29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

89. mál, orlof

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 129, hefur orðið samstaða í n., en þó undirritum við tveir af nm. nál. með fyrirvara.

Þegar frv. var hér til I. umr. í hv. þd., beindi hæstv. félmrh. því til n., að hún tæki til greina breyt. á frv. í samræmi við það, sem fram kemur í niðurlagi grg. með frv. að séu óskir Alþýðusambandsins, þ.e.a.s. það eru brtt. í nál., sem eru nr. 3, a og b.

Við, sem undir nál. skrifum með fyrirvara, vorum nokkuð hikandi, satt að segja, við þessa breyt., sem liggur fyrir í frv., eins og það var lagt fyrir þd., og ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér það. Er sagt, að í samningum í byggingariðnaðinum muni vera í ýmsum tilvikum stefnt í þessa átt. Við höfum þó eftir atvikum fallizt á, að þessi brtt. verði flutt við frv. Hins vegar er getið þriggja ágreiningsmála í niðurlagi grg. með frv. Tvö atriði, sem hafa verið lögð til af fulltrúum Alþýðusambandsins, eru komin þarna inn í brtt., en það þriðja er aftur atriði, sem fulltrúar atvinnurekenda leggja til að breytist, og það er orlofsfjárhæðin. Í frv. er eiginlega meginbreytingin sú, að orlof lengist úr 21 degi í 24, það lengist sem sé um 1/7, og hefði þá orlofsfjárhæðin til samræmis við það átt að hækka úr 7% í 8%. Hins vegar mun þessi þriðjungur úr prósentu, sem þarna er bætt við það, sem eftir beinum útreikningi hefði átt að vera niðurstaðan, rökstuddur með því, að fastir starfsmenn fái orlof af orlofi, en um það sé ekki að ræða fyrir þá, sem taka orlofið í peningum. Það hefði mátt segja, að það hefði þá verið réttmætt að taka tillit til þessara þriggja atriða hjá báðum aðilum, sem þarna eru upp talin, en við, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, höfum þó tekið ákvörðun um að flytja ekki slíka brtt.

Ég vil láta þess getið, að mig rámar í, — ég hef ekki haft tíma til þess að ganga úr skugga um það, — að frv. hafi verið flutt hér á þingi um lengingu orlofs einmitt í 24 daga og jafnframt 8`,6 orlofsfjárhæð. Ég hef ekki getað kynnt mér það nú. Ég veit ekki heldur, hvort það hefði breytt afstöðu nokkurs manns til málsins. Það verður þá kannske hægt að rifja það upp, ef ástæða þykir til, síðar í meðförum málsins á hv. Alþingi.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, vildi aðeins gera grein fyrir þessum viðhorfum okkar, sem undir nál. skrifum með fyrirvara.