25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

10. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um frv. til l. um breyt. á l. nr. 30 27. júní 1921, um erfðafjárskatt. Með l. nr. 12 frá 30. jan. 1952 var svo kveðið á, að erfðafjárskattur skyldi renna í sérstakan sjóð, sem nefndist erfðafjársjóður. Í 2. gr. þeirra laga, sbr. líka lög nr. 36 frá 10. maí 1965, segir svo:

„Fé því, sem rennur í erfðafjársjóð samkv. 1. gr., skal varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni, að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum. Er heimilt að veita sveitarfélögum, öðrum félögum og einstökum mönnum lán og styrki úr sjóðnum í þessu skyni, en þó fari samanlagðar upphæðir lána og styrkja ekki fram úr 2/3 af stofnkostnaði vinnuheimilis, eða vinnustofu og vinnutækja. — [Ef fjárhagur sjóðsins leyfir, er enn fremur heimilt að veita framangreindum aðilum lán úr sjóðnum með sömu skilmálum til þess að koma upp elliheimilum.]“

Hlutverk erfðafjársjóðs er í raun og veru að endurhæfa það fólk, sem af einhverjum ástæðum getur ekki séð sér farborða með eigin vinnu, eða skapa aðstöðu fyrir það til þess, að það geti starfað að nytsamlegum verkefnum. Tilgangurinn er þannig tvíþættur. Annars vegar bættur þjóðarhagur með aukinni sköpun verðmæta, sem fást við betri nýtingu vinnuafls, og hins vegar aðstoð við þá, sem sökum bæklunar eða af öðrum ástæðum geta lítið eða ekkert aðhafzt og verða þannig vonlausir og vansælir og finna engan tilgang með tilveru sinni. Markmiðið er að útvega slíku fólki verkefni við sitt hæfi, svo að það geti lifað hamingjusömu lífi.

Með l. nr. 27 frá 27. apríl 1970 voru svo sett lög um endurhæfingu. Í lögunum um endurhæfingu er gert ráð fyrir áætlun um þörf endurhæfingarstöðva og vinnustöðva fyrir fólk með varanlega skerta starfshæfni. Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir stærð stofnananna, staðsetningu þeirra, verksviði og búnaði. Við samningu áætlunarinnar skal taka tillit til nýjunga í endurhæfingarmálum og stefna að því, að ráðstafanir til endurhæfingar svari jafnan sem bezt kröfum tímans. Þessi áætlun skal gerð fyrir árin 1972–1982. Með áætlun þessari skal stefnt að sem beztri starfrækslu endurhæfingarstöðva og vinnustöðva í landinu. Í sambandi við áætlunargerðina skal endurhæfingarráð hlutast til um, að verksvið hinna ýmsu stofnana verði samræmt og skipulagt, svo að rekstur þeirra verði eins hagkvæmur og kostur er á. Endurhæfingarráðið hefur sem sé aðeins starfað skamman tíma eða frá því að lögin voru sett á árinu 1970.

Í lögum um endurhæfingu segir enn fremur, að til þess að koma á fót sjálfstæðum endurhæfingarstöðvum skuli veita fé úr erfðafjársjóði, eftir því sem fé er fyrir hendi, svo sem hér greinir: a) styrk, sem nemi allt að þriðjungi stofnkostnaðar, b) lán, sem nemi allt að þriðjungi stofnkostnaðar. Þ. e. a. s. lán og styrk, 2/3 stofnkostnaðar. Lánið skal vera til 15 ára með 5% ársvöxtum, tryggt með 2. veðrétti í endurhæfingarstöðinni, næst á eftir 1. veðréttarláni, sem má nema allt að 20% af stofnkostnaðinum. Þar að auki er í þessum lögum gert ráð fyrir styrk úr erfðafjársjóði til þess að koma á fót vinnustöðvum fyrir öryrkja. Slíkur styrkur má nema allt að 40% af stofnkostnaði vinnustöðvanna. Loks er svo heimilt að veita fé úr erfðafjársjóði til þess að koma á fót dvalarheimilum fyrir öryrkja til íbúðabygginga slíkra sem Öryrkjabandalag Íslands er nú að koma upp, en þar er um að ræða byggingu ca. 250 leiguíbúða fyrir öryrkja. Í þessu skyni má veita lán úr erfðafjársjóði, sem nemur allt að fjórðungi byggingarkostnaðar, og styrk, sem nemur sömu upphæð, eða m. ö. o. lán og styrk, sem nemur allt að helmingi kostnaðar.

Af framansögðu er ljóst, að það er brýn þörf á því að auka mjög verulega tekjur erfðafjársjóðsins, ef hann á að geta risið undir sínu margþætta og viðamikla hlutverki, sem er afmarkað og honum ætlað samkv. gildandi lögum. Lög um erfðafjárskatt eru frá árinu 1921, 50 ára gömul, og eru því af skiljanlegum ástæðum úrelt í ýmsum efnum, t. d. eru þar allar fjárupphæðir, sem nefndar eru, út úr öllu korti og skattþrepin á milli þessara lágu upphæða, sem þar eru nefndar, aðeins 1000 kr. Í stighækkun skattsins samkv. lögunum er 1/4% við hvert þrep í 1. erfð, 1/2% við hvert þrep í 2. erfð og um 1% við hvert þrep í 3. erfð. Sú breyting, sem felst í frv., er fólgin í stækkun og fækkun skattþrepanna. Þannig er lagt til að hvert skattþrep verði nú 200 þús. kr. og að fullri hækkun verði náð, þegar arfur fer yfir 1 millj. kr. Hámarksskattur er eftir frv. sá hinn sami og er eftir gildandi lögum, og þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir l., 2. og 3. erfð.

Í 1. erfð samkv. frv. er erfðafé, sem hverfur til þess hjóna, sem lifir hitt, til niðja, kjörniðja og fósturbarna, svo og þriðjungshluti, ef ráðstafað hefur verið með erfðaskrá til annarra. Í 2. erfð er erfðafé, sem hverfur til foreldra hins látna eða niðja þeirra, sem ekki heyra undir 1. erfð. Í 3. erfð er fé, sem hverfur til afa eða ömmu hins látna eða niðja þeirra, sem ekki heyra undir 1. og 2. erfð.

Efnahagsstofnunin hefur athugað fyrir rn., hverju álagður erfðafjárskattur nemur miðað við skipt bú á árinu 1969 utan Reykjavíkur og á árinu 1970, að því er varðar Reykjavík. Athugunin sýnir, að skatturinn nemur miðað við þetta 10.1 millj. kr. Samkv. áætlun Efnahagsstofnunarinnar má gera ráð fyrir, að tekjur erfðafjársjóðs aukist allverulega við lögfestingu þessa frv. eða í ca. 36.1 millj. kr. á ári. Ástæðan fyrir þessari hækkun þrátt fyrir lækkun skattsins liggur í hinu nýja fasteignamati, sem öðlast gildi um þessi áramót. Fasteignir hækka mjög verulega miðað við hið nýja mat eða 15–20 faldast, og þegar arfur er fólginn í fasteign, hækkar skatturinn, þar eð matið er lagt til grundvallar á útreikningi skattsins.

Í fskj. nr. 2 með frv. eru nokkur dæmi um álagningu skattsins miðað við núgildandi og nýtt fasteignamat. Dæmin fjalla um arf til maka og tveggja barna, um arf til þriggja barna og um arf til þriggja systkina. Af þessu fskj. má sjá þær breytingar, sem hið nýja fasteignamat mun hafa í för með sér varðandi þennan erfðafjárskatt.

Ég vil að lokum árétta, að hin brýna þörf fyrir auknar tekjur til erfðafjársjóðs yrði að verulegu leyti leyst, ef þetta frv. verður að lögum. Og með tilliti til þeirra raka, sem ég hef áður gert grein fyrir um fjölþætt og viðamikið verkefni erfðafjársjóðs, þá treysti ég því, að hv. þd. fallist á það að samþykkja þessar breytingar á lögunum um erfðafjárskatt og erfðafjársjóð.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.