17.05.1972
Efri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjhn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1972. Framkvæmdaáætlunin hefur verið til umr. í báðum d. og jafnframt hefur henni verið útbýtt á borðin til hv. þm. Niðurstaðan af störfum fjhn. varð sú, að n. klofnaði um afstöðu til málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. fjhn., 1. og 2. minni hl., taka ekki þátt í afgreiðslu málsins og skila séráliti.

Af hálfu okkar, sem skipum meiri hl. n., er ekki neinu við það að bæta, sem áður hefur komið fram í þessu máli, þar sem ekki hefur verið talin ástæða til þess að breyta efni frv. að neinu leyti. Í málflutningi þeim, sem fram kemur hjá 1. og 2. minni hl. fjhn. snertandi þetta frv., er á það lögð mikil áherzla að vara við dýrtíðarþróuninni og verðbólguþróuninni hér á landi, og er að sjálfsögðu allur varinn góður. Auðvitað verður því ekki neitað, að ævinlega eru allþýðingarmikil tengsl á milli framkvæmda ríkisvaldsins annars vegar og hins vegar ástandsins í dýrtíðar- og verðbólgumálum í landinu, en ekki verður séð, að undan því verði vikizt, þrátt fyrir það að nokkur vandi sé á höndum ótvírætt í sambandi við dýrtíðarmál almennt, að haga gerð framkvæmdaáætlunar með öðrum hætti en gert hefur verið. Ég verð var við það, að í málflutningi stjórnarandstæðinga er áherzla á það lögð, að of miklu sé kostað til og það gefið í skyn, að verið sé að kynda undir verðbólgunni með óeðlilegum hætti með svo viðamiklum framkvæmdum, en rétt er að vekja sérstaka athygli á því, að af hálfu stjórnarandstæðinga hafa ekki komið fram neinar till. um lækkun á einstökum framkvæmdaliðum eða útlánum frá einstökum stofnlánasjóðum.

Sem sagt, meiri hl. fjhn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.