05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta umr. um þau atriði, sem fram hafa komið hér í ræðum hv. þm., enda var það ósk mín að koma þessu máli til n. nú, og síðar getum við talað um þau efnisatriði, sem fram komu í þeirra ræðum. Það eru aðeins tvö atriði, sem voru beinar spurningar og ég vildi svara.

Það var í ræðu hv. 1. þm. Reykv., Jóhanns Hafstein, um 15 millj. kr. framlag til Iðnlánasjóðs, sem hann gerir ráð fyrir, að ríkissjóður bæti við samkv. frv. hans hér í þinginu. Ég vil segja um þetta, að það er ekki gert ráð fyrir því. Ég hef ekki gert ráð fyrir því, að þau frv., sem kynnu að verða afgreidd hér á þessu þingi og útgjöldum valda úr ríkissjóði, gætu komið til framkvæmda á þessu ári, enda hefur það yfirleitt ekki verið venjan. Það er ekki gert ráð fyrir því.

Í öðru lagi vildi ég svara því, sem hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, spurði um, hvort gert hafi verið samkomulag við bankana um að kaupa hluta af spariskírteinunum. Það hefur ekki verið gert samkomulag við bankana um annað en 10% af innstæðuaukningunni, eins og verið hefur. Þessi spariskírteini verða, eins og spariskírteini hafa verið, seld á frjálsum markaði, og hefur ekki verið samið um þá sölu.

Frekar skal ég ekki fara út í umr. um þetta mál nema annað tilefni gefist til en fram er komið, því að þó að ég hafi ýmsar aths. við það að gera, þá skal ég fús ganga til þess samkomulags, að þar sem skýrsla þessi var ekki lögð á borð þm. fyrr en í dag, þá hafi þeir tíma til þess að skoða hana, áður en frekari umr. verði um þetta mál.