26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

10. mál, erfðafjárskattur

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vil minnast á. Það fyrra varðar brtt. hv. 10. þm. Reykv. á þskj. 544. Hann lét orð að því liggja, að orðið „félag“ í þeirri gr. mætti túlka sem hestamannafélag eða bridgefélag o. s. frv. Ég hugsa, að það hafi nú aldrei verið ætlunin né heldur verið þannig í framkvæmd. Um þessa brtt. er það að segja, að hún þrengir nokkuð merkinguna með orðunum: „sem fengið hafa staðfestingu forseta Íslands á skipulagsskrá.“ Þetta er víðara í frv. og þá í þeirri breytingu, sem kemur frá meiri hl. n. Ég vil benda á, að rn., félmrn. er með dálítið rúmu orðalagi gefið svigrúm til að túlka þetta á sinn hátt, en binda það þó við mannúðar- og líknarsjónarmið. Það er grundvallaratriðið í þessu, þ. e. að eingöngu félög eða stofnanir, sem vinna að mannúðar- eða líknarmálum, njóta þessara hlunninda, sem skýrt er frá í þessari gr. Og ég hygg nú satt að segja, að það geti verið hagkvæmt fyrir rn. að geta haft dálítið svigrúm til þess að veita slíkum stofnunum þau hlunnindi. sem hér um ræðir, og að þetta sé ekki of bókstaflega orðað, þannig að ég tel rétt að halda því orðalagi, sem gert er ráð fyrir hjá meiri hl. n.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, var varðandi þá hugmynd minni hl., að eftirlifandi maki þurfi ekki að greiða erfðafjárskatt, m. ö. o. að eftirlifandi maki skuli ekki teljast erfingi að eigum látins maka. (Gripið fram í.) Já, skuldlaus erfingi. Það er alveg rétt hjá hv. 11. landsk. þm., að um þetta var rætt mikið í n. og þetta kemur vissulega til álita. Ég hefði talið eðlilegt að hafa ákvæði um það, að arfahlutinn væri ekki umfram ákveðna eign, þannig að ef um óverulega eign sé að ræða, þá mætti sýna þarna einhvers konar linun. Hins vegar tel ég enga ástæðu til þess að gera það, ef þarna er um verulega fjármuni að ræða. En vafalaust mun þetta atriði ásamt öðrum koma mjög til álita síðar meir við næstu endurskoðun laganna.