26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

10. mál, erfðafjárskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 1. brtt. meiri hl. hv. n., og sýnist mér vera full nauðsyn á því, þótt ekki væri til annars en að kveða nánar en gert er í brtt. n. á um þá aðila, sem þarna er getið um. Það er í till. meiri hl. n. getið um gjafasjóði, en engin frekari skilgreining á því. Virðist mörgum, að vel geti komið til mála, að ef þessi brtt. yrði samþ. svona óbreytt, þá sé komin opin heimild fyrir hina og þessa aðila til þess að setja á stofn hina og þessa gjafasjóði, sem hægt væri svo að ráðstafa fé til. Mér finnst rétt, að þarna komi frekari skilgreining á, þarna sé um að ræða gjafasjóði, sem hafi fengið staðfestingu forseta Íslands á skipulagsskrá sinni.

Þá er eitt atriði í þessari brtt. hv. meiri hl. n. Þar er talað um félög og engin nánari skilgreining á því. Þarna virðist sem sagt geta verið um að ræða bridgefélög, hestamannafélög, íþróttafélög, ferðafélög og sitthvað fleira. Það má segja, að öll séu þessi félög góðra gjalda verð og sjálfsagt mikil umhótafélög og má vera, að meiri hl. n. stefni að því, að slíkur félagsskapur geti notið þessara ákvæða. Ég legg hins vegar til, að þetta orðist á þann veg, að það séu félög og stofnanir, sem vinna að líknar- og menningarmálum. Enn fremur legg ég til, að prósentutalan lækki úr 10 í 7%.