er til af hálfu fjárveitingavaldsins, en hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að ríkisframkvæmdir verði unnar með lánsfé umfram það, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun. Það er öllum ljóst, að nauðsyn ber til að halda einnig þannig á, að fjármagn til atvinnuveganna verði svo sem þörf þeirra með eðlilegum hætti krefst og svo að gangur atvinnulífsins geti nýtzt fullkomlega, því að það er þjóðinni nauðsyn, að svo verði.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, því að skýrsla sú, sem lögð er fram með frv., er eins greinileg og verða má og skýrir þá þætti, sem þar er fjallað um, og ég held, að ekkert sé þar undan dregið. Ég vil hins vegar endurtaka það, að þetta hljóta alltaf að verða tengsl milli fortíðar og nútíðar, það kemur greinilega fram í þessari skýrslu og þessu frv., og svo mun einnig verða á næstu árum. Mörg stór verkefni bíða okkar þar eins og t. d. það, að mæta auknum kröfum í hollustuháttum og uppbyggingu fiskiðnaðar, sláturhúsa og mjólkurbúa. Þetta eru allt stór verkefni, sem fram undan eru, auk þess sem áframhaldandi virkjanir, dreifingu raforkunnar um landið o. fl. o. fl. mætti nefna.

Ég legg svo til herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.