15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur ekki gefið mér tilefni til að lengja hér mikið fundartíma, hins vegar upplýsti hann mig um það, að hann væri glaður að ganga mínar brautir, og ég get út af fyrir sig verið honum sammála um það. Hann segist hafa fundið eitthvert merkisbréf, sem ég hafi skilið eftir. Mig rámar nú í ýmis bréf frá Seðlabankanum. Hann skrifaði gjarnan um ýmsar hugmyndir, og ekkert er nema gott um það að segja, því að flestar voru þær athyglisverðar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur þetta bréf við höndina. Það vonandi glatast ekki. Ég var nú að spyrjast fyrir um bréfið í rn. í morgun og það kannaðist enginn við það, en ekki efa ég, að hæstv. ráðh. fari með rétt mál. Þó að það hafi nú verið skrifað á bréfið, að mér fyndist hugmyndin athyglisverð! Mig rámar í, að eitthvert bréf hafi komið, sennilega hefur þetta verið í apríl- eða maímánuði. Það kom mikið af bréfum þá, sem ég gjarnan skrifaði á, að yrðu að bíða fram yfir kosningar. Ég vissi nú lítið um það, hver sæti í því sæti eftir kosningar. Í sannleika sagt var, miðað við þá greiðslustöðu, sem ríkissjóður var í þá, engin sérstök þörf á að grípa til þessara aðgerða, en ég tel þetta athyglisverða hugmynd og efast ekkert um það, að hæstv. ráðh. fari rétt þar með, þó að ég muni ekki nákvæmlega eftir bréfinu, að þetta hafi verið skrifað á spássíu þess.

En ég held, að þetta bréf hafi ekki fjallað um ríkissjóðsvíxla, — kann þó að vera, að það hafi verið tæpt á þeim, — heldur fyrst og fremst um það, að nauðsynlegt væri, að ríkissjóður eignaðist rekstrarfjársjóð. Það held ég, að sé nú kjarni málsins, og eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, þá hef ég vikið að þessu oftar en einu sinni í fjárlagaræðum undanfarin ár, að það væri óviðunandi með öllu, að ríkið gæti ekki átt rekstrarfjársjóð, og það er þess vegna nauðsynlegt að gera ráð fyrir því næstu árin. Auðvitað eru ríkissjóðsvíxlar engin lausn í því sambandi, það er aðeins hugsað sem lántökuform, heldur leggi ríkið til hliðar ákveðna fjárhæð á hverju ári í rekstrarfjársjóð. Það, sem Seðlabankinn óttaðist, var það, að þetta mundi aldrei fást hér á hinu háa Alþ., og kann það að hafa verið rétt metið hjá bankanum, það mundi aldrei fást að hafa nokkurn teljandi greiðsluafgang á fjárlögum, og því miður hefur það yfirleitt aldrei fengizt. Ef menn hafa haft einhvern grun um, að væri til króna eftir, þá var sjálfsagt að eyða henni. Þá var það hugsun bankans, og mun vera hugsunin með útgáfu ríkissjóðsvíxlanna núna, að Seðlabankinn veiti ríkissjóði fastalán til að mynda rekstrarfjársjóð, sem yrðu síðan tekin í fjárlög, í vissum áföngum sem afborgun á lánum, þetta geti menn þó ekki neitað að gera. Þetta held ég, ef ég hef skilið fjmrh. rétt, að sé ætlunin hjá Seðlabankanum með þessari hugmynd. En hugmyndin um ríkissjóðsvíxlana er ekki frá mér komin, þó að ég hafi ekkert á móti því að bent sé á, að ég hafi talið þetta athyglisverða hugmynd. Við nánari athugun held ég, að hún þjóni ákaflega litlum tilgangi, aðalatriðið sé, að það sé áætlað fyrir greiðsluafgangi á fjárlögum, þannig að það geti myndazt varasjóður og þó fyrst og fremst að aldrei sé á þenslutímum greiðsluhalli á fjárlögum eða í reynd í ríkisbúskapnum eða á ríkisreikningi. Fjárlög nægja auðvitað ekki eða það nægir ekki að miða við þau ein, ef menn fara fram úr öllu valdi með útgjöld engu að síður. Ég held, að okkur hæstv. ráðh. greini ekki á í þessu efni, þó að okkur greini að ég hygg töluvert á um það, hvenær sé tímabært og hvað langt megi ganga á bankakerfið, á sparifjármyndunina í landinu, án þess að það leiði til stórfelldra vandræða fyrir atvinnulífið og fyrir borgarana, því að sannleikurinn er sá, sem við skulum ekki gleyma, að það er auðvitað alveg útilokað, þó að ætlazt sé til þess núna af stjórnvöldum, að loka sem allra mest fyrir öll lán til einstaklinga, það er ekki hægt nema að takmörkuðu leyti, vegna þess að það eru þó einstaklingarnir, sem eiga spariféð, og það getur leitt til mjög óheilbrigðrar og ranglátrar niðurstöðu og hættulegrar niðurstöðu, ef fólk er hrakið úr bönkunum, þá er ósköp hætt við, að spariféð fari smám saman sömu leiðina og leiti inn á aðra markaði. Þessu verðum við einnig að gera okkur grein fyrir og því miður er sparifjármyndun í bönkunum hlutfallslega minnkandi núna tvö síðustu árin. Þó að hún hafi vaxið í krónum, þá er hún minnkandi hlutfallslega, sem er uggvænlegt, og hún mun minnka hlutfallslega meira, ef of langt verður gengið í því að taka fé úr bankakerfinu, þannig að ekki sé hægt að fullnægja allra brýnustu þörfum atvinnuveganna. og einstaklinganna um smálán.