05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tek undir þau ummæli hæstv. fjmrh., að þetta mál er því miður allt of seint á ferðinni. Það hefði verið æskilegt, að það hefði verið komið til umr. og athugunar þingsins miklu fyrr heldur en nú, eins og það hefði einnig verið æskilegt, að þm. hefðu fengið að kynna sér málavöxtu, kynna sér hin miklu fskj. með frv. fyrr en átt hefur sér stað, en þeir munu hafa séð skýrsluna, sem fylgir, fyrst nú á þessum fundi almennt. Það er því ekki ástæða til þess að ræða málið efnislega ítarlega á þessu stigi. Það verður verkefni n. Og ég skal einnig taka það fram, að ég tel sjálfsagt, eins og þinghaldi nú er hagað, að greiða fyrir því, að málið komist til n. í dag. En þar hlýtur málið að fá mjög rækilega athugun.

Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á nokkur grundvallaratriði, sem skipta meginmáli í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða. Ég vil fyrst minna á þá miklu verðbólguþróun, sem á sér stað. En mat þessa máls hlýtur að eiga sér stað í því ljósi, að íslenzk þjóð er nú að upplifa mikla og öra verðbólguþróun. Þeir eru meira að segja til, sem telja, og álíta sig jafnvel geta gert það með gildum rökum, að verðbólguvöxturinn sé nú þessa mánuðina örari en hann hefur nokkru sinni verið áður síðan á styrjaldarárunum. Hvort sem þetta mat er rétt eða ekki, þá getur enginn ágreiningur verið um það, að verðbólguvöxturinn er mikill og hann fer vaxandi frá mánuði til mánaðar. Það verður að hafa í huga, þegar þetta frv. um framkvæmdaáætlun ríkisins er skoðað. Meginspurningin í sambandi við það er þessi: Er þessi framkvæmdaáætlun, sem við fáum nú lagða fyrir okkur, líkleg til þess að örva verðbólguþróunina, til þess að auka verðbólguhættuna eða draga úr henni? Mat okkar á þeim fyrirætlunum, sem hér er um að ræða, hlýtur fyrst og fremst að byggjast á þessu meginatriði. Ekki þarf að minna á það, hverjar afleiðingar verðbólga, að ég ekki tali um ört vaxandi verðbólga, hefur. Meginhættan, sem verðbólga hefur í för með sér, er sú, að hún stofnar verðgildi krónunnar í hættu og þar með sönnum hag allra launþega í landinu. Afleiðingarnar af verðbólguþróun út á við eru auðvitað þær, að afkoman gagnvart útlöndum er í hættu. Það er hætt við því, að sá gjaldeyrisvarasjóður, sem þjóðin hefur eignazt með skynsamlegri fjármálastjórn, efnahagsstjórn á undanförnum árum, hverfi smám saman og gamla skuldasúpan komi í staðinn. Allt bendir til þess, að á þessu ári muni verða verulegur halli í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd, sem ekki er hægt að jafna öðruvísi en þannig að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn, og þeim mun meir sem verðbólgan eykst, þeim mun örari hlýtur minnkun gjaldeyrisvarasjóðsins að verða.

Ef nokkur meginatriði þessarar skýrslu eru skoðuð, þá er niðurstaðan þessi: Í fyrra var heildarfjáröflun til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða, 778 millj. kr. Framkvæmdirnar voru 778 millj. kr. Á þessu ári er gert ráð fyrir heildarframkvæmdum og heildarfjáröflun að upphæð 2022 millj. kr. Heildarframkvæmdamagnið og þar af leiðandi nauðsynleg fjáröflun til þess næstum því þrefaldast. Dettur nokkrum manni annað í hug en að þreföldun á framkvæmdamagni og fjáröflun til slíkra framkvæmda hljóti að hafa verðbólguaukandi áhrif undir þeim kringumstæðum, sem nú eru í íslenzku efnahagslífi? Ég held, að engum manni, sem af alvöru skoðar málið, ég held, að engum alþm. geti blandazt hugur um það, að þreföldun á framkvæmdamagni eða fjáröflun, hvort sem hún er innlend eða erlend, hlýtur að hafa verðbólguaukandi áhrif. Innlenda fjáröflunin var í fyrra upphaflega ráðgerð 75 millj. kr. Síðan voru seld spariskírteini undir árslokin fyrir 200 millj. kr., þannig að innlend fjáröflun með sölu spariskírteina var í fyrra 275 millj. kr. Samkv. skýrslunni er hún nú áætluð 500 millj. kr. að viðbættu Skeiðarársandsláninu, sem þegar hefur verið boðið út og nemur 100 millj. kr. Það verður því a. m. k. um 600 millj. kr. fjáröflun með sölu spariskírteina að ræða á þessu ári. Hér er um meira en tvöföldun á innlendri fjáröflun með sölu spariskírteina að ræða. Þetta bendir enn í sömu átt. Slíkar ráðstafanir geta ekki annað en haft verðbólguaukandi áhrif, ef efnahagsstefnan væri ekki að öðru leyti þannig, að þessar ráðstafanir hefðu ekki þessi áhrif. Þess vil ég svo geta, að lántökur erlendis eiga að minnka, en það vegur engan veginn upp á móti þeirri miklu aukningu, sem verður á innlendu fjáröfluninni. Ég saknaði þess í ræðu hæstv. fjmrh., að hann gæfi upplýsingar um, hvernig hugmyndin væri að selja þau spariskírteini, sem hér er um að ræða. Sú spurning hlýtur að vakna: Hefur verið samið við bankana um að kaupa einhvern aukinn hluta af spariskírteinum ríkissjóðs miðað við það, sem áður hefur átt sér stað? Engar upplýsingar hafa verið gefnar um það, og ég dreg mjög í efa af reynslu fyrri ára, að bankarnir væru fúsir til þess að auka kaup sín á spariskírteinum. Ef það er rétt, þá hlýtur þessi aukna spariskírteinasala ríkissjóðs að verða bein samkeppni við banka og sparisjóði um sparifé landsmanna.

Ég minni á það, að sparnaður er nú áætlaður minni en hann var í fyrra. Ef litið er á sparnað í hlutfalli við þjóðartekjur, þá var hann í fyrra 26% af þjóðartekjunum. Í þeirri skýrslu, sem við höfum fengið núna, er sparnaðurinn áætlaður aðeins 23% af þjóðartekjunum. Sérfræðingar ríkisstj. gera því ráð fyrir minnkandi sparnaði, en um leið er gert ráð fyrir því að þrefalda opinberar framkvæmdir. Samfara minnkandi sparnaði, sem er eini raunverulegi grundvöllurinn undir auknum framkvæmdum, eiga því framkvæmdir að þrefaldast. Þetta hlýtur enn að stuðla að því, sem ég sagði áðan, að þær fyrirætlanir, sem hér eru á prjónunum, ef ekki annað kæmi þar á móti, hljóta að verka verðbólguaukandi. Meginspurningin, sem hér þarf að athuga í n. og fá svarað, er, hvaða athugun hefur verið gerð á því, hvernig það framkvæmdamagn, sem hér er gert ráð fyrir, samrýmist öðrum þáttum í efnahagslífinu, samrýmist öðrum þáttum efnahagskerfisins. Það er auðvitað hægt að halda uppi því framkvæmdamagni, sem hér er gert ráð fyrir, það er auðvitað hægt að auka framkvæmdir, auka opinberar framkvæmdir, eins og hér er gert ráð fyrir, en þá verður efnahagsstefnan að öðru leyti að vera þannig, að hún geri það kleift. Og það er það, sem mér sýnist hér alvarlega skorta á. Það er ekki um að ræða samræmi milli framkvæmdastefnu ríkisstj. annars vegar og svo stefnu hennar í efnahagsmálum að öðru leyti hins vegar. Það vantar m. ö. o. samræmda heildarstefnu af hálfu ríkisstj. í efnahagsmálunum. Mér býður í grun, að þessi skýrsla sé enn ein staðfesting á því, að í raun og veru hafi ríkisstj. enga heildarstefnu í efnahagsmálum. Því miður lætur hún reka á reiðanum. Hún stjórnar ekki, heldur lætur stjórnast fyrst og fremst af alvarlegu innbyrðis ósamkomulagi milli stjórnarflokkanna, og slíkt kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra. Sem dæmi um það, að hér er virkilega alvarlegur vandi á ferðinni, vil ég aðeins nefna, að til þess að gera þær framkvæmdir í byggingarstarfsemi að raunveruleika, sem ráðgerðar eru í skýrslunni, þá mun þurfa að fjölga í byggingarstarfsemi, auka mannaflann sem svarar til þúsund mannára, þ. e. til starfsemi þúsund manns í heilt ár. Og þetta er eingöngu á sviði byggingarstarfseminnar. En venjuleg og eðlileg aukning á mannafla er um 1700 manns, þ. e. 1700 mannár. M. ö. o., hér er gert ráð fyrir því, að 2/3 hlutum af eðlilegri aukningu mannafla verði varið eingöngu í þágu byggingarstarfsemi, og þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort afgangur mannaflans er nægilegur til þess að standa undir öðrum framkvæmdum og þá þeim framkvæmdum, sem auðvitað eru nauðsynlegastar af öllum framkvæmdum, framkvæmdum í þágu atvinnuveganna. Hefur þetta verið athugað eða er hér algerlega látið reka á reiðanum? Þetta eru spurningar, sem síðar verður að athuga nánar og hlýtur að fást svar við.

Því miður virðist mér við fljótlega athugun á þeim viðamiklu skýrslum, sem hér er um að ræða, vera enn eitt dæmi um það, hvernig veikar ríkisstj. leysa mikilvæg vandamál, þ. e. með því að taka í raun og veru alls ekki á þeim, heldur með því, eins og ég sagði, að láta reka á reiðanum. Afleiðingin af slíku stjórnleysi er alltaf ein og hin sama, aukin verðbólga. Veikar ríkisstj. leysa sinn vanda að svo miklu leyti sem lausn má kalla einmitt á þann máta, að afleiðingin verður aukin verðbólga. Við fyrstu lauslegu athugun á þessum gögnum virðist vera ómögulegt að draga aðra ályktun en þá, að sú framkvæmdastefna, sem hér er boðuð, sé ekki í samræmi við stefnu ríkisvaldsins í efnahagsmálum á öðrum sviðum eða m. ö. o. eitt dæmi um það, að það skortir heildarstefnu í efnahagsmálunum. En þegar slíkt á sér stað, er þjóðinni boðið upp á aukna verðbólgu. Og það er það, sem ég óttast og óttast í vaxandi mæli með hverjum deginum sem líður, að óðfluga stefni til sívaxandi verðbólgu, og þá eru sannarlega miklir erfiðleikar fram undan.

Ég vil síðan að endingu endurtaka það, að ég tel sjálfsagt að stuðla að því, að þessari 1. umr. geti lokið í dag, þannig að málið komist til n. N. þarf sannarlega góðan tíma til þess að athuga það mikla vandamál sem því miður er hér á ferðinni.