05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vildi ræða hér við þessa 1. umr., út af því frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1972, sem hér liggur fyrir. Og þá vildi ég gjarnan undirstrika það strax í upphafi máls míns, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. var að tala um núna áðan, að ég fæ ekki séð, hvers konar reglu hefur verið beitt í þessari áætlunargerð, þegar ákveðið hefur verið fjármagn til svonefndrar Norðurlandsáætlunar og Austurlandsáætlunar. Austurlandsáætlun er eins og kunnugt er einungis fyrir eitt kjördæmi og var byrjað á þeirri áætlun í fyrra. Þar er um samgönguáætlun að ræða og það er ætlazt til, að varið sé 75 millj. kr. til þessarar áætlunar í ár. Á Norðurlandi, sem nær yfir tvö kjördæmi og ríflega það, þar sem mér hefur borizt vitneskja um, að a. m. k. 13–14 millj. af þessu fé verði varið til Strandasýslu, er einungis ætlað að verja 100 millj. kr. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. fjmrh., hvers konar regla eða óregla hefur verið notuð til þess að finna út þessar tvær tölur, 75 millj. kr. til Austurlandsáætlunar og 100 millj. kr. til Norðurlandsáætlunar. Ég vildi gjarna fá greinargóð svör við því, hvaða regla hefur verið notuð. (Gripið fram í.) Þetta er allt önnur áætlun heldur en hæstv. fjmrh. heldur, sem hefur verið rætt um hér á þingi, að hafi verið kannske illa gerð og hafi ekki verið nema drög eða í versta tilfelli það. Hér er um að ræða vegáætlun fyrir Norðurland, sem hefur verið gerð m. a. undir yfirstjórn núv. hæstv. ríkisstj. Ég vona að það sé góð áætlun. En ég vildi gjarnan fá einhver svör um þetta atriði.

Í þessu þskj. stendur hér síðast, — það finnst mér nú einna athyglisverðasta setningin í þessu þskj., — þar stendur á þá leið, að með tilliti til þess, að fjáröflunarmöguleikar verði að teljast fullnýttir, algerlega fullnýttir með þeim áformum, sem hér eru um lántökur, þá sé ekki hægt að gera meira á þessu ári heldur en í þessari áætlun stendur. Þetta má vel vera, að megi til sanns vegar færa. En hvernig á þá að fara með fjárvöntun t. d. í húsnæðismálakerfið? Hvað vantar mikið fjármagn í húsnæðismálakerfið til þess að hægt sé að framkvæma það sama í húsbyggingum á þessu ári og á síðasta ári? Hvað vantar mikið? Ef fjáröflunarmöguleikar eru fullnýttir í þjóðfélaginu í dag með þessari áætlun, hvernig fer þá með húsbyggingar í landinu? Mér skilst, að það vanti 350–500 millj. til þess að hægt sé að gera það sama og á síðasta ári í húsnæðismálakerfinu. Ég hefði gjarnan viljað fá svör við því, hvernig hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hugsa sér að leysa þau mál.

Annars má segja, að óðaverðbólgan, sem er að skella yfir og er skollin yfir efnahagskerfi okkar í dag, setji mark sitt á þetta frv. í einu og öllu. Það er í rauninni umhugsunarvert, hvernig hægt er í raun og veru að leggja fram slíkt frv., sem hæstv. ráðh. taldi hér, að væri í raun og veru seinni hluti fjárlaga, án þess að gera grein fyrir því, hvernig þetta frv. er hugsað við þær aðstæður, sem nú eru uppi. Það kom fram hér í ræðum hv. 1. þm. Reykv. og 7. þm. Reykv., hve alvarlegt ástand er hér um að ræða. Ég vil aðeins til að leggja áherzlu á það benda á, að launakostnaður atvinnuveganna mun sennilega hækka um nærfellt 30% frá því í des. í fyrra, um nærfellt 30% á þessu ári, þegar reiknað er með því, hvernig vinnutímastyttingin, orlofshækkunin, grunnkaupshækkunin og vísitöluhækkanir verka á launakostnað atvinnuveganna. Og mér er næst að spyrja hæstv. ráðh., hversu mikið hann telji, að þessi hækkun á launakostnaði atvinnuveganna og þ. á m. hins opinbera muni draga úr framkvæmdamagni eftir þessari áætlun, sem hér er til umr.

Annars ætla ég ekki að ræða þessa óheillaþróun, sem því miður er orðin. Ég hef orð hæstv. forsrh. fyrir því, að þetta var með öðrum hætti, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Hann svaraði mér hér í haust því til, þegar ég spurði hann eftir því, hvort ríkisstj. hefði haft gögn og hefði kynnt sér rækilega ástand efnahagsmála og gjaldþol atvinnuveganna, þegar hún gerði sinn málefnasamning um það, að hægt væri að hækka kaup, rauntekjur lægst launuðu stétta þjóðfélagsins um 20%, stytta vinnuviku og lengja orlof, hvort hún hefði haft gögn um þetta, að þetta væri hægt að gera. Og hæstv. ráðh. sagði það þá, að ríkisstj. hefði tekið þessa ákvörðun að mjög vel athuguðu máli, og þess vegna tel ég, að hann hafi þá undirstrikað það rækilega, að ástand efnahagsmála var slíkt við valdatöku núv. ríkisstj., að þetta hefði verið hægt að gera með fyrirhyggju, ef fyrirhyggja hefði ráðið. Þess vegna vil ég líka undirstrika það, að þetta ástand efnahagsmálanna, sem ég tel að sé svo alvarlegt, að hæstv. ríkisstj. geri sér kannske ekki grein fyrir því enn, hvað það er alvarlegt, það sé slíkt, að það muni á næstunni valda verulegum vandræðum og því, að þessi áætlun hér muni skerðast stórkostlega í framkvæmdinni, að framkvæmdamagn þess fjármagns, sem hér er ætlað að afla, skerðist stórkostlega.

Það er kannske rétt að henda á það hér, að þegar fyrrv. vinstri stjórn sat að völdum í landinu árið 1958, þá var einungis deilt um 8% kauphækkun, og þá sagði þáv. forsrh., sem var raunsær maður, að það væri slík óðaverðbólga skollin yfir og engin samstaða væri um úrræði í ríkisstj. til þess að leysa þau, en þá var einungis um 8% kauphækkun að ræða. Nú er að vísu annað uppi á teningnum. Nú eru til sjóðir. Það eru til fyrningar frá fyrrv. ríkisstj., það voru til 4.7 milljarðar að mér skilst um síðustu áramót í gjaldeyrisvarasjóðnum. En sérfræðingar hæstv. ríkisstj. benda á það, að á þessu ári muni gjaldeyrisvarasjóðurinn sennilega rýrna um helming með því áframhaldi, sem nú er á þessum málum.

Ég vil aðeins bara benda hæstv. ráðh. á það, af því að þeir eru nú hér viðstaddir, að það eru fleiri en ég, sem hafa áhyggjur af þeirri þróun, sem er fram undan. Ég las það í Nýju landi, málgagni eins stjórnarflokksins, sem styður núv. hæstv. ríkisstj. Þar skrifar hv. þm. Bjarni Guðnason leiðara og hann er líka áhyggjufullur út af þessari verðbólguskriðu, sem nú er að skella yfir okkur. Hann segir svo, með leyfi forseta, í þessari grein sinni:

„Verðbólgan étur fljótt upp allar kjarabætur launþega, elur á gróðabralli, ruglar öllum lífsverðmætum. Takist þessari ríkisstj. ekki að ganga í skrokk á verðbólgunni og halda henni í skefjum með skipulegum aðgerðum, étur verðbólgan sjálfa ríkisstj.

Ég vildi aðeins benda hæstv. ráðh. á þessa grein, ef þeir hafa ekki lesið hana. Hún er mjög lærdómsrík.

Ég ætlaði fyrst og fremst að fá upplýsingar um það, sem ég spurði hér um fyrst. Ég gat ekki stillt mig um að ræða svolítið þann bakgrunn, sem þetta frv. til l. um framkvæmdaáætlun og fjáröflunaráætlun ríkisstj. er byggt á, og vara enn hæstv. ríkisstj. við því, hvað er að gerast í efnahagsmálum okkar. En ég vildi gjarnan fá svar við þessum spurningum mínum, sem ég spurði hæstv. fjmrh. að áðan. Í fyrsta lagi, hvaða regla hefur verið notuð til þess að áætla, að til Norðurlandsáætlunar í vega- og samgöngumálum þurfi 100 millj. kr. til tveggja kjördæma og einnar sýslu, en 75 millj. kr. til Austfjarða? Hv. þm. Stefán Valgeirsson, 3. þm. Norðurl. e. hefur lýst fyrir þingheimi ástandinu í vegamálum á Norðurlandi á mjög dramatískan hátt. Hann lýsti því þannig, að það væru í rauninni ekki vegir, sem við færum á Norðurl. e., heldur færum við oft og tíðum frekar um skurðina, sem væru sitt hvorum megin við vegina, þannig að ég held, að hv. stjórnarsinnar hljóti að gera sér ljóst, að ástand í vegamálum á Norðurlandi er mjög alvarlegt, og ég vildi gjarnan fá upplýst, hvers konar regla hafi þarna verið viðhöfð. Og í öðru lagi, ef allir lánsmöguleikar eru tæmdir, hvað á að gera í húsnæðismálum á þessu ári? Mér skilst, að þar vanti 350–500 millj. kr. til þess að halda því framkvæmdamagni, sem var á s. l. ári.