15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér neinar kappræður við hv. 2. þm. Norðurl. e., því að við höfum gert það oft áður og getum átt tækifæri til þess síðar. En mig langar aðeins til að segja honum það, þegar hann talar um það, að ég hugsaði mér að verða vinsæll í sambandi við ýmsar fjárveitingar og væri það annað en íhaldssamur fyrirrennari minn, að ég heyrði það í vetur, þegar ég fór á fundi hjá starfsmönnum ríkisins á vegum BSRB, að þeir sögðust biðja bara um Magnús aftur. Ekki hljómar þetta nú þannig, að ég geti gert mér vonir um miklar vinsældir í viðskiptum við þegnana almennt.

Hitt verð ég líka að segja, að það er nú svo um það, sem veita á í þessum efnum, að það er ekki laust við að ég telji, að því hafi verið ráðstafað fyrir fram og það sé aðeins mitt hlutverk að greiða það út. En út í þetta ætla ég ekki að fara og heldur ekki hitt í sambandi við vinnuaflið, að það eru ekki mörg ár síðan það var mikið í umr. manna hér, hvað ætti að gera við þá stóru hópa manna, sem kæmu á vinnumarkaðinn, hvernig ætti að sjá þessu fólki fyrir atvinnu. Sem betur fer er ekki við það að stríða nú, en hitt er rétt, að það verður einnig að gæta að því, ef of mikið framboð er á slíku, en út í það skal ég ekki fara.

Ég ætlaði hins vegar að segja í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vék að, stöðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, að ég veit það vel, að hún var góð hinn 1. maí 1971, en ef farið er í árin þar á undan, þá var staðan mjög svipuð því sem hún er nú. Það hefur verið um langt árabil, að það má heita, að staðan hafi hlaupið á 10–12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs einmitt á þessum mánuðum. Hitt vil ég líka benda á, að með þeirri skipulagsbreytingu, sem gerð var við fjárlagaafgreiðslu í vetur með tilfærslu á milli ríkis- og sveitarfélaga, hlýtur það að fara svo, að á ríkið falla útgjöldin í ríkum mæli miklu fyrr en innheimta skattanna, og það hefur greinilega verið á þessum fyrri hluta ársins, að útgjöldin, sem ríkissjóður tók að sér að greiða, hefur hann orðið að standa við, eins og t. d. framlag til trygginganna, en hins vegar er hann ekki búinn að fá nema sáralítinn hluta af því aukna hlutfalli í sköttum, sem hann mun fá. Þetta hefur að sjálfsögðu veruleg áhrif á stöðuna nú, svo að ég geri mér jafnvel vonir um það, að einmitt næstu mánuðir — ég var að segja hv. 2. þm. Norðurl. e., að vegna þeirrar skipulagsbreytingar, sem gerð var í vetur á milli ríkisins og sveitarfélaga, þá hafa gjöldin komið til nú þegar á fyrri hluta þessa árs, t. d. framlagið til Tryggingastofnunar ríkisins, sem var aukið verulega frá því sem það var á fyrra ári, en tekjurnar af skattheimtunni, sem færast til á milli þessara aðila, hafa hins vegar ekki komið ríkissjóði að notum fram til þessa, — ég geri mér vonir um, því að það er háttur manna að reyna að trúa á það betra, að næstu mánuðir verði e. t. v. ekki eins óhagstæðir ríkissjóði í hlutfalli við fyrri ár, af því að þá fari þetta að breytast.

Ég skal nú ekki fara frekar út í þetta, en vil segja það, sem ég sagði í Nd., að eitt af þeim bréfum, sem á borði mínu lágu eða sem ég fór svona fljótlega að kíkja í eftir að ég kom í fjmrn., var bréf Seðlabankans um hugmyndina um ríkissjóðsvíxlana og rekstrarfjársjóðinn. Fyrirrennari minn hafði skrifað á horn bréfsins: „Athyglisverð tillaga, en verður að bíða fram yfir kosningar.“ Ég tek undir það með honum að mér finnst báðar þessar tillögur réttmætar og athyglisverðar. Ég álít alveg eins og hann, að það sé brýn nauðsyn á því, að ríkissjóður komi sér upp rekstrarlánasjóði, svo að hann sé ekki eins háður eða verðbólguvaldandi og hann verður megnið af árinu með því að vera alltaf í yfirdrætti við Seðlabankann, og ég álít líka, að þetta víxlaform, sem verður nú ekki mikið mál nema í blöðum, sé réttmætt, því að það jafni stöðu viðskiptabankanna við Seðlabankann og tryggi betur árslokin, sem allir keppa nú að, heldur en ef ekkert væri reynt í þessa átt. Þess vegna tek ég undir það með honum, við erum sammála um það, að þessar tillögur eru athyglisverðar og ber brýna nauðsyn til að koma þeim í framkvæmd.