26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

10. mál, erfðafjárskattur

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Frv. til l. um breyting á l. nr. 30 frá 27. júní 1921 um erfðafjárskatt hefur legið nokkuð lengi fyrir til afgreiðslu hjá heilbr.- og félmn., og hefur þetta mál dregizt nokkuð af ýmsum ástæðum. N. fjallaði um þetta á nokkrum fundum og umsagnir um þetta mál bárust frá Dómarafélagi Íslands, Hús- og landeigendasambandi Íslands og lagadeild Háskóla Íslands. Ekki tókst n. að fá samstöðu um þetta mál, og hún klofnaði, og mæli ég fyrir munn meiri hl. n.

Meiri hl. n. flytur á þskj. 518 brtt. við frv. Þessar brtt. eru fremur til skýringarauka, en í þeim felast ekki meiri háttar efnisbreytingar. Við 2. gr. frv., staflið D, hefur meiri hl. n. talið rétt að fá örlítið skýrari merkingu varðandi þá aðila, sem eiga að greiða 10% af erfðafé, þannig að í stað þess, sem segir í frv., að af erfðafé, sem fari til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga, stofnana eða annars slíks, skal greiða 10%. Okkur þótti orðalagið „annars slíks“ eilítið ankannalegt, þannig að við höfum gefið þessu merkingarlega festu eða a. m. k. meiri festu með því að orða þetta á þessa lund: „Af erfðafé, sem hverfur til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga, líknar- og menningarstofnana, skal greiða 10 af hundraði.“ Þetta er í raun og veru engin breyting á framkvæmd, því að hér mun vera átt við líknar- og menningarstofnanir. Af sams konar skýringartagi er önnur breyting frá meiri hl. n., þar sem skotið er inn orðunum „öðrum en fasteignum“ í upphafi 6. gr. En í frv. segir svo: „Ef ekki fer fram sala á opinberu uppboði á fjármunum, sem falla í erfðir, skal“ o. s. frv. Þarna þótti rétt að skjóta inn „öðrum en fasteignum“, því að mat á fasteignum fer að sjálfsögðu eftir fasteignamati, svo að þetta er eingöngu orð til fyllingarauka. Þriðju breytinguna leiðir náttúrlega af sjálfu sér.

Lög um erfðafjárskatt munu vera hálfrar aldar gömul og einu ári betur. Þær breytingar, sem hér er um að ræða á þessum gömlu lögum, varða nær eingöngu skattstigann og skattþrepin, og aðaltilefni frv. er að sjálfsögðu hið nýja fasteignamat, sem tók gildi frá síðustu áramótum. Í umsögn frá lagadeild Háskólans er bent á, að æskilegt væri að framkvæma heildarendurskoðun á þessum lögum, og ég hygg, að n. öll geti tekið undir það.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um brtt. minni hl. n. Þessar till. frá minni hl. varða að verulegu leyti skattstigann, skattþrepin. Og slíkur skoðanaágreiningur stafar að verulegu leyti af því, að hér kemur til grundvallarmunur á pólitísku viðhorfi. Þetta pólitíska viðhorf minni hl. kemur fram á þskj. 542, þar sem raktar eru nokkrar þær ástæður, sem eiga að styðja það rökum, að erfðafjárskattur skuli vera sem minnstur. Í stuttu máli vil ég nú segja, að þetta nál. er svona einhvers konar evangelíum eignarréttarins eða hósíanna eignarréttarins, ef menn vilja orða það þannig, og ég skal nú ekki fara að ræða þetta sérstaklega, því að hér er komið inn á grundvallaratriði í stjórnmálum og lífsviðhorfum, þ. e. eignarréttinn, og hvernig hann skuli túlkaður og metinn í nútímaþjóðfélagi. En ég get þó ekki stillt mig um að benda á, að hér kemur fram í nál. atriði, sem ég tel að ekki sé unnt að fallast á. T. d. segir svo:

„Hár erfðafjárskattur er til þess fallinn að draga úr áhuga manna til eignamyndunar. Fáir unna ríkissjóði svo mjög, að þeir vilji slíta sér út til þess eins, að ríkissjóður eignist þeim mun meira að lokinni vist þeirra hérna megin grafar.“

Það er einhver póesía í þessu. Menn tala yfirleitt svona um andleg verðmæti, en nú eru hin eignarréttarlegu verðmæti meginatriði hérna megin grafar. Enn fremur segir: „Erfðafjárskattur er eitt af tækjunum til að jafna allt út í meðalmennsku.“ Nú er sannleikurinn sá, eins og allir vita, að erfðafjárskattur er nauðsynlegur til þess að geta haldið uppi umbótastarfi í þjóðfélaginu, og má minna á t. d. England, þar sem alveg fram á þessa öld var ríkjandi eins konar lénsaðall. Einstakir menn áttu miklar lendur og svo safnaðist múgurinn og öreigalýðurinn í stórborgirnar. Ef ekki kæmi til stórkostlegur erfðafjárskattur í Englandi, þá væri ekki unnt að gera neinar verulegar þjóðfélagsbreytingar eða vinna umbótastarf. Meginvandamál t. d. í Suður-Ameríkuríkjunum, svo að ég fari nú svo langt, er, að það eru yfirleitt örfáir menn, sem eiga lönd og búslóð, búpening, og þar er erfitt að koma við þjóðfélagsumbótum, af því að eignarrétturinn hefur safnazt á allt of fárra manna hendur. Mig langar aðeins í þessu sambandi að víkja að því, að það er vaxandi skilningur á því, að sumir menn auðgast ekki kannske eingöngu af eigin dugnaði heldur líka af hreinum félagslegum ástæðum, ekki sízt í þenslu- og verðbólguþjóðfélagi eins og á Íslandi, þar sem menn geta t. d. keypt móa og mela rétt utan við kauptún, átt það í nokkur ár og svo selt á margar millj. án þess að greiða eyri til ríkisins; engin verðmætaaukning hefur verið lögð fram að þessu leyti. Þannig vil ég minna á, að ýmsar hallir hér, kaupsýsluhallir við Suðurlandsbraut voru afhentar einstaklingum og fyrirtækjum, án þess að gatnagerðargjald væri greitt. Þessi aðstaða gefur þessum einstaklingum og hlutafélögum í aðra hönd margar millj., ef til sölu kæmi. Þetta er auðvitað arður eða fé, sem einstaklingarnir hafa komizt yfir af hreinum félagslegum orsökum, og er ekkert annað eðlilegra en þessir hinir sömu láti eitthvað, þegar frá þessu er horfið. Og ég vil líka halda áfram þeirri hugsun, að einmitt verðbólga knýr á um háan erfðafjárskatt. Og það er ekki hægt að mynda, reka velferðarþjóðfélag nema þar komi til hár erfðafjárskattur. En hitt vil ég svo benda á, að þessi erfðafjárskattur, sem hér er um að ræða samkv. frv., er óvenju lítill. Sannleikurinn er sá, að ég hygg, að það megi fullyrða, að hvergi í nálægum löndum muni vera eins lágur erfðafjárskattur og gert er ráð fyrir í þessu frv., þannig að allt tal um, að hér sé stefnt ofan í meðalmennsku eða hér sé einstaklingum með erfðafjárskatti gert erfitt um að halda saman fyrirtækjum, það á ekki við rök að styðjast.

Ég ætla ekki að fjalla um þetta meira, því að það er ástæðulaust. En ég hygg, að öll n. geti orðið sammála um það að æskja þess, að það dragist nú ekki hálfa öld að endurskoða erfðafjárskattslögin og þá megi fljótlega taka þau upp til heildarathugunar.