13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þessi fsp. hv. 1. þm. Sunnl. sýndi það og sannaði, sem reyndar var vitað, að margt var eftir á óskalistanum, þó að mikið hefði verið tekið. Það er nú svo, að margt smátt gerir eitt stórt, og þannig reynist það í þessu tilfelli. En út af fsp. hv. þm. vil ég segja það, að samkv. upplýsingum, sem ég fékk um þessa lögn, þá var talið sama, þó að hún kæmi í byrjun næsta árs, og það er gert ráð fyrir því að afla fjár til hennar við slíka fjármagnsútvegun, sem hér er á ferðinni, á árinu 1973.

Í sambandi við það, sem fram hefur komið í ræðum hv. frsm., skal ég fara fljótt yfir sögu. Hitt langar mig til að minna á, því að menn eru oft fljótir að gleyma, að þann 16. marz 1971 var útbýtt hér á hv. Alþ. frv. til framkvæmdaáætlunar af fyrrv. ríkisstj., en 7. apríl lauk þingi. Mér sýnist, eftir því sem horfur eru á um þingslit nú, að muni muna einum degi. Það líði einum degi lengra frá því að þessari framkvæmdaáætlun er útbýtt á hv. Alþ. og þar til þingi lýkur en varð í fyrra. Þetta er svona til gamans gert, vafalaust hef ég og einhverjir fleiri gert aths. við það á fyrri árum, að áætlunin væri seint á ferðinni, en það er þá jafnt á komið eftir þetta.

Ég vil líka geta þess vegna þess, sem hv. 1. þm. Reykn. sagði hér um þá tilhögun núv. ríkisstj. að selja svo kallaða ríkissjóðsvíxla, að eitt af þeim bréfum, sem lágu á borðinu í fjmrn., þegar ég kom þar, var till. frá Seðlabankanum um það, að ríkissjóður fjármagnaði sína lánsfjárþörf með ríkissjóðsvíxlum hluta af árinu, þegar bezt væri að selja þá í bönkunum og ríkissjóður þyrfti á mestum yfirdrætti að halda. Rökin fyrir þessu voru þau, að það gæti orðið mjög óheppilegt fyrir viðskiptabankana að þurfa að verða úti með þá fjármuni að haustinu, sem þeir yrðu endilega að verða úti með vegna ríkissjóðsinnheimtunnar, og væri því betra að dreifa þessu á lengra tímabil. Önnur till. var og í þessu bréfi, þar sem bent var á þá leið, að heppilegt væri, að ríkissjóður gæti komið sér upp rekstrarlánasjóði. Fyrrv. fjmrh. skrifaði á spássíu bréfsins: „Mjög athyglisverð till., en verður að bíða fram yfir kosningar.“ Ég tek undir það, að báðar eru till. athyglisverðar. Og það er ekki það, að verið sé að bæta úr vandræðum ríkissjóðs í þessu tilfelli, heldur er verið að jafna um ekki sízt fyrir viðskiptabankana, og ástæðan til þess, að flestir viðskiptabankarnir urðu í skuld við Seðlabankann 31. des. s. l., var fyrst og fremst sú, að t. d. þann dag fékk ríkissjóður inn um 600 millj. kr. Það er þessi sveifla, sem er verið að reyna að vinna á móti með skynsamlegum hætti. Þessir hv. þm. mega kalla þessa leið hvað sem þá langar til og þá lystir, en leiðin er rétt og skynsamleg og hana á að nota að því marki sem framkvæmanlegt er.

Ég hef að vísu sagt það svo oft áður, að ég þarf ekki að endurtaka það, en það var tiltölulega létt verk að hækka útgjöld fjárlaga fyrir árið 1972, vegna þess að svo mikill hluti var yfirfærsla frá fyrrv. ríkisstj. Mig hefur oft undrað það, og það síðast í gærkvöld, að heyra ráðh. úr fyrrv. ríkisstj. halda því fram, að fjárlög hafi hækkað um 50% 1971–1972, og veit hann þó vel, hvað skilið var eftir af útgjöldum ársins 1971. Dettur nokkrum hv. þm. í hug, að það sé hægt að gera samning um launakjör, sem kostar 1 milljarð, og láta það ekki koma fram í fjárlögum, þegar útgjöldin eru færð þar? Eða dettur nokkrum hv. þm. í hug, að þessi útgjöld hafi ekki orðið á árinu 1971, þótt þess sé í engu getið í fjárlögum þess árs? (Gripið fram í.) Það er ekki verið að ræða um það, hv. þm., hvað farið er fram úr fjárlögum núna, enda kannske of snemmt að fara að segja til um það, en það vil ég segja þessum hv. þm., að það lágu ekki eftir neinar 400 millj. við fjárlagagerðina í vetur, sem vitað var um að yrði þó að greiða. En það var gert 1971 með launasamningnum. Og dettur nokkrum hv. þm. í hug að halda því fram, að það sé hægt að nota malflutning eins og þann, að þegar ákvörðun var tekin hér á hv. Alþ. um að hækka tekjur Vegasjóðs um 236 millj. vegna hækkunar á benzíni og þungaskatti, var þess einskis getið í útgjöldum, en það urðu samt útgjöld á árinu 1971, — er það nokkur háttur í málflutningi að tala um þetta eins og það hafi ekki verið til? Menn eiga ekki að venja sig á slíkan málflutning. Hann kann engu að þjóna nema því að reyna að blekkja þá, sem ekki fylgjast með málunum.

Nú skal ég ekki láta það eftir mér að fara út í frekari umr. um fjármál eða fjárlagaafgreiðslu að þessu sinni. Ég vil bara segja þetta, vegna þess að hv. 1. þm. Reykn. vitnaði í orð mín í sambandi við verðbólguna: Það er alveg rétt. Til þess að fást við verðbólgu þarf markvissa stefnu og þrotlaust starf. Og það er afskaplega langt frá því, að ríkisstj. hafi á þeim mánuðum, sem hún hefur setið, getað tekið svo á því verki, að verulegur árangur hafi orðið, þó að nokkur hafi hann orðið, því að það vita allir, sem hafa kynnt sér þær kröfur, sem farið hefur verið fram á í sambandi við hækkanir, þar sem alltaf hefur verið vitnað í það, sem áður var, það vita allir, að það er langt frá því, að orðið hafi verið við þeim kröfum eins og til var ætlazt.

Það er alveg rétt, að þessi framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir miklum framkvæmdum. Það er líka rétt, að hún gerir ráð fyrir meiri framkvæmd en framkvæmdaáætlunin 1971. En það urðu bara allt aðrar og meiri framkvæmdir og fjármagnsþörfin 1971 varð margfalt meiri en framkvæmdaáætlunin gerði ráð fyrir. Ég vil nefna eitt lítið dæmi, sem ég er kunnugur vel, og það er Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það var gert ráð fyrir því í upphaflegri framkvæmdaáætlun, sem alltaf er verið að vitna í nú, að Stofnlánadeildin þyrfti 60 millj. kr. til útlána. Hvernig var þessu svo bjargað? Með því, að Framkvæmdasjóðurinn lánaði 70 millj. síðar á árinu, sem ekki er getið um í framkvæmdaáætlun, og til viðbótar var fengið lán í Seðlabankanum. Það er hægt að hafa margvíslegar aðferðir. Ef miðað er við upphaflegu áætlunina, þá er hér um margföldun að ræða. En ef miðað er við það, sem raunverulega varð, þá kemur allt annað upp. Og það mundi í engu bæta um, hvorki fyrir ríkisstj., hv. Alþ. né þjóðfélagið, þó að í gerð þessarar áætlunar hefði t. d. verið reiknað með því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins þyrfti ekki nema 60, 70, 80 millj. kr. Það vita allir, að hún þarf miklu meira, og er vel, ef þetta dugar. Ég vil hins vegar segja það, ég er alveg sammála því, að hér er um miklar og háar tölur að ræða. Og ég get verið sammála um margt, sem að þessu lýtur, og það er auðvelt að tala um þetta þannig. En þegar á að fara að ræða um það, hvað það er, sem á að draga úr eða skera niður til þess að hægt sé að lækka þessar fjárhæðir, hver hefur þá till.? Ég hef ekki heyrt nokkurn hv. þm. nefna till. þar að lútandi, nema til hækkunar. Það er hægt að tala um, að það eigi t. d. að draga úr fjárútvegun til Fiskveiðasjóðs, en hvernig á að gera það? Er ekki verið að tala hér oft og mörgum sinnum á hv. Alþ. um það, að fjárþörfin til þess að koma frystihúsum okkar í það lag, að við séum ekki í hættu með okkar útflutning á fiskafurðum, hún skipti milljörðum. Á árinu 1972 á að byrja þetta verk með nokkrum hundruðum milljóna. Það hækkar auðvitað fjárþörfina hjá Fiskveiðasjóði og þörfina fyrir að útvega þetta fjármagn. Sama er að segja um skipasmíðastöðvarnar. Eru ekki alltaf umr. hér á hv. Alþ. og almennt um það að efla innlenda skipasmíði? En um leið og við eflum innlenda skipasmíði verðum við að sjá Fiskveiðasjóði fyrir fjármagni til að geta lánað þeim stöðvum, sem eru að byggja skipin, annars getur þetta ekki gengið og rekstur þeirra kemst í strand.

Það má halda áfram og telja upp fleira. Það var t. d. mat hæstv. ríkisstj., að fjárþörf Lánasjóðs sveitarfélaga væri óeðlilega mikil og það væri í raun og veru ofrausn að ætla Lánasjóði sveitarfélaga svo mikið, það mundi auka á spennuna í þjóðfélaginu. En við nánari athugun kom í ljós, að mörg þessi sveitarfélög höfðu gert samninga um hitaveituframkvæmdir, um vatnsveituframkvæmdir, sem voru svo bráðnauðsynlegar, að það var talið, að þörf væri á og ekki hægt að komast hjá því raunverulega að útvega þetta fé. Þannig mætti lengi telja. Það er auðvelt að tala um að draga úr þessu, þegar talað er um þetta í heild, en þegar á að fara að vinna að þessu sem einstökum þáttum, þá kemur annað upp. Og hverjum dettur í hug, að hægt sé t. d. að draga úr framkvæmdunum við virkjanirnar? Það voru gerðar athuganir á því, hvort fjármagnsþörf Laxárvirkjunar væri slík, að það væri þörf á að útvega það fé, sem talið var að þyrfti. Við nánari athugun kom í ljós, að framkvæmdaaðilinn var búinn að gera vinnusamning, sem mundi kosta skaðabætur, ef ekki væri staðið við hann. Þess vegna var horfið að því ráði að auka lánsheimildina með brtt., sem fjhn. ber hér fram. Þannig mætti lengi telja, en ég skal ekki eyða orðum í það. Ég vil hins vegar segja, að það er kannske ekki nýtt, að erfitt sé að finna leiðir, sem mönnum líki. Það er á sama tíma talað um, að allt verði þetta til að auka spennuna í þjóðfélaginu. Og það er rétt, sem hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sagði áðan, að það, sem skiptir mestu máli í sambandi við þessar framkvæmdir, eru heildarframkvæmdir þjóðarinnar.

Ríkisstj. hefur með þessu metið fjárþörfina hjá hinu opinbera, og með þeim tilraunum til fjáröflunar, sem hún gerir, hlýtur það að hafa áhrif á framkvæmdir einkaaðila. Ég fæ hins vegar ekki skilið það, að hægt sé að halda því fram samtímis, að ekkert sé gert til að draga úr spennunni og fordæma svo einnig það að fara út í sölu á spariskírteinum. Frá mínum bæjardyrum séð hefur það þau áhrif, að dregur úr spennunni. Það hefur einnig þau áhrif, að mínu mati, að tilraun er gerð til að auka sparnað. Þetta sparnaðarfyrirkomulag hefur hlotið þær vinsældir, að fólk sækir í það. Hitt þarf ekki að orðlengja, að þeir peningar, sem fara í það að kaupa skuldabréf, eru ekki lagðir inn á sparisjóðsbók, — það vita allir og þarf ekki orðum að því að eyða. En ég held, að okkur sé nauðsynlegt að finna fleiri sparnaðarform en við nú höfum og að þetta sé eitt af þeim, sem við eigum að nota. Og ég fæ ekki skilið þá túlkun, að það sé á sama tíma hægt að skamma fyrir það, að ekkert sé gert til að draga úr spennu, og einnig að afla teknanna með þessum hætti. Ég álít að það fari ekki saman, því að ef ætti að afla þessara tekna með lántökum á annan hátt, mætti frekar leggja það þannig út. Það, sem væri svo heppilegri leið að dómi þeirra hv. þm. sem þannig tala, er sú eina leið, sem má segja að við höfum verið of varfærnir við, og það er að innheimta meira í sköttum, eða bein tekjuöflun. Það er sennilega það, sem má mest á okkur deila fyrir. Og það er náttúrlega sjálfsagt að taka það til alvarlegrar athugunar. (Gripið fram í: Er kannske von á því?) Ég skal nú ekki svara fyrir framtíðina, hv. þm. Ég geri ráð fyrir því, að það geti aldrei farið svo, að ekki verði innheimtir meiri skattar en nú er á þessu landi. Það bæri þá til nýrri tíðinda.

Ég man, að Morgunblaðið hringdi til mín nú fyrir nokkru og spurði, hvort væntanlegur væri benzínskattur. Ég þakkaði þeim fyrir að benda mér á, að þarna væri þá tekjuleið til sem yrði að taka til athugunar síðar. En ég er ekki að boða hér, að það eigi að gera. Það er ekki hægt að halda því fram, að draga eigi úr þenslu, ef á ekki með einhverjum hætti að ná til fjármagnsins, sem er í umferð. Sú leið, sem ríkisstj. hefur valið nú, er þetta sparnaðarform, og það verður ekki með rökum hægt að segja, að það sé verðbólguaukandi.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Enda þótt ýmislegt hafi komið hér fram, sem gæfi tilefni til frekari umr., þá sé ég ekki ástæðu til þess. Ég vil hins vegar undirstrika það, að það, sem hér er að gerast, er kannske fyrst og fremst að halda áfram að fjármagna framkvæmdir, sem hafnar voru. Það er verið að fjármagna framkvæmdir til að styrkja stöðu atvinnuveganna með auknum fiskiskipaflota með því að tryggja skipasmíðastöðvunum fjármagn. Það er verið að fjármagna stofnlánadeildirnar, eins og t. d. Stofnlánadeild landbúnaðarins með eðlilegri uppbyggingu í landbúnaði, og þörfin fyrir þetta er svo mikil vegna þeirrar bjartsýni og framkvæmdaþarfar, sem nú er í landinu. Ef ríkisstj. hefði svelt þetta eða brugðizt þessu hlutverki, þá hefði heyrzt í þessum þingsölum: Höft, höft, höft, skömmtun, skömmtun, skömmtun.